03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4187 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Líklega er rétt að þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar hér í Sþ. sem hann hafði ella ætlað að veita okkur í Ed. á næsta fundi þar. Við þær fréttir, sem hann flutti okkur varðandi bókun ríkisstj., er sára­litlu að bæta, en þó dálitlu til skýringar.

Hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen flutti okkur í Ed. eins konar lagaskýringu á eigin ummælum sem hann viðhafði hér í Sþ. 10. febr. í vetur varðandi afstöðu til réttar fólks í einstökum byggðarlögum til þess að segja til um það, hvort þar yrðu reistar stóriðjuverksmiðjur sem ógnað gætu mannlífi og búsetu vegna mengunar. Það hafði verið hermt upp á hæstv. iðnrh., að hann hefði lýst yfir því á þessum fundi, að ekki kæmi til greina að reisa slík stóriðjuver þar sem fólkið væri þeim mótsnúið. Sem sagt, ummælum hæstv. iðnrh. hafði verið gefið almennt gildi, sem var ekki með ólíkindum vegna þess að ætla mátti að hæstv. iðnrh. túlkaði þarna stefnu ríkis­stj. sinnar, túlkaði þarna stefnu þeirrar ríkisstj. sem hann sat í. Á fundinum í Ed. í gær leiðrétti hæstv. iðnrh. okkur á þessu sviði. Hann sagði okkur að þarna hefði hann eingöngu átt við það tillit sem hann hygðist taka til vilja eyfirðinga gagnvart álveri sem talað var um að reist yrði við Eyjafjörð. Hæstv. iðnrh. hefur þarna rétt fyrir sér. Ég hygg að ekki verði hermt upp á hann annað við umr. 10. febr., er rætt var um eftirsókn Norsk Hydro í aðstöðu til þess að koma upp álveri við Eyjafjörð, heldur en það sem hann las okkur í gær, að hann sagði við þær umr. að í hans ráðherratíð yrði ekki komið upp slíkum iðjuverum þar sem heimamenn væru því andvígir. Við misskildum þetta ýmsir, héldum að hann ætlaði þarna öllum landsmönnum sama rétt af hálfu ríkisvaldsins. Raunar sagði hæstv. iðnrh. ekki í Ed. í gær ljósum orðum, — raunar má segja að hann tali yfirleitt ekki ljósum orð­um þegar hann ræðir um stóriðjumálin, — en hann sagði sannarlega ekki ljósum orðum í gær að hann vildi meina borgfirðingum þennan rétt. Það gerði hann ekki. Hann sagði aðeins að í febrúar í vetur hefði hann tekið af öll tvímæli um það, að hann ætlaði sannarlega eyfirðingum þennan rétt. En hæstv. iðnrh. sagði ekki í Ed. í gær að hann vildi svipta borgfirðinga eða íbúa Hvalfjarðarsvæðisins þessum rétti, enda má vera að hann hafi talið eðlilegt að einmitt um þetta mál fjallaði ríkisstj. öll, þar sem hæstv. forsrh. hafði áður boðað að þessi mál yrðu rædd á ríkis­stjórnarfundi nú í morgun.

Nú er það svo að hér er um að ræða afstöðu fleira fólks en fólksins hans Jónasar, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal kallaði áðan þá borgfirðinga sem uggandi eru um afkomu sína vegna fyrirhugaðrar málmblendiverksmiðju á Grundartanga. Hér er líka um að ræða t. d. ugg, að því er virðist, yfir 80% íbúa Kjósarhrepps, fólksins handan fjarðarins sem þessi verksmiðja á að rísa við. Komið hefur verið á framfæri, a. m. k. við hv. þm. Reykn., eindregnum mótmælum þeirra kjósverja gegn fyrirhugaðri verksmiðju á Grundartanga. Nú má vera að ríkisstj, sem slíkri sé ekki kunnugt um þessi mótmæli. Það má vera að þm. stjórnarflokkanna úr þessu kjördæmi hafi komið mótmælum kjósenda sinna uppi í Kjós á framfæri með álíka skörungshætti og þm. stjórnarflokkanna úr Vesturlandskjördæmi komu á framfæri við hana beiðni kjósenda sinna um að stöðvuð yrði afgreiðsla járnblendimálsins hér á þingi þangað til þeir gætu við leynilega atkvgr. látið í ljós afstöðu sína til þessa máls, og skírskotuðu þá náttúrlega til yfirlýsingar hæstv. iðn­rh. frá því í febr. í vetur um rétt fólksins í byggðarlögunum til þess að velja um það, hvort þar yrði komið upp stóriðjufyrirtækjum eða ekki. E. t. v. hafa stjórnarþm. þeirra kjósverja komið þessari málaleitun á framfæri við ríkis­stj. af álíka skörungsskap.

Ég ætla ekki að hefja hér aftur umr. um það sem gerðist á þeim fundi sem þm. Vesturl. boðuðu sjálfir til í Borgarfirði um málmblendiverksmiðjuna. Það mál var rakið í gær. En það má hver sem vill lá það íbúunum í sveitum Hvalfjarðar og þar í grenndinni þótt þeir brygðust fremur seint við þessu máli. Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði, að frv. það, sem Alþ. fjallar nú um, er vitaskuld allt annað mál en frv. það sem samþykkt var vorið 1975, þar sem um var að ræða stofnun fyrirtækis í sam­vinnu við ameríska auðhringinn Union Carbide. Það var ljóst mál hverjum þeim sem vita vildi, t. d. þeim sem komu á Leirárfundinn nafntogaða þar efra við aðdraganda þess máls, og þ. á m. var hæstv. iðnrh. Einnig mátti það vera ljóst öllum þeim sem hlýddu á kvartanir iðnrh. yfir móttökunum á þeim fundi, að það ríkti ekki almenn ánægja í Borgarfirði með málmblendi­verksmiðjuna á Grundartanga. Það er yfirdreps­háttur og annað ekki að neita því, að menn hafi vitað um hversu uggandi fjölmargir menn á þessu svæði voru út af verksmiðjunni. En svo fór sem fór, að í félagsskap við Union Carbide voru aðeins grafnar þarna efra fyrst nokkrar tilraunaholur, sem kallaðar voru, þó nógu djúpar til þess að drepa hoss, og höfðu verið grafnar raunar áður en samningurinn við Union Carbide hafði verið afgreiddur úr iðnn. Ed. þar sem málið kom fyrr fram. Framkvæmdir voru hafnar áður. Síðan var grafin þar önnur gryfja sem kölluð hefur verið stærsta mógryfja á Íslandi, en að svo búnu gekk ameríski auðhringurinn Union Carbide úr kompaníi þeirra málmblendi­manna og borgaði 800–850 millj. fyrir að sleppa úr þessu arðbæra fyrirtæki sem kallað hefur verið, álíka upphæð og þá sem Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út að numið hefði tapinu á járn­blendiverksmiðjunni hefði hún verið rekin árið sem leið. Þeir kunnu að reikna, þeir Union Carbide-menn, og hugsuðu sem svo, að það væri þá best að greiða bætur, höfuðlausn, sem næmi um það bil tapi af eins árs rekstri fyrirtækisins.

Auðvitað létti því fólki þarna efra og við Hvalfjörðinn sem óttast hafði afleiðingarnar af verksmiðju þessari, gerði sér grein fyrir því, að hættan af völdum mengunar frá þessari verksmiðju var geigvænleg, — fólkinu sem trúði staðhæfingum þeirra málmblendimanna um skaðleysi þessarar verksmiðju fyrir umhverfið, trúði álíka vel þeim fullyrðingum eins og það trúði yfir­lýsingunum um arðsemi þessa fyrirtækis, sem kom bráðlega í ljós að valt var að treysta. Er nú skemmst af því að segja, að fólkinu létti við þá frétt, að Union Carbide væri gengið úr skaftinu, og hélt að nú væri þessari vá frá Hvalfirði bægt. En hað kom annað í ljós nú í vetur þegar lagt var fyrir hv. Alþ. öðru sinni á tveimur ár­um frv. um málmblendiverksmiðjuna við Hvalfjörð. Ég geri ráð fyrir því, að af ósköp eðli­legum ástaeðum hafi fólk þarna efra, fólk sem við Hvalfjörð býr, ekki trúað eigin eyrum, að þau firn skyldu ske, að þetta mál, eins og enda­lok hins fyrra máls voru, skyldi lagt öðru sinni fyrir hv. Alþ., og þá kannske e. t. v. enn þá síður því, að finnast skyldi meiri hluti á hv. Alþ. til stuðnings þessu máli öðru sinni.

Ég ætla ekki hér að þessu tilefni gefnu að þylja upp það sem ég áður hef gert og get öðru sinni gert við 3. umr. um þetta mál: upplýsingar um hættuna sem lífríki Hvalfjarðar, Faxaflóasvæðinu öllu, grannsveitunum hið efra og öllu lífríki Íslands er búið af þeirri starfsemi og afleiðingum þeirrar starfsemi sem ætlað er að hefja á Grundartanga. En svona aðeins til þess að ýta undir örlítinn skilning, ef fáanlegur væri hjá hv. alþm., á þeim ugg, sem borgfirðingar bera í brjósti vegna þess arna og íbúar Hvalfjarðar­strandar, má geta þess, að með tilkomu þessar­ar verksmiðju mun magn brennisteinssýrlings í andrúmslofti hér á landi aukast um fjórðung, úr 8 þús. tonnum, sem fyrir eru vegna álversins í Straumsvík og brennslu svartolíu, í 10 þús. tonn við tilkomu þessarar verksmiðju. Og það, sem enn þá brýnna er e. t. v. í þessu sambandi, er ein­mitt sú staðreynd, að í 12 mikilvægum liðum hefur hæstv. heilbrrh. í starfsleyfi sínu til þess­arar verksmiðju vikið frá till. Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um mengunarvarnir. Heilbrigðiseftir­lit ríkisins lagði til, að einungis yrði leyft brenni­steinsinnihald í eldsneyti til verksmiðjunnar, kolum og koxi, sem næmi 1.5%, en hæstv. heilbrrh. hækkaði þessi mörk upp í 2%, sem sagt, það var allt í lagi að hans dómi að auka brennisteinssýrlingsmagnið, sem kemur frá fyrirhugaðri verksmiðju á Grundartanga, um 500 tonn á ári. Það vita þeir efra við Hvalfjörðinn, að það var fyrir tilkomu brennisteinssýrlings í andrúms­lofti sem fiskur allur drapst í ám og stöðuvötnum í Suður-Noregi á fyrstu áratugum þessarar aldar. Þeim er það einnig ljóst, að enda þótt hingað til Íslands berist mikið magn í andrúms­lofti af brennisteinssýrlingi frá iðjulöndum Vestur-Evrópu, þá vita menn ekki hvar feigðar­mörkin eru, hversu mikil þessi brennisteinssýrlingsmengun má vera í andrúmsloftinu til þess að drepa líf í ám og vötnum. Við vitum hversu mikil brennisteinssýra má vera í vatninu sjálfu, sem fiskurinn er í, til þess að drepa þar ekki allt líf. Það vitum við. En við vitum ekki og enginn veit brennisteinssýrlingsmörkin í andrúmsloftinu vegna þess hversu breytileg þau eru. Það eitt er víst, að hættan eykst í réttu hlutfalli við nálægð þessarar verksmiðju. En hvað um það, engan þarf að undra það þótt íbúarnir á Hvalfjarðarströnd og þar í grenndinni, í hinu næsta nágrenni við Grundartanga, séu uggandi vegna þessa máls. Engan þarf að undra þótt það kom í ljós, að þetta gerist einmitt upp úr afgreiðslu Nd. á frv. þegar meiri hl. alþm. hefur fengist til, þrátt fyrir fyrri reynslu, þrátt fyrir áhættuna, að samþykkja þetta frv., — þótt þeir þá fyrst risu upp, þegar þau firn urðu þeim ljós, og óskuðu eftir að fá að njóta þess réttar sem hæstv. iðnrh. hafði lýst yfir, að því er þeir héldu, til handa öllum íslendingum, en reyndist vera aðeins til handa eyfirðingum. Og það var stað­festing á þeirri skýringu hæstv. iðnrh. á orð­um hans sjálfs frá því 10. febr. í vetur sem fékkst með bókun ríkisstj. á fundi hennar í morgun sem hæstv. forsrh. las okkur áðan, að ríkisstj. telur að ekki sé unnt að fresta afgreiðslu þessa máls á Alþ. og mun ekki hlutast til um leyni­lega atkvgr. Þetta þýðir það sem sagt einfald­lega, að fólkið, kjósendur í Vesturlandskjördæmi, fólkið í hreppunum sunnan Skarðsheiðar, fær ekki að láta í ljós afstöðu sína til málmblendi­málsins með þeim lýðræðislega hætti sem það óskaði, með leynilegri atkvgr. Þetta þýðir einn­ig það, að því er mér virðist, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að taka neitt tillit til afstöðu íbúa Kjósarhrepps. Og er nú um að fjalla fyrir lög­fróðari menn en mig hvernig þetta fólk á að bregðast við í landi þar sem ein lög eiga að vera, þegar því er lýst yfir af hálfu ríkisstj. sjálfrar, að það eigi ekki að njóta sama réttar í máli, sem varðar líf og dauða, og íbúar annarra héraða. Ekki vil ég neinu spá um viðbrögð þessa fólks, en gleðja mundi það mig mikið ef í ljós kæmi að landsetar í landnámi Ingólfs Arnar­sonar og Skalla-Gríms, uppeldishéraði Egils Skalla-Grímssonar, sýndu það nú, að þeir stæðu ekki þingeyingum langt að baki í því að reyna að grufla upp ráð sem verða mætti til þess að gera ófýsilegt að reisa úr járnbentri stein­steypu mannvirki í héraði þeirra með vafasömum lagalegum rétti og í óþökk þeirra allra.

Ég vil hér í Sþ., þótt tækifæri gefist til þess að ræða þetta mál enn frekar við 3. umr. í Ed., vekja athygli á yfirlýsingu formanns þingflokks Alþb., sem hann flutti hér ljósum orðum, á þá lund, að komist Alþb. í þá aðstöðu, til þeirra áhrifa sem til þess þarf, þá verður samningnum við Union Carbide rift. Og ég vil enn vekja athygli á því, að í sambandi við annan samning sem var þó geirnegldari og járnbentari heldur en þessi, samninginn 1961 við vestur-þjóðverja og breta um landhelgina okkar, var flutt sams konar yfirlýsing af hálfu Alþb. og það var staðið við hana. Ég vil nú gjarnan, ég fór þess að vísu á leit við hæstv. iðnrh. í Ed. í gær, en ég vil ítreka það hér í Sþ. og beina því til forsrh., að það sé ekki nema drengskaparatriði að koma þessum upplýsingum á framfæri við samnings­aðilann úti í Noregi.