03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Minni hl. fjvn. í þessu máli mynda ég og hv. þm. Geir Gunnarsson. Við leggjum til að þáltill. verði vísað til ríkisstj. í því skyni að hún sendi þingflokkunum málið til athugunar og umfjöllunar í sumar í þeim tilgangi að þm. kanni þær hugmyndir, sem fram hafa komið, og till., sem fram hafa verið bornar á Alþ. um ráðstöfun hagnaðar af sölu þjóðhátíðarmyntar, leitist við að ná samstöðu um eina ákveðna lausn á því máli, skili niðurstöðum í upphafi næsta þings þannig að hægt sé að afgreiða till. um ráðstöfun þessa fjár í upphafi næsta reglulegs Alþ. Sem sé, við leggjum til að till. sé vísað til, ríkisstj. á þessum forsendum. Hv. þm. Karvel Pálma­son, sem er aðili að fjvn. sem áheyrnarfulltrúi, styður þessa till. okkar.

Á þskj. 669 er nál. okkar minni hl. fjvn., þar sem þessi till. er rökstudd. Rökstuðningur okkar er í mjög stuttu máli á þá lund, að hér er um að ræða að öllum líkindum síðasta mál í tengslum við þjóðhátíð 1974 sem kemur til kasta Alþ. Eins og menn muna hafði Alþ. forustu um það þjóðhátíðarhald, og öll þau mál, sem komu til kasta Alþ. í sambandi við þjóðhátíðarhaldið, bar að með þeim hætti að þau voru rædd í þingflokkunum og meðal þm. og samstöðu náð um lausn þeirra áður en þau voru lögð fram til afgreiðslu hér á Alþ. Þessi vinnubrögð gerðu það að verkum, að það tókst samstaða allra þm. um ákvörðunaratriði í sambandi við þjóðhátíð 1974. Og það er tvímælalaus skoðun mín að einmitt það, að full samstaða náðist í þinginu um afgreiðslu þessara mála vegna þess að þannig var að undir­búningi staðið, einmitt það gerði það ekki hvað síst að verkum að þjóðhátíðin tókst eins vel og raun bar vitni.

Þegar kemur hins vegar að þessu máli, sem er að öllum líkindum síðasta mál í tengslum við þjóðhátíð 1974 sem kemur til kasta þingsins, þá er breytt um vinnubrögð. Í stað þess að vinna endanlega tillögugerð um þetta mál með sama hætti og gert hefur verið um öll þau mál viðvíkjandi þjóðhátíðinni sem komu til kasta þings­ins, þ. e. a. s. á vettvangi Alþ. sjálfs, í samræðum þm. og í samráði þingflokka, þá var á það ráð brugðið að fá aðila utan þingsins til þess ekki aðeins að semja till. um ráðstöfun þess fjár sem hér um ræðir, heldur einnig til þess að kynna þær till, fyrir ríkisstj. og þjóðinni og hv. alþm. sem fyrst kynntust þessum till. fyrir tilverknað fjölmiðla. Þá þegar sama dag og okkur þm. var gerð þessi niðurstaða heyrinkunn var málið til umr. utan dagskrár hér á Alþ. og fjölmargir þm. óskuðu þess eindregið, að þessi vinnubrögð yrðu ekki viðhöfð, og mótmæltu þeim harðlega. Ég tók þátt í þessum umr. og setti fram þá ósk við það tækifæri, að þessar till. Seðlabanka Íslands, sem ríkisstj. voru sendar, yrðu teknar til meðferðar hér á Alþ. með sama hætti og öll önnur mál varðandi þjóðhátíðarhaldið 1974. Þetta var hins vegar því miður ekki gert, heldur tillögur Seðlabankans fluttar inn í þingið af hæstv. ríkisstj. á síðustu þingdögunum, og afleiðingarnar hafa orðið þær, að hvort tveggja hefur gerst í senn, að fjvn. hefur ekki gefist tækifæri til að kynna sér til hlítar þær hugmyndir, sem þáltill. gerir ráð fyrir að upp verði teknar við ráðstöfun þessa fjár, og eins og ekki síður frekari hugmyndir og till. sem borist hafa frá einstökum þm. Ég tel að ef knúið verður á um að afgreiða málið við þessar aðstæður, þá hljóti svo að fara að þær skiptu skoðanir sem ríkja meðal þm., komi fram í því, að þingheimur klofni í atkvgr. um síðasta mál varðandi þjóðhátíð 1974 sem kemur til kasta Alþ. að taka ákvörðun um. Minni hl. fjvn. telur að það sé mjög miður farið ef þannig á að halda á þessu máli. Við erum eindregið þeirrar skoðunar í minni hl. n., að ef aðeins þm. er gefinn tími til að kynna sér þær till., sem fram hafa verið lagðar, og þær hug­myndir, sem ýmsir einstakir þm. hafa, en ekki hefur gefist tími til að kanna nánar, svo og þær hugmyndir sem koma fram í þessari þáltill., — ef þm. gefst tími til að fá að kanna þær með sama hætti og aðrar hugmyndir í sambandi við þjóðhátíðarhaldið, þá dettur okkur ekki annað í hug en það náist fullt samkomulag milli þm. um endanlega afgreiðslu þannig að hægt sé að leggja till. þar um fyrir Alþ. næst þegar það kemur saman og afgreiða hana á nokkrum dögum með þeirri reisn og þeirri samstöðu sem þetta mál á vissulega skilið að hljóta hér í þingsölum.

Ég vil svo að lokum taka fram, að ef þessi ósk okkar um, að málinu verði vísað til ríkisstj. í því skyni að tilraun verði gerð til þess að ná samstöðu um afgreiðslu þess hér á þinginu, nær ekki fram að ganga, verði þessi till. ekki samþykkt, þá áskiljum við, sem að henni stöndum, okkur rétt til þess að greiða atkv. um þær till. sem fram hafa komið eða kunna að koma eða að taka ekki frekari þátt í afgreiðslu þessa máls.