03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vek athygli á hví, að hæstv. forsrh. er horfinn úr salnum. Ef einhver tök væru á að fá hann hingað aftur hætti mér það betra. Mér þætti betra að hann væri hér viðstaddur á meðan ég flyt ræðu mína.

Hv. þm. Benedikt Gröndal talaði hér áðan um það fólk sem sent hefur ríkisstj. margumtöluð tilmæli. Hann talaði um það sem „fólkið hans Jónas­ar“. Ég er ekki í neinum vafa um það, að á bak við þessi tilmæli, fylgjandi þessum tilmælum eru 70–80% af öllum íbúum Borgarfjarðarhéraðs, og mér dettur ekki í hug að gera tilkall til alls þessa fólks. En ég geri tilkall til þess, að þessu fólki sé af hálfu stjórnvalda sýnd sjálfsögð virðing og tekið sé tillit til sjálfsagðra óska þess um að fá að njóta sjálfsögðustu lýðræðisréttinda. En hér er verið að neita því um það. Þessi stutta og laggóða bókun sem hæstv. forsrh. las hér upp áðan, þess efnis, að ríkisstj. sæi sér ekki fært að verða við þessum tilmælum og muni ekki hlutast til um leynilega atkvgr. um málið, þessi bókun er hin argasta ósvífni gagnvart þessu fólki. Ég læt mig engu varða allt tal um að þetta sé á síðustu stundu. Ef þetta er á síðustu stundu, þá er það ekki þessu fólki að kenna. Það er rúm vika síðan við þm. Vesturl. fengum tilmæli þarna ofan úr sveitunum um að beita okkur fyrir almennum fundi þar efra um þetta mál. Þau tilmæli komu, að ég hygg, á mánudaginn í hinni vikunni. Það eru 8–9 dagar síðan. Og ef þm. Vesturl. hefðu brugðið við, eins og ég vildi, og tilkynnt þessu fólki, eins og ég hafði reyndar krafist hvað eftir annað héðan úr þessum ræðustól, tilkynnt þessu fólki að við mundum efna til almenns fundar þegar í stað, hefði þetta fólk þá verið nógu snemma á ferðinni? Eitt er víst, ástæðan til þess, að þessi almenni fundur var ekki haldinn fyrr en í fyrra­dag, er sú, að þeir menn, 5 af þeim 6 mönnum sem eru hér á Alþ. til að gæta hagsmuna þessa fólks, til að gæta réttar þess, til að sjá um að það fái notið sjálfsögðustu lýðræðisréttinda, synjuðu um þessi tilmæli í lengstu lög. Þeir reyndu fyrst að komast hjá almennum fundi með því að boða hreppsnefndirnar á fund hér úti í Þórshamri, kl. 4 átti það að vera á laugardaginn var, hreppsnefndirnar áttu að koma á fund til þess að ræða við þá, leynilegan fund, næstum að segja, þó ekki alveg eins leynilegan og fund þann sem ofurlítið hefur borist í tal hér á þessum fundi, ég á við þann fund sem hæstv. forsrh. fór á nú fyrir skömmu. En þetta átti að vera fundur þar sem almenningur þar efra kæmi hvergi nærri, — þó ég vilji ekki synja fyrir það að hreppsnefndir séu partur af almenningi, — en það átti ekki að ræða málið fyrir opnum tjöldum. Það átti að komast hjá því, það átti að komast hjá öllum óþægindum. Það átti að hljóða upp á kaffi og sitja í notalegheitum með hreppsnefndunum. Og þessir 5 þm. senda skeyti — ég neitaði að setja nafnið mitt undir það skeyti — og mælast til þess, að hrepps­nefndirnar komi á þennan fund. En hreppsnefndirnar svara að það sé ekki þessi fundur sem almenningur þar efra sé að biðja um, fólkið sé að biðja um almennan fund, og hreppsnefndarmenn muni ekki koma á Þórshamarsfundinn. Og þá verður niðurstaðan sú að hætta við þann fund, og þeir fallast á að haldinn skuli almennur fundur þar efra.

Þegar við þm. Vesturl. efnum sameiginlega til funda, þá er það hjá okkur eins og í öðrum kjördæmum, að þeir fundir eru auglýstir. Það er tilkynnt um þá í útvarpi og víðar. Þar að auki eru svo oddvitar eða einhverjir aðrir í héruðum beðnir að láta þetta berast á bæina. En það er föst regla að auglýsa þetta í útvarpi. Ég vildi auglýsa þennan fund í útvarpi. Ekki var við það komandi, aðeins að tala við oddvitana og biðja þá að boða fundinn. Og hvers vegna? Vegna þess að það kynnu að koma á þennan fund einhverjir sem ekki ættu að vera þar! Þetta ætti að vera fundur sem haldinn yrði eingöngu með fólkinu í þessum marggreindu sveitum sunnan Skarðs­heiðar og engu öðru fólki. Ég benti á að ekki væri þar með sagt að þetta bærist ekki út, allir odd­vitar mundu vita um fundinn og boð um hann bærust bæ frá bæ, — ef það þá bærist bæ frá bæ, sem ég var ekki alveg viss um. En þetta kom fyrir ekki. Ég hélt því fram, að það gæti vel verið að einhverjir aðrir hefðu áhuga á þessum fundi í héraðinu heldur en þetta fólk, og spurði hvort loka ætti dyrum á slíka gesti. En það þýddi ekkert um þetta að ræða. Það var ákveðið að boða fundinn sisvona. M. ö. o.: það var ekki ætlunin að fá fjölmennan fund. Þess vegna finnst manni það koma úr hörðustu átt þegar hv. þm. Ásgeir Bjarnason lætur orð falla í Ed. í gær sem eiga að skiljast svo, að þetta hafi verið næsta fámennur fundur og lítið mark á honum takandi. En það var á honum töluvert á annað hundrað manns, þrátt fyrir það að svona var til hans boðað. (ÁB: Rangt eftir haft.) Þá gerir hv. þm., hæstv. forseti, aths. við það héðan úr ræðustólnum. En þessi hv. þm. sagði m. a., að af þeim 179, sem sendu plaggið hingað til okkar um almenna fundinn nú fyrir níu dögum, af þeim hefðu ekki verið nema 40–50 á þessum fundi uppi á Leirá. Þetta kallar maður nú að þekkja sína sauði. Hv. þm. horfir yfir fundarsalinn, það festist í minni hans hverjir þarna eru, fer svo í listann yfir þetta fólk og fær út töluna 40–50. Þetta er nú að vera glöggur sauðamaður! Það er óhjákvæmi­legt að láta þessa getið hér, — þegar verið er að ræða um það, að allt sé þetta of seint fram komið, — hvernig til þess fundar var stofnað.

En hvað hefur yfirleitt verið gert til þess að upplýsa fólk þar efra um þetta mál? Það er ekki langt síðan við þm. fregnuðum af skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins um mengunarhlið málsins og af ýmsum ágreiningsatriðum milli Heilbrigðiseftirlits og heilbrrn. varðandi það mál. Það er ekki langt síðan. Ég held að það séu ekki nema tvær vikur síðan formaður iðnn. Nd. neitaði þm. um að skoða þetta plagg, þetta væri trúnaðarmál. Ætlast menn til að fólk í sveitunum efra viti hvað stendur í slíku plaggi, þegar okkur þm. er neitað um að skyggnast í það?

Sannleikurinn er sá, að það hefur verið unnið að þessu máli á þann hátt, með slíku pukri og þess háttar vinnubrögðum beitt, að það er ekkert undarlegt þó að menn átti sig seint. En ég ítreka, að þó að þessi tilmæli þar ofan að hafi ekki komið formlega fyrr en núna og þó að talað sé um að slíta þingi á morgun, þá ansa ég ekki slíkum rökum. Þetta mál er svo mikilvægt að við alþm. erum ekkert of góðir til að sitja hér eina eða tvær vikur í viðbót til að fjalla um þó ekki væri nema þetta eina mál og sjá til þess, að það fái þá af­greiðslu sem nauðsynleg er, þá umfjöllun sem nauðsynleg er, og bíða eftir því að fólkið har efra segi álit sitt.

Og nú vil ég beina til hæstv. iðnrh. einni fsp. Ég vísa til ívitnunar hans í gamla ræðu sína og ummæla hans sem skilja mætti á þann veg, að það væru engir aðrir en eyfirðingar, skilst manni, sem ættu að njóta þess réttar að segja sjálfir til um það, hvort þeir skuli fá yfir sig svona verksmiðjuófögnuð eða ekki. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað veldur því, að borgfirðingar eiga ekki skilið að fá að njóta sama réttar og eyfirðingar að hans dómi?

Ég ítreka mótmæli mín vegna þeirra vinnubragða sem beitt hefur verið í þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj. Þau eru fyrir neðan allar hellur. Þau eru til skammar fyrir ríkisstj. Og það er til skammar fyrir Alþingi íslendinga ef alþm. gera ekki allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir þessa ósvinnu.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, þegar hann var spurður um fund þann sem hann sat nú ekki alls fyrir löngu, — það var fundur í samtökum sem hæstv. dómsmrh. hefur nefnt „Bernharðsreglu“ í blaðaviðtölum, hæstv. forsrh. sagði eða það mátti skilja orð hans þannig, að hann teldi sér ekki skylt að gefa einum né neinum skýrslu um það, hvað fram fór á þessum fundi, enda er þetta leynifundur, þetta er leyniregla. En hann sagði, að þarna hefði verið fjallað um „efnahagslíf í blönduðu hagkerfi“. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með vangaveltum um það, hvað gerist þegar blendnir menn koma saman á fund til þess að ræða blandað hagkerfi. En fyrir þá sök hefur formaður Framsfl. og ég held líka utanrrh. nefnt þetta „Bernharðsreglu“, að sá, sem var forseti þessara samtaka til skamms tíma, var Bernharð nokkur Hollandsprins sem frægur varð af því að stofna með nokkuð sérstæðum hætti til blandaðs hagkerfis með Lockheed-flugvélaverksmiðjunum.

Ég ætla ekki að leiða getum að því, hvað hæstv. forsrh. kann að hafa lært á þessum fundi um „blandað hagkerfi“. En eitt er víst, að ekkert hefur hann lært um það sem við nefnum sjálf­sögð lýðræðisréttindi.