03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4168 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

214. mál, endurskoðun á opinberri atvinnu- og þjónustustarfsemi

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra for­seti. Á þskj. 440 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. um endurskoðun á opin­berri atvinnu- og þjónustustarfsemi.

Eitt af hinum eilífu umræðuefnum stjórnmálanna eru umsvif ríkisvaldsins, aukin völd stjórn­sýslu- og embættismanna, útþensla skrifstofu­báknsins og afskipti og bein þátttaka ríkisins í rekstri atvinnu- og þjónustufyrirtækja. Umr. um verksvið ríkisins tengjast inn í flesta málaflokka, hvort heldur á dagskrá eru ráðstafanir gegn verðbólgu, skattamál, atvinnumál sem og almennar þjóðmálaumr. um ríkisútgjöld og hlutverk ríkisins í þjóðfélaginu. Enda þótt flestir hinna borgaralegu flokka séu sammála um að hér þurfi að sporna við fótum og mjög þurfi að vera á verði gagnvart völdum og umsvifum opinberra stofnana og fyrirtækja, þá hefur lítið verið aðhafst svo að áþreifanlegt sé.

Heilir og öflugir stjórnmálaflokkar gefa út stórorðar stefnuyfirlýsingar þar sem lýst er hálfgerðu og stundum algeru stríði á hendur ríkisvaldinu. Fylgi flokka og örlög ríkisstj. ráðast jafnvel af slíkum yfirlýsingum. En því miður vill oft sárlega dragast að staðið sé við stóru orðin. Aðgerðir eru þá gjarnan meir til mála­mynda, takmarkaðar og máttlausar.

Hér er ekki alltaf og eingöngu við ríkisstj. og forustumenn að sakast. Stundum er eins ort þm., sem eru þó í orði kveðnu andvígir of miklum ríkisumsvifum, hafi gefist upp og verið þvingaðir af því hugarfari, að ekkert sé unnt að framkvæma nema ríkisvaldið eigi þar hlut að máli.

Till. sem daglega berast á borð í hinu háa Alþ. yfir þingtímann, eru ákaflega margar með því marki brenndar, að ríkisstj. eða opinber stjórnvöld skuli beita sér fyrir þessu eða hinu. Lagðar eru fram till. eða frv. sem kalla á starfsemi, kostnað, skriffinnsku eða annars konar aðgerðir af hálfu ríkisins. Þetta á við um þm. allra flokka og ég undanskil sjálfan mig ekki í þeim efnum.

Ekkert er við því að segja að ríkið hafi forustu í félagslegri aðstoð, að tryggingakerfið sé öflugt og komi að raunverulegu gagni, að skóla­kerfið sé virkt, að haldið sé uppi opinberri þjónustu sem óhjákvæmilegt er í nútíma velferðarþjóðfélagi. En með þessari fsp. er verið að minna á að slík þjónusta og tryggingakerfi eigi ekki að ganga út í öfgar. Það má a. m. k. um það deila, hvort ekki sé komið út í öfgar þegar samþykkt eru lög sem fela í sér tryggingabætur til borgara sem eru efnahagslega svo vel stæðir að slíkar bætur breyta engu um afkomu þeirra. Og það er verið að vekja athygli á því, að ríkið hefur á sinni hendi margvíslega atvinnu- og þjónustustarfsemi sem með góðu móti mætti og ætti að vera í höndum einstaklinga eða félagasamtaka á þeirra vegum. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að leggja slík fyrirtæki niður, ekkert til að endurskoða forsendur þeirra út frá breyttum aðstæðum. Og síðast, en ekki síst er verið að opna augu manna fyrir þeirri alvarlegu staðreynd, að þegar ráðast þarf í nýja atvinnustarfsemi hér á landi sem krefst verulegs fjár­magns, þá hafa fáir sem engir einstaklingar eða félagasamtök fjárhagslegt bolmagn til að standa undir eða taka að sér slíka atvinnustarfsemi. Stofnun hlutafélags um saltefnaverksmiðju var gleðileg undantekning frá þessari reglu.

Á vegum ríkisins eru nú rekin margvísleg fyrirtæki. Má þar nefna prentsmiðju, útgerð, verkstæði, verksmiðjur, ferðaskrifstofu, lyfjaverslun og grænmetisverslun, svo að eitthvað sé nefnt. Þá á ríkissjóður hlutafé í fjölmörgum fyrirtækjum. Þessi ríkisafskipti hafa lengi verið mér þyrnir í augum og ég undrast þá töf sem orðið hefur á því að slíkur ríkisrekstur yrði tekinn taki og þróun undanfarinna áratuga yrði snúið við. Ég gladdist því mjög þegar fjmrh. gerði þessi mál að umtalsefni í fjárlagaræðu sinni nú í haust og sagði þá m. a.:

„Ég hef áður lagt á það áherslu, að ekki má missa sjónar á því, að allur kostnaður af starfsemi opinberra aðila er borinn sameiginlega af þegnunum, og því er það skylda þeirra, sem með stjórn fara á hverjum tíma að gæta þess, að þeim fjármunum sé varið á sem hagkvæmastan hátt. Sérstaklega er þetta atriði þýðingarmikið þar sem opinber rekstur nýtur ekki sama aðhalds og rekstur einstaklinga og félaga sem er háður sam­keppni innanlands og utan.

Eins og ég gat um í fjárlagaræðu minni fyrir árið 1976, hélt hæstv. fjmrh. áfram, „taldi ég nauðsynlegt að athugun færi fram á hvort grundvöllur sé fyrir ýmissi atvinnu- og þjónustustarfsemi sem hið opinbera hefur með höndum og hvort það þjóni betur almannahagsmunum að sú starfsemi skuli vera í höndum einstaklinga eða félaga þeirra. Ekki hefur verið unnt að sinna þessu starfi sem skyldi vegna annarra verkefna sem meiri áhersla hefur verið lögð á í starfsemi rn., en ábendingar hafa verið gerðar um að meta þyrfti að nýju hvort nauðsynlegt sé að reka á vegum ríkisins sérstaka skipaútgerð og ferða­skrifstofu sem ekki sinni öðrum verkefnum en einkaaðilar á sama sviði. Samhliða þessum athugunum tel ég raunar nauðsynlegt að gerð verði könnun á starfsemi og rekstri allra ríkisstofnana, kannað verði hver sé tilgangur með starfi hverrar stofnunar og jafnframt verði skoðað á hvern hátt þeim tilgangi sé náð og hvernig fjármunum, sem löggjafinn ætlar til viðkomandi starfa, sé varið.“

Að lokum sagði hæstv. fjmrh, um þetta efni: „Ekki er ástæða til að taka almenna ákvörðun um það í eitt skipti fyrir öll, hver skuli vera hlutdeild ríkisins í atvinnurekstri landsmanna. Ég hef áður gert grein fyrir því og lýst þeirri skoðun minni og leyfi mér að ítreka hana hér, að ríkið eigi ekki aðild í neins konar atvinnu­starfsemi í landinu í samkeppni við einstaklinga eða félög, sem sinnt geta þeim störfum á full­nægjandi hátt, heldur láti þeim þau verkefni eftir.“

Eftir að hafa innt nokkrum sinnum eftir aðgerðum og efndum í samræmi við þessi ummæli, leyfði ég mér að bera fram fsp. hér á hinu háa Sþ., þá fsp. sem hér er á dagskrá, og bar svo við, að sama dag og hún kom fram var gefin út frétta­tilkynning frá fjmrn. um skipun nefndar sem framkvæma skyldi endurskoðun á opinberri atvinnu- og þjónustustarfsemi. Um leið og ég fagna þessari nefndarskipun óska ég nú nánari upplýs­inga um störf þessarar n., að hvaða verkefnum hún skuli einbeita sér, hvernig störfum hennar verði hagað, hvenær hún ljúki störfum o. s. frv.