03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Fyrir nokkr­um vikum tilkynnti hæstv. forsrh. stjórnarandstöðuflokkunum hér á Alþ. að fyrirhugað væri af hálfu ríkisstj. að ljúka þinghaldi um mánaða­mótin apríl og maí. Síðar, eða fyrir nokkrum dögum, var síðan tilkynnt af hálfu ríkisstj. að stefnt væri að því að þinglausnir yrðu á miðvikudag, þ. e. a. s. á morgun. Af hálfu ríkisstj. hefur ekki verið leitað eftir neinu samþykki stjórnarandstöðunnar við þessum áformum, enda er það að fullu og öllu á ábyrgð ríkisstj. og meirihlutaflokka hennar hér á Alþ. að ákveða um þingslit. Ég vil því leggja áherslu á að þing­slit þau, sem fyrirhuguð eru á morgun, eru án samþykkis stjórnarandstöðunnar og einvörðungu á ábyrgð ríkisstj. og stuðningsflokka hennar.

Þau viðhorf, sem nú hafa komið upp í launa- og kjaramálum í landinu, þar sem nær allir launasamningar eru úr gildi fallnir og enn virð­ist langt í alla samningagerð, gera það að verkum að við alþb.-menn teljum að það eigi ekki að slíta Alþ. eins og nú er ástatt, heldur eigi það að sitja áfram og vera reiðubúið til þess að fjalla um þá þætti efnahagsmála sem gætu orðið til þess að auðvelda lausn kjarasamninga. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa þann hátt á, ef ríkis­stj. kýs það, að fresta fundum þingsins um skeið og kalla þá þingið saman til starfa hvenær sem bein þörf er á því. En það er skoðun okkar, að eins og mál standa nú sé ekki verjandi að senda þingið heim, í rauninni frá jafnalvarlega óleystum málum og þeim sem nú liggja fyrir. Það hefur komið fram, að það má búast við að það þurfi að breyta lögum til samræmis við óskir aðila vinnumarkaðarins, og það er skoðun okk­ar að Alþ. eigi að fjalla um slíkar hugsanlegar lagabreytingar, en það sé ekki rétta leiðin að setja lög með brbl.-fyrirkomulagi í slíku skyni.

Það er vissulega mikið í húfi að samningar geti tekist á milli aðila vinnumarkaðarins nú og það fljótlega, svo að ekki þurfi að koma til vinnustöðvana eða framleiðslustöðvunar í land­inu. Það hvílir því á ríkisstj. og að sínu leyti einnig á Alþ. mikil skylda að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að greiða fyrir samningum og koma í veg fyrir meiri háttar átök á vinnumarkaði.

Það er kunnugt að aðalkrafa sú, sem launasamtökin í landinu hafa sett fram að þessu sinni, er um 100 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði, miðað við það verðlag sem gilti í nóv. s. l. Ég hlýt að vekja athygli á því, að það liggur fyrir ekki aðeins mjög víðtækur stuðningur almennings í landinu við þessa aðalkröfu verkalýðssamtakanna, heldur má telja að það liggi einnig fyrir greinilegur meiri hl. hér á Alþingi með þessari kröfu. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir lýst yfir stuðn­ingi við þessa meginkröfu í umr. fyrr á þinginu, og fyrir stuttu lýsti formaður annars stjórnar­flokksins, Framsfl., yfir á ótvíræðan hátt í út­varpsumr. að hann styddi þessa kröfu, og verður að líta svo á að í þeim efnum hafi hann talað fyrir hönd flokks síns. Það liggur hins vegar ekki fyrir hér á Alþ. hver er afstaða Sjálfstfl. til þessarar grundvallarkröfu. En eigi að síður er hitt skýrt, að þessi krafa er studd af meiri hl. alþm.

Ég tel að það væri sérstaklega þýðingarmikið, eins og mál standa nú, að samningar gætu tekist um þessa grundvallarkröfu og það yrði þá til þess að greiða mjög fyrir samningum um önnur þau mál sem um er fjallað. Það er ótrúlegt að samningagerðin þurfi að silast áfram á þann hátt sem verið hefur varðandi þessa kröfu, eftir að allt þetta liggur fyrir sem ég hef hér minnst á. Að mínum dómi þarf ríkisstj. að láta koma skýrt fram að hún styðji þessa kröfu, hún ætlist til þess að um hana verði samið og að hún sé reiðubúin til að veita fyrirgreiðslu sína til þess að þetta megi ná fram að ganga.

Ég vil hér með skora á hæstv. ríkisstj., að hún geri grein fyrir afstöðu sinni til þessarar grundvallarkröfu og það sem fyrst. Ég tel að það hvíli í rauninni skylda á ríkisstj., eins og komið er, að láta þessa afstöðu koma fram.

Ég vil svo endurtaka það, að við alþb.-menn erum mótfallnir því að þing sé sent heim eins og sakir standa. Við teljum að þing ætti að sitja nú um skeið áfram, eða a. m. k. að þingi ætti ekki að slita þó að fundum þess yrði frestað, til þess að Alþ. geti sjálft fylgst með því, hvað gerist í þessum alvarlegu málum, og tekið á nauðsynlegan hátt afstöðu til mála þar, því að hér er svo mikið í húfi að það má ekki neitt renna þar úr greipum.

Ég vil svo einnig nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvort hann hafi ekki hugsað sér að gera Alþ., grein fyrir þátttöku sinni í þeim efnahagsmálafundi sem hann sat fyrir stuttu og nokkuð hefur borið á góma hér opinberlega. Ég vil einnig spyrja hann um það, hvort hann hafi þegar skýrt hæstv. ríkisstj. frá því hvað þar gerðist. Tilkynningar um þátttöku hæstv. forsrh. í þessum fundi komu frá opinberum aðilum, og það verður að líta svo á að hann hafi tekið þátt í þessum fundi sem forsrh. Íslands, en ekki sem prívatmaður. Ég tel eðlilegt að hæstv. forsrh. geri hér grein fyrir þessu máli, hvort málið hefur þegar verið rætt í ríkisstj. og afstaða þá tekin til þess þar og hvort hann hugsar sér ekki að gera Alþ. grein fyrir því sem þarna gerðist, þar sem þess er getið að hann sem forsrh. Íslands hafi þarna mætt.

Ég endurtek svo það sem ég hef sagt áður: Það er skoðun okkar alþb.-manna að það eigi ekki að slíta þingi eins og sakir standa nú, held­ur sé skylda ríkisstj. og Alþ. að láta sig það skipta miklu máli hvernig fer með þá samninga­gerð sem nú stendur yfir.