03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4212 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja hér langt mál. Ég efa það ekki að hv. þm. sem talaði hér síðastur, eigi erfitt með að skilja ýmislegt í sambandi við Framkvæmdastofnun ríkisins. En honum stendur björgun nær, því að hv. 1. þm. Suðurl. ætti manna best að geta tekið hv. þm. Ellert B. Schram í læri og kennt honum svörin sem hv. þm. ekki skilur, ekki síst vegna þess að hv. 1. þm. Suðurl. er það vel heima í þessum málum að honum hefur tekist að hafa skoðanir bæði með og móti Framkvæmdastofnuninni á tiltölulega mjög stuttum tíma, þannig að í betra nám en til hv. 1. þm. Suðurl. getur hv. þm. Ellert B. Schram varla farið í þessu sambandi.

Ég vil aðeins, áður en ég kem að því sem á að vera meginefni ræðu minnar, drepa á það, að hlutverk Byggðasjóðs hefur aldrei verið og er ekki að úthluta lánum með tilliti til höfðatölu­reglu. Hlutverk Byggðasjóðs er að veita lán til þess að efla byggð í landinu þar sem æskilegt er að byggð haldist áfram, m. a. svo að unnt sé að nytja allar auðlindir landsins, og þar sem staðreyndir hafa sýnt að um fólksflótta hefur verið að ræða. Þetta tvennt er forsenda fyrir lánveitingum Byggðasjóðs, en ekki hitt, að hann eigi að veita lán eftir höfðatölureglu. Ég get hins vegar fallist á það sjónarmið með hv. þm. sem talaði hér áðan, hv. 11. þm. Reykv., að það þarf ekki að vera endilega þar með sagt að það sé hægt að skilja í þessu sambandi algerlega á milli suð­vesturhornsins annars vegar og landsins alls að öðru leyti hins vegar og setja sér það að enginn aðili á suðvesturhorninu hafi þörf fyrir slíka aðstoð og segja um leið að allir aðilar annars staðar á landinu hafi slíka þörf. Hér á suðvestur­horninu eru ýmsir staðir, lítil byggðarlög, sem eiga í miklum vandkvæðum og miklum atvinnu­erfiðleikum. Úti á landi eru einnig staðir sem standa í miklum blóma, eins og t. d. þéttbýlið á Norðurlandi í kringum Akureyri. Ég tel að þar sé ekki síður blómleg byggð og lífvænleg, á Akur­eyri og þar í næsta nágrenni, heldur en t. d. í kringum Reykjavík. Ég tel að það sé fremur hlut­verk Byggðasjóðs að styðja við bakið á öðrum byggðarlögum, bæði hér á suðvesturhorninu og utan þess, sem hafa raunverulega þörf fyrir aðstoð. Ég held einnig að það væri tími kominn að reyna að skipa þessum byggðarlögum í einhverja forgangsröð án tillits til þess, hvar þau eru stað­sett á landinu, en frekar með tilliti til þess, hvar þörfin er mest og hvernig þörfin lýsir sér. Þetta held ég, að ætti að gera í þessu sambandi. Og ég vil enn fremur benda á það, að það er orðið nauð­synlegt fyrir alla aðila, bæði í Framkvæmdastofnun og utan hennar, að huga að því hvernig hinir ýmsu öflugu sjóðir starfa saman og hver út­koman er af starfsemi sjóðanna þegar upp er staðið.

Ég vil t. d., og það átti að vera meginefni ræðu minnar, benda á það, að fyrir skömmu var dreift hér í skriflegu svari við fsp. frá hv. þm. Guð­mundi H. Garðarssyni athyglisverðri skýrslu um starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég held að það komi a. m. k. ekki þm. mjög á óvart að þeir staðir á landinu, sem einkum og sér í lagi eru taldir þannig settir að þeir þurfi sérstaklega aðstoðar við, eru staðir eins og Vestfirðir, Aust­firðir og Norðurland vestra, ef á að miða við kjördæmi. En svo undarlega ber við þegar farið er að líta á niðurstöðuna af starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs, og auðvitað verður að hafa hana til hliðsjónar í sambandi við ráðstöfun úr Byggðasjóði, að það verður ekki séð af þessum ráðstöfunum Atvinnuleysistryggingasjóðs að a. m. k. sé þar tekið fyllsta tillit til þeirra atriða sem ég ræddi hér um áðan: í fyrsta lagi að sjóðurinn starfi með þeim hætti að tryggja æskilega byggð þar sem nauðsynlegt er að byggð haldist til þess að nytja auðlindir landsins, og í annan stað að hann beiti sér til þess að koma í veg fyrir fólksflótta frá slíkum stöðum. Svo undar­lega ber við þegar farið er að athuga starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs, að sá landshluti, sem hefur átt örðugast af öllum landshlutum og um það er ekki deilt, en það eru Vestfirðir, hefur notið minni stuðnings frá Atvinnuleysistryggingasjóði heldur en nemur því fé sem vestfirðingar hafa til sjóðsins lagt.

Eins og allir vita er fé Atvinnuleysistryggingasjóðs fengið með þeim hætti, að annars vegar er um að ræða framlög heimaaðila, þ. e. a. s. atvinnu­rekenda annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, og svo á móti jafnhátt framlag frá ríkisvaldinu. Ef miðað er aðeins við framlag heimaaðila og athugað síðan um ráðstöfun á því fé á því ára­bili sem hið skriflega svar um starfsemi Atvinnu­leysistryggingasjóðs nær til, þá kemur í ljós, ef litið er á kjördæmin, að af framlagi heimamanna hafa verið greidd í bætur til Vestfjarða 35.4% og í áhættulán 15.7%, til Vesturlands í bætur 45.31% og í áhættulán 7.88%, til Norðurlands vestra í bætur 262.39% og í áhættulán 73.21% af heimaframlagi, sem sagt um 3 kr. fyrir hverja eina sem komið hefur úr heimabyggð, til Norður­lands eystra í bætur 99.27% og í áhættulán 22.86% eða um 135.63% af heimaframlagi þegar lán til félagsheimila og orlofsbygginga eru meðtalin. Blandast þó vart nokkrum manni hugur um að hér er a. m. k. í flestum tilvikum um landshluta að ræða sem á mun hægara með að sjá fyrir sínu fólki og viðhalda byggð heldur en t. d. Vestfirðir. Til Austfjarða eru bætur 94.45% af heimaframlagi og áhættulán 46.84%. Reykjavík og Reykjanes eru náttúrlega alveg sérstakar undantekningar í þessu sambandi. Svo undarlega ber við, að af þeim landshlutum, sem ég hef talið upp hér, eru Vest­firðir ekki nema um það bil hálfdrættingur á við Norðurland eystra og raunar langt fyrir neðan það, talsvert minna en hálfdrættingur gagnvart Austfjörðum og ná ekki einu sinni þriðjungi gagnvart Norðurlandi vestra.

Hér hefur verið um að ræða fyrir milligöngu Atvinnuleysistryggingasjóðs fjármagnsflutning frá íbúum Vestfjarða og til íbúa annarra kjör­dæma. Ég held að svona niðurstöður eigi menn að skoða og hafa til hliðsjónar, þegar fé er ráðstafað úr Byggðasjóði og öðrum slíkum sjóðum, sem eiga vissulega að stuðla að því að æskileg byggð haldist áfram á stöðum þar sem nauðsyn­legt er að byggð haldist til þess að auðlindir lands­ins verði nýttar, og jafnframt að taka tillit til þess að stemma stigu við fólksflótta frá slíkum stöðum.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það, að í framtíðinni í sambandi við ráðstöfun fjármuna eins og hér um ræðir, úr Byggðasjóði og öðrum slíkum sjóðum, sé mörkuð ákveðin stefna þar sem ekki aðeins sé skilið á milli landsbyggðarinnar annars vegar og Reykjavíkur hins vegar, heldur séu beinlínis valdir þeir staðir, án tillits til þess hvar á landinu þeir eru, sem reynslan sýnir okkur að þurfi meiri aðstoðar við en aðrir staðir, — ekki aðstoðar til þess að halda við byggð þar sem byggð getur ekki þrifist af ýmsum ástæðum, held­ur aðstoðar til þess að unnt sé að nýta þær auðlindir sem þarf að nýta frá þessum stöðum og er þjóðinni í heild til hagsbóta að nýttar séu. Þessa stefnu tel ég að þurfi að móta. Það þarf eins og sakir standa að fara að gera það upp við sig hvernig á að standa að þessum byggðamálum, að framkvæmd hinnar svonefndu byggðastefnu, og sú stefna er ekki á þá lund að skera algerlega á milli Reykjavíkur annars vegar og landsins hins vegar. Sú stefna verður að mínu viti ekki mótuð á þeim grundvelli einum, heldur á þeim grundvelli, eins og ég sagði hér áðan, að reyna að velja forgangsverkefni eins og þörfin sýnir að þau liggja fyrir.