03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

214. mál, endurskoðun á opinberri atvinnu- og þjónustustarfsemi

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Að svo miklu leyti sem hæstv. fjmrh. svaraði fsp. minni beint vil ég þakka fyrir það svar. Hann hefur hins vegar notað tækifærið til þess að kynna fyrir hv. Alþ. helstu niðurstöður af ríkisreikningi sem nú í dag berst á borð okkar þm., og ég skil þær upplýsingar svo, að hann vilji með því undirstrika að niðurstöður ríkis­reikningsins beri vott um að stefnt sé í þá átt sem við væntanlega báðir viljum varðandi um­svif ríkisins. Fsp. mín fól í sér það álit mitt og væntanlega hæstv. fjmrh., að snúa þurfi við þeirri þróun sem verið hefur í ríkisumsvifum og vaxandi áhrifum ríkisins hvarvetna í þjóð­félaginu. Ég þarf ekki að rekja röksemdir fyrir þessu áliti mínu, en vil aðeins minna á að það er skoðun þeirra, sem styðja þessa ríkisstj., a. m. k. míns flokks og ég hygg langt út fyrir raðir hans, að stefnt verði í þá átt að draga úr umsvifum ríkisins í þjónustu- og atvinnustarf­semi í landinu. Ég tel það vera eina af megin­forsendum fyrir heilbrigðari atvinnustarfsemi, fyrir meiri valddreifingu í þjóðfélaginu í fram­tíðinni.

Ummæli hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðu í haust og svar hans núna lofa góðu, en umfram allt skiptir máli að á eftir fylgi raunhæfar aðgerðir.