03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4180 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í þingræðislandi er ætlast til að ríkisstj. beiti meiri hl. sínum á þingi til að koma fram þeirri lagasetningu sem hún telur sig þurfa til að stjórna landinu. Af þessu leiðir að ríkisstj. ber að hafa forustu um störf Alþingis að verulegu leyti. Núv. ríkisstj. hefur að mestu leyti brugðist þessu hlutverki. Stjfrv. hafa verið flutt án þess að tryggt væri að stjórnarflokkarnir, ráðh. eða þinglið, væru sammála um framgang þeirra. Verulegur hluti af þingliði ríkisstj. hefur verið í uppreisn og þing­störf í heild hafa verið með slappasta móti. En þingið hefur því miður borið svip sundrungar og ráðleysis.

Alvarlegar vinnudeilur eru nú í landinu og ætti ríkisvaldið, bæði ríkisstj. og Alþ., að réttu lagi að taka virkan þátt í lausn þeirra. Svo er þó ekki, því að ríkisstj. heldur að sér höndum og sendir nú Alþ. heim. Alþfl. telur að farsælla mundi reynast ef ríkisstj. tæki beinan þátt í sáttatil­raunum og þingið sæti reiðubúið til að leggja fram sinn skerf, t. d. með löggjöf á sviði skatta­mála eða um önnur efni þar sem greiða mætti fyrir samningum. Þingflokki Alþfl. er ekkert að vanbúnaði að starfa áfram og ljúka veigamestu verkefnum sem þingið á enn óleyst og á nú að fara frá.

Ríkisstj. tilkynnti að vanda stjórnarandstöðuflokkunum um þinglausnir, og þeir lofuðu einn­ig að vanda að koma ekki í veg fyrir að þing­störfum lyki eins og stjórnin óskar. Þetta breytir ekki þeirri skoðun okkar, að það sé næsta léttúðugt að senda Alþ. heim eins og málum þjóðar­innar er nú komið. Yfirvofandi verkfallsátök eru alvarlegra vandamál en nokkuð annað á líðandi stund. Finnst hv. alþm. að þau mál komi þeim ekkert við? Getur Alþ. ekkert gert til þess að stuðla að vinnufriði í landinu? Hvað á fólkið að halda þegar Alþ., hættir störfum og þm. fara heim á þessari stundu? Ég býst ekki við að vegur þings eða stjórnarfars aukist þessa dagana. Alþfl. telur því að þingið eigi að sitja áfram um sinn a. m. k. og gegna skyldum sínum við þjóðina.