03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

235. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég leyfi mér á þskj. 541 að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Hvað veldur því, að ekki er flutt af hálfu ríkisstj. frv. um breyt. á 1. Stofnlánadeildar landbúnaðarins, sem stjórnskipuð nefnd hefur skilað frá sér fyrir allnokkru?

2. Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að bæta stöðu Stofnlánadeildarinnar á þessu ári, ef frv. nær nú ekki fram að ganga?“

Þessi fsp. er fram borin sakir þess að ég var í þessari n. og veit þess vegna fullvel um mikinn áhuga hæstv. ráðh. á því að n. ynni sem best að verkefninu og skilaði áliti svo fljótt að tími ynnist til að koma málinu í gegn í vor. Og þetta tel ég að n. hafi gert svo sem framast var unnt.

Ég tel ekki ástæðu til að fara nú efnislega út í þau atriði sem til umr. komu helst í n., enda óeðlilegt að sem nm., sé ég að fara þar náið út í plagg sem er ekki enn komið fram í dagsljósið og ég veit ekki hvernig verður í endanlegri mynd. En þó er rétt að taka fram, að hér var um að ræða það verkefni að tryggja hag og stöðu Stofnlánadeildarinnar til frambúðar og um leið að gera það án þess að óhæfilegar byrðar legðust á bændur sem nú standa í framkvæmdum eða gera á næstu árum, alveg sérstaklega varðandi þá sem eru að hefja búskap.

Aðalhugmyndir n. hafa verið kynntar lauslega á bændafundum af forstöðumanni Stofnlánadeild­ar landbúnaðarins og undirtektir bænda hafa verið hinar bestu að því er ég veit. Ég tel að okkur hafi tekist að koma fram með till. og skila þeim til hæstv. ríkisstj., — till. sem verði bæði bændastéttinni og Stofnlánadeildinni til framdráttar, og því er von að spurt sé um ástæður þess, að hæstv. ráðh. kemur ekki fram þessu áhugamáli sínu, svo mjög sem ég veit að hann hefur þar á knúið, og eins hitt, hvort í staðinn sé hugað að einhverjum sérstökum aðgerðum til að bæta úr því að þetta frv. nær ekki fram að ganga nú og er ekki heldur sýnt til kynningar, svo sem oft er síður.