03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

189. mál, launakjör hreppstjóra

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þegar till. þessa bar fyrst á góma hér í hv. d. lýsti ég fylgi mínu við hana. Ég hafði það á orði, að rétt væri að gera hana ögn víðtækari með því að endur­skoða fleira en launakjör hreppstjóra, e. t. v. bæta inn í hana um launakjör og störf. Að athuguðu máli hvarf ég frá þessu vegna þess að störf hreppstjóra eru mjög mismunandi eftir því um hvaða sveitarfélag er að ræða.

Við athugun á 1. nr. 32 frá 26. apríl 1965 virð­ast mér þau vera harla góð. Að vísu segir í síð­ustu gr., 10. gr. þeirra laga: „Dómsmrh. setur í reglugerð frekari ákvæði um hreppstjóra, störf þeirra og kjör.“ Ég held, að þessi reglugerð hafi aldrei verið sett samkv. þessum lögum frá 1965. Sennilega er enn þá stuðst við gömlu hrepp­stjórareglugerðina frá 1880 eða hreppstjórainstitutið svokallaða, sem er reglugerð nr. 68 frá 29. apríl 1880. Þetta er mjög ítarleg reglugerð í 47 greinum. Þar er tekið fram í upphafi að hreppstjóri sé umboðsmaður sýslumanns, bæði gagnvart hreppsnefndinni og gagnvart almenn­ingi. Sem dæmi um það, að segja má að reglu­gerð þessi sé ekki alveg samkv. því orðalagi sem tíðkast nú á tímum, ætla ég að leyfa mér að lesa upp tvær til þrjár setningar úr 1. gr., með leyfi hæstv. forseta. Það segir svo um hreppstjóra:

„Geti hann, þegar til hans er leitað, eigi náð til sýslumanns, verður hann að bera sig saman við prestinn eða aðra merka menn í sveitinni og ráðstafa því, sem honum með ráði þeirra þykir best fara. En sýslumanni skal hann þar eftir sem fyrst skýra frá framkvæmdum sínum.“

Síðan er langur kafli um meðferð á glæpamálum o. fl. Þetta hefur nú nokkuð breyst, a. m. k. þar sem lögreglumenn eru teknir til starfa víða í þéttbýli úti um land. En það er kannske ekki aðalatriðið hvernig þessi reglugerð er orðuð eða hvort stuðst er við anda og efni og ákvæði þessarar gömlu reglugerðar. Hitt get ég fyllilega fallist á með hv. flm. svo og nm. sem orðið hafa sammála um að mæla með þessari þáltill., að meginatriðið er þrátt fyrir allt að lögin verði svo úr garði gerð að hreppstjórar fái sanngjörn laun fyrir störf sín sem oft eru margþætt og ábyrgðarmikil í þágu lands og þjóðar.