08.11.1976
Neðri deild: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

4. mál, umboðsnefnd Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir ræðuna og undantektirnar, sem sýndu að hún hefur af fullri alvöru íhugað þær hugmyndir sem fram komu í frv.— enda þótt hún hefði á þessu stigi ýmislegt við þær að athuga. Það þykir mér vera fullkomlega eðlilegt og virðingarvert.

Mér fannst af athugasemdum hennar sem viðhorf hennar til málsins væri allt of lögfræðilegt — (Gripið fram í: Minntu mig ekki á þetta.) — með fullri virðingu, ég segi þetta ekki af neinni misvirðingu við lögfræði, lögmannastéttina eða það fag. Ég hygg að sú reynsla, sem fyrir liggur, sýni að trúnaðareðli þeirra mála, sem þarna er um að ræða, sé miklu minni þáttur heldur en hún óttast. Nú skal ég sýna hv. n. nokkrar skýrslur úr þýska þinginu þar sem mál eru rakin hvert á fætur öðru, sem fram hafa verið lögð, og þau eru flokkuð í efnisflokka, mig minnir að í þeirri skýrslu, sem ég hef undir höndum, sem er sú síðasta sem út hefur komið, sé um 22 efnisflokka að ræða. Þetta eru ákaflega mikið ýmis atriði sem eru afleiðingar af hinu flókna velferðarkerfi nútímaríkja. Og það er miklu algengara, að því að mér virðist. að það komi upp tilvik sem eru eins konar fordæmi Einhver einstaklingur hefur t.d. ekki gert sér nógu ljósa grein fyrir rétti sínum og því misst af mikilvægum hlunnindum, t.d. í tryggingarkerfi, og við það að þessi einstaklingur kvartar og fær þn. til þess að grafa til botns í málinu, þá kann að vera að tugir annarra einstaklinga heyri um þetta og átti sig á málinu líka. Þetta er miklu algengara heldur en hitt, að mál séu persónulegs eðlis, eins og ýmislegt sem menn leita til lögmanna sinna um og óska þeirra aðstoðar við, og að þagnarskylduákvæðið skipti verulegu máli. Engu að siður taldi ég rétt að það væri fyrir hendi ákvæði um þagnarskylduna ef slík mál koma fyrir, af því að ég vil ekki að málsmeðferð verði til þess að gera neinum einstaklingi nýtt tjón á þann hátt að gera viðkvæmt mál opinbert.

Ákvæði um starfsmann og starfsaðstöðu eru að sjálfsögðu á þessu stigi ekki nákvæmari heldur en ákvæðin um aðstöðu og starfslið umboðsmanns í frv. um hann. Það gildir jafnt um hvort tveggja og verður reynslan að skera úr um þörf, þannig að þar er álíka tryggilega um búið hjá báðum.

Eitt líkaði mér ekki alls kostar í athugasemdum hv. þm. Það var skoðun hennar, að stjórnkerfið sé svo flókið og svo erfitt að rata um það að þm. séu engir menn til þess. Hverjir bjuggu þetta kerfi til? Getur það verið að arkitektinn rati ekki um húsið sem hann hefur teiknað? Er nokkrum manni frekar trúandi til þess að finna leiðir heldur en einmitt þeim sem setja lögin sem verið að að framkvæma? Að því leyti held ég að Alþ. sjálft hafi ólíkt meiri og sterkari aðstöðu heldur en nokkur embættismaður.

Við sjáum það oft á tíðum, þegar við erum að rannsaka ýmis mál og eigum erindi í opinberar stofnanir, að það er ekki sérlega mikil virðing borin fyrir því þegar þeir eru að skrifa hver öðrum, jafnvel á milli hæða í sama húsi, frá einu embætti til annars. En ég hygg að embættiskerfið allt eigi svo mikið til Alþingis að sækja, að afskipti Alþ. af slíkum málum mundu fá allt aðra meðferð og skjótari heldur en hvers sem væri annars.

Um einstök atriði skal ég ekki gerast langorður, enda eru flest framkvæmdaratriðin sniðin eftir frv. um umboðsmann, en aðeins reynt að breyta því er þingnefnd gerir hreytingu óhjákvæmilega vegna þess að hún er annar aðili heldur en einstakur embættismaður. Ákvæði í 6. gr. um það, að mál falli ekki niður á milli þinga, er eingöngu vegna þess að öll þingmál falla niður þegar þingi er slitið. En erindi sem þessi, sem ekki eru þingmál í venjulegum skilningi, geta lotið þeirri reglu að n. fjalli um þau áfram þangað til hún telur að hún hafi lokið meðferðsinni á þeim, jafnvel þó að þingi sé slitíð og sumartíminn komi á milli. Þetta er öryggisatriði fyrir umkvartendur sem ég taldi nauðsynlegt að væri þarna.

Í 11. gr. er talað um að umboðsnefnd eða einhverjir í henni geti komist að þeirri niðurstöðu, að þær upplýsingar, sem hún fær út af einhverju máli, geri óhjákvæmilega breyt. á lögum. Og ástæðan til þess að það er tilgreint hvernig með skuli fara þarna, m.ö.o. að umboðsnefnd skuli vísa málinu til annarrar n., er eingöngu til að fyrirbyggja að umboðsnefnd gerist einhvers konar yfirnefnd í þinginu. Ef hún t.d. kemst á þeirri niðurstöðu að breyta þurfi ákveðnu atriði í tryggingalögunum, þá finnst mér eðlilegra að n. sem slík sendi málið til þeirrar n. í þinginu sem fjallar um tryggingamál. En að sjálfsögðu geta svona lög ekki breytt neinu um ákvæði stjórnarskrárinnar um réttindi einstakra þm. Það gæti vel verið að það kæmi upp svo stórbrotíð og nýstárlegt mál að nm mundu ekki hugsa neitt um slíkt form og flyttu sem einstakir þm. málið. En við skulum líka íhuga að þó allir þm. séu jafnir, þá eru sumir jafnari en aðrir, m.ö.o. þeir þm., sem styðja ríkisstj. á hverjum tíma, hafa að vissu leyti, eins og eðlilegt er, betri aðstöðu til að hafa áhrif á, hvað Alþ. afgreiðir, heldur en stjórnarandstaðan sem gegnir dálítið öðru hlutverki, þó að þetta sé engan veginn algilt og eigi ekki að vera. Og einmitt vegna þess að það gæti farið svo, að minni hl. þm. teldi breyt. á lögunum nauðsynlega eftir að hafa kynnst máli, þá er eðlilegt að hann geti farið þessa formlegu leið til að koma málinu á framfæri án þess að þurfa að flytja það sjálfur sem stjórnarandstöðuþm. og þá með svona 90% líkum á því að komast ekki lengra. M.ö.o.: þessi ákvæði í 11. gr. benda aðeins á fleiri leiðir, en eyðileggja ekki og loka ekki neinni leið sem einstakur þm. hefur fyrir.

Að lokum þetta með hlutleysið: Ég skal ekki segja hvort menn telja embættismenn á Íslandi hlutlausa. Margir þeirra eru það að sjálfsögðu og hlutleysi þeirra ekki umdeilt, þó að e.t.v. sé ekkert til sem er hægt að kalla hreint hlutleysi, eins og hv. þm. benti á. Hins vegar sakar ekki að íslenska þjóðin fái að vita að 90% af störfum Alþingis eru unnin án tillits til flokka, þar sem þm. starfa sem þm. og að málum sem er í höfuðdráttum samkomulag um. En eðli fjölmiðla og eðli þeirra laga, sem við höfum sjálf sett um útvarp frá Alþ., er þannig, að þjóðin fær aldrei neitt að heyra héðan nema þegar við erum að rífast og skammast.

Ég tel enga ástæðu til þess að segja, að vilji menn finna hlutlausan aðila, þá verði ekki leitað til Alþ. Ef menn hugsa þannig, þá verður að brjóta það niður. Reynslan er líka sú, að í Þýskalandi er í yfirlitsgreinum og bæklingum, sem ég hef lesið um þetta, sagt afdráttarlaust að þessar n séu án undantekninga hafnar yfir pólitíska flokkadrætti, og það hefur ekki reynst vera vandamál. Ég vænti þess, að það þurfi ekki að vera hér hjá okkur heldur.

Ég vil svo ítreka þakkir mínar fyrir ræðuna og þau atriði sem hv. þm. hefur borið fram og sjálfsagt er að íhuga. Ég endurtek það, sem ég sagði í lok framsöguræðu, sem er hið sama sem hv. þm. endaði á: Ef einhver vill hafa fyrir því að kanna þetta mál frekar og getur sannfært mig um að annað kerfi sé betra en þetta, þá er ég reiðubúinn að láta sannfærast.