03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hlýt að telja, þrátt fyrir það að sumt í framkvæmd þessa máls sé ekki nákvæmlega eins og það hefði átt að vera, að óþarflega mikill úlfaþytur hafi hér af orðið. Ef hér er að finna hinn eina sanna vettvang fyrir alþm. að rísa af sjálfstæði og djörfung gegn einhverju sjálfskipuðu valdi utan þessarar stofnunar, í þessu tilfelli Seðlabankanum, þá er ég ekki með á nótunum. En fyrirvari minn byggist á þessu:

Ég leyni því hvergi, að æskilegast hefði verið að fullt samkomulag hefði tekist um ráðstöfun þessa fjár, Ég gæti því út af fyrir sig stutt það að reynt yrði til þrautar að ná því samkomulagi, en fyrir því virðist ekki vilji eða möguleikar og er það vissulega miður. Hins vegar tek ég það fram, að ég tel verkefni þau, sem um getur í skipulagsskrá sjóðsins, fulls stuðnings verð. Einn­ig er það mjög til bóta að fjvn. hefur tekið upp hina ágætu till. hv. þm. Gils Guðmundssonar um fulla verðtryggingu sjóðsins. Af þessum ástæðum mun ég greiða meirihlutaálitinu atkv. mitt.