03.05.1977
Efri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Svar hæstv. ríkisstj. liggur fyrir og lá raunar fyrir þegar í dag. Það er einfalt og stuttort og án frekari rökstuðnings, og virðist tilgangslítið að halda uppi löngum umr. um þessa hlið málsins þar sem mótaðilinn er svo fáorður um röksemdir sínar fyrir þessari ákvörðun. Þó hefur ein sú röksemd heyrst af munni hæstv. forsrh. sem hann hefur endur­tekið oftar en einu sinni, og hún er sú, að of skammur tími sé nú til stefnu og það sé orðið of seint að verða við þessum tilmælum. Ég vil af þessu tilefni vekja athygli hæstv. forsrh. og annarra þdm. á því að ég hef á þskj. 676 borið fram till. um að aftan við frv. bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:

„Áður en lög þessi koma til framkvæmda skal íbúum Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Skilmannahrepps og Leirár- og Melasveit­ar í Borgarfjarðarsýslu gefinn kostur á að taka afstöðu til byggingar járnblendiverksmiðju í Hval­firði. Þátttaka í atkvgr. er bundin við þá sem kosningarrétt hafa til Alþ. Verði niðurstaðan sú, að meiri hl. þeirra, sem taka þátt í atkvgr., hafnar byggingu verksmiðjunnar, koma lög þessi ekki til framkvæmda.“

Að sjálfsögðu gera hæstv. forsrh. og allir þdm. sér fulla grein fyrir því, að gegn þessari till. og þessari tilhögun verður alls ekki beitt þeim rökum að ekki sé nægur tími til stefnu. Hér er boðið að atkvgr. þessi fari fram eftir að lögin hafa verið afgreidd frá Alþ. og að framkvæmdir verði háðar því skilyrði að úrslit atkvgr. verði jákvæð. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., sem mun vera í kallfæri, að því, hvort ekki væri hugsanlegt að hann og ríkisstj. gætu fallist á þessa tilhögun málsins, ef svo er ekki, þá með hvaða rökum.