03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4263 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef enga ástæðu til þess að fara að lengja þessar umr. úr hófi fram. Það sækir svefn á þingheim hvað úr hverju og alls ekki nein ástæða til að draga þessar umr. úr hömlu. En ég hefði helst viljað koma á framfæri við hæstv. ráðh. nokkrum aths., og þar sem hann er nú kominn í salinn er mér ekkert að vanbúnaði að víkja að hans máli. Ég sé að vísu enga ástæðu til þess að svara ýmsu því sem fram kom í máli Stefáns Jónssonar, hv. 5. þm. Norðurl. e., en hann svaraði mjög mörgu af því, sem fram kom hjá ráðh., á fullnægjandi hátt og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér.

Mér fannst óneitanlega dálítið einkennilegur sá kafli í ræðu ráðh. sem fjallaði um málflutning okkar alþb.-manna í orkumálum. Ráðh. sagð­ist hafa orðið var við að við alþb.-menn og þá einkum Þjóðviljamenn héldum því fram, að engin not væru fyrir Sigölduvirkjun, en svo kæmi ég hér og segði að Sigölduvirkjun yrði fullnýtt eftir 2–3 ár, hvernig í ósköpunum væri hægt að láta þetta dæmi ganga upp.

Auðvitað er skýringin einfaldlega sú, að ráðh. hæstv. hefur fært nokkuð úr lagi þessi ummæli svo að þau virðast á skakk og skjön, enda þótt þau þurfi ekki að vera það ef nánar er að gáð. Það, sem sagt hefur verið um Sigölduvirkjun, er einfaldlega það, að á árinu 1977 eru ekki not fyrir nema svona 25–30% af fullu afli virkjanarinnar og á árinu 1978 er ólíklegt að verði not fyrir nema svona 35–40% af fullu afli virkjunarinnar, 150 mw. Það liggur sem sagt fyrir að talsvert mikið vannýtt afl er hjá þessari virkjun á þessu ári, sem nú er að líða, og næsta ári. Á þetta er auðvelt að benda og þetta er auðvelt að sanna með því einfaldlega að vísa til þeirrar orkuspár sem fylgdi frv. hæstv. ráðh. um lönduvirkjun, þar sem kemur skýrt fram hver eru áætluð not okkar íslendinga af orku á landsvirkjunarsvæðinu á þessum árum, og síðan haft til hliðsjónar hver er orkuvinnslugeta þeirra virkjana sem fyrir eru.

En með þessu er ekki sagt að ekki hafi verið þörf fyrir þessa virkjun, því hefur enginn haldið fram. Það er alger uppspuni hjá hæstv. ráðh. að Þjóðviljinn eða við alþb.-menn höfum haldið því fram, að af þessari ástæðu hefði Sigöldu virkjun alls ekki átt að koma í gagnið. Það hef­ur enginn sagt. Það hefur ekkert verið sagt annað en það, að hún verður ekki nýtt nema að litlum hluta á fyrsta og öðru ári. Það er alveg laukrétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að það er þegar orðinn orkuskortur og það var þegar á s. l. ári orðin þörf á að Sigölduvirkjun kæmi í gagnið. Og einmitt vegna þess að virkjunar­framkvæmdir við Sigöldu hafa dregist úr hömlu og eru nú orðnar töluvert langt á eftir áætlun, þá hefur að sjálfsögðu talsvert tapast vegna keyrslu dísilvéla. Og við getum, ég og hæstv. ráðh., verið innilega sammála um það, að því ber að fagna að Sigölduvirkjun er um það bil að hefja framleiðslu. En það breytir ekki því, að á fyrstu tveimur árunum er býsna langt frá því að virkjunin verði fullnýtt.

Nú er það svo, að í sjálfu sér er ekkert keppi­kefli að virkjunin sé endilega fullnýtt um leið og hún tekur til starfa. En við höfum hins vegar bent á það, að næg viðfangsefni eru fyrir hendi fyrir orku frá Sigölduvirkjun, ef iðnrn. og hæstv. ríkisstj. hefðu sinnt betur þessum verkefnum, og að öllu eðlilegu hefði hitun húsa með raforku átt að vera miklu lengra á veg komin en hún er í dag. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að reyna að slá ryki í augu manna með því að fara að tala um húsahitun með jarðhita í þessu sambandi, því að það vita allir að um það snýst ekki þessi umr. Auðvitað eru allir sammála um það, hvort sem þeir heita alþb.-menn eða sjálf­stæðismenn eða framsóknarmenn, að það er sjálf­sagt að nota jarðhita alls staðar þar sem einhver möguleiki er á að fá hann til húsahitunar. Hæstv. ráðh. á ekki að láta sér til hugar koma að hann geti talið einhverjum trú um að við alþb.-menn höfum eitthvað á móti húsahitun með jarðhita. Það væri sannarlega furðuleg af­staða ef hún væri fyrir hendi. Það þýðir ekki heldur fyrir hæstv. ráðh. að fara að ásaka fyrrv. orkuráðh., Magnús Kjartansson, fyrir það, að hann hafi sent frá sér áætlun á árinu 1973 eða 1974 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að Akur­eyri yrði hituð með raforku, vegna þess að hann og allir aðrir vita að það var ekki búið að finna í nágrenni Akureyrar heitt vatn til þess að það væri hægt að hita Akureyri með jarðhita, þó að, að vísu sá möguleiki væri hafður í sigti sem annar af tveimur möguleikum. Í áætlunum, sem bæði rn. sendi frá sér og margir aðrir aðilar, er gert ráð fyrir báðum þessum möguleikum enda þótt menn gerðu ráð fyrir því versta, að það yrði hugsanlega að hita Akureyri eingöngu með rafafli. Eftir að jarðhitalindir fundust í Eyja­firðinum hjá Laugalandi hefur auðvitað aðstaðan breyst og þarf ekkert frekar að orðlengja það.

Það er líka hinn mesti misskilningur hjá ráðh. að í till. okkar alþb.-manna sé alls ekki gert ráð fyrir því, að hús séu hituð með jarðhita. Að vísu er það svo, að þessi till. er fyrst og fremst um nýtingu raforkunnar, og þar af leiðir að um nýtingu jarðhitans er miklu minna fjallað. Það leiðir af eðli máls. Till. er fyrst og fremst um nýtingu raforkunnar og um næstu vatnsaflsvirkjanir og um samtengingu raforkukerfisins. En þó er lögð á það áhersla í einni setningu þessarar till., að hraðað sé nýtingu innlendra orkulinda almennt.

Þetta var sem sagt útúrdúr og einungis til þess ætlaður að minna á að varðandi húsahitun með jarðhita er að sjálfsögðu enginn ágreiningur milli okkar alþb.-manna og sjálfstæðismanna og fáránlegt af hæstv. ráðh. að reyna að gera því skóna.

Varðandi orkuna frá Sigöldu er þetta sem sagt staðreyndin, að virkjunin er ekki nema að hluta nýtt nú þegar, enda þótt hún verði byggð nokkurn veginn í einum áfanga, að vísu vélarnar settar niður ein og ein í einu, eins og ævinlega er gert, en þó með svo skömmu millibili, og auk þess allar keyptar í einu lagi, svo að í raun og veru má segja að virkjunin sé reist í einum áfanga. Ég er alls ekki að segja að það hafi verið rangt að haga málum á þennan veg. Ég efast ekk­ert um að forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa reiknað það dæmi rétt, að skynsamlegast væri að haga málum á þennan veg. En þetta leiðir hins vegar til þess, að það er verulegt offramboð á orku á árunum 1977 og 1978. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því.

Hitt er svo einföld staðreynd, sem ég veit að ráðh. þekkir alveg jafnvel og ég og má lesa í bréfum Orkustofnunar til okkar þm. hvað eftir annað, að Sigölduvirkjun verður fullnýtt á árinu 1979, og því veldur þessi mikla orkusala til járnblendiverksmiðjunnar ef af verður. Eins og hér hefur komið fram er gert ráð fyrir að járnblendiverksmiðjan taki um það bil helminginn af allri orku Sigölduvirkjunar, og þegar svo þar við bætist að nokkur orkuskortur er fyrir, virkjunin er sem sagt þegar á árinu 1978, eins og ég sagði hér áðan, nýtt 35–40%, þá er það einföld staðreynd að afgangurinn spænist upp á árinu 1979. Við íslendingar bætum við okkur á landinu öllu orkuþörf sem nemur 30 mw. á ári. Það er því auðskilið og alls ekki neitt deilumál, held ég, milli eins eða neins, að Sigölduvirkjun verður fullnýtt eftir tvö til þrjú ár.

Ég veit ekki hvort þessi ólíkindalæti af hálfu hæstv. ráðh., þegar hann er að segja að ég hafi haldið þessu fram, eigi að tákna það að hann sé á einhverri annarri skoðun. Ég hélt að hann hefði allar þær sömu upplýsingar í höndunum og ég, og meðan ekki kemur annað fram geri ég ráð fyrir að hann hljóti að vera alveg nákvæmlega sömu skoðunar og ég hvað þetta snertir.

Svo ætlar hann að bæta við ólíkindalætin með því að segja: Svo eru þessir menn að furða sig á því, eftir að hafa verið búnir að tala um orku­skort á árinu 1980 eða 1981, að ég skuli hafa gefið leyfi til byggingar Hrauneyjafossvirkjunar. Það á að vera enn ein mótsögnin í málflutningnum. En það er ósköp einfalt mál og kom reyndar mjög skýrt fram í ræðu minni áðan. Við erum alveg sammála ráðh. um að það er þörf á nýrri virkjun á árinu 1981. Um það er enginn ágreiningur. Spurningin er bara um það eitt, hvort Hraun­eyjafossvirkjun er ekki óeðlilega stór virkjun, hvort nokkur ástæða er til þess að virkja á árinu 1980–1981 virkjun sem bersýnilega verður 210 mw. Þó að vísu séu tekin í fyrsta áfanga 70 mw., í öðrum áfanga 140 mw. þá vitum við að þessi virkjun er hönnuð sem 210 mw. virkjun og verður það innan tíðar ef á annað borð er farið af stað með hana. Og þá er sem sagt spurningin sú, hvort þessi virkjun sé ekki bersýnilega allt of stór miðað við þann markað sem verður á fyrri hluta næsta áratugs, nema eitthvað annað komi til. Ég hef bent á það, að jafnvel þó að landið allt verði samtengt í eitt raforkukerfi og jafn­vel þótt engin önnur virkjun verði framkvæmd á því tímabili sem tekur við eftir 1981, þá tekur það 7 ár að fullnýta Hrauneyjafossvirkjun, 210 mw., því að eins og kunnugt er eykst raforku­markaðurinn á landinu öllu um 30 mw. á ári, og útkoman verður mjög svipuð ef reiknað er í gwst. og miðað við orkuna, en ekki aflið.

Það er ekkert óeðlilegt að spurt sé hvað eigi að gera við alla þessa orku eða hvort það sé ekki óhagkvæmt að þurfa að bíða í mjög langan tíma, kannske 7 ár, eftir því að virkjunin verði fullnýtt. Þó að við ráðh. séum kannske sammála um að það er engin höfuðnauðsyn að virkjun sé fullnýtt þegar hún fer af stað, og reyndar óheppi­legt, því að þá hlýtur að hafa verið um mikinn orkuskort að ræða þegar hún tók til starfa, þá er hitt samt mjög óeðlilegt og óhæfilegt, að eigandi virkjunar þurfi að bíða í 7 ár eftir því að hún verði fullnýtt.

Þetta er ástæðan fyrir því, að við höfum gagnrýnt byggingu Hrauneyjafossvirkjunar. Við teljum, að miðað við orkumarkaðinn, eins og hann verður í byrjun næsta áratugs, sé minni virkjun hentugri, og höfum reyndar bent á að hyggilegast kynni að vera að byggja röð af miðlungsstór­um virkjunum, 30 mw. hver virkjun, þannig að grunnaflsþörf í hinum ýmsu landshlutum sé fullnægt áður en næsta stóra virkjunin á eldfjallasvæðinu hér syðra kemur til.

Í þessu sambandi er nú kannske rétt að benda ráðh. á, ef hann gerir sér ekki fyllilega grein fyrir því sjálfur, að það er hin mesta fjarstæða að við alþb.-menn séum á móti stórum virkjunum almennt, eins og hann reyndi að halda fram í útvarpsumr. hér fyrir skemmstu, reyndi að telja þjóðinni trú um að við alþb.-menn hefðum í orkutill. okkar mótað þá stefnu að hér skyldu ekki reistar virkjanir yfir 70 mw., eins og hann tók til orða í ræðu sinni, við vildum bara virkjanir að stærð 30–70 mw. Slíka stefnumótun er hvergi að finna í tillöguflutningi okkar alþb.-manna, og það er okkur víðs fjarri að telja að virkjana­stærðin 30–70 mw. sé einhver heilög tala sem ekki megi bregða út af og menn þurfi að binda sig við. Við erum alveg sammála ráðh. um það, að virkjanir eins og Hrauneyjafossvirkjun eru afar hagkvæmar virkjanir, vegna þess hversu stórar þær eru og vegna þess hversu orkukostnaðurinn er lágur miðað við kwst., ef aðeins því skilyrði er fullnægt, að hægt sé að nýta orkuna og hægt að selja hana á viðunandi verði. En hitt er allt annað mál, að það verður ekki búið að undirbúa nýtingu þessarar orku, sem frá Hrauneyjafossi kemur, í byrjun næsta áratugs, og er því bersýnilegt að aðeins er um tvo kosti að velja: annaðhvort að selja orkuna til erlendrar stóriðju fyrir smánarverð, fyrir óviðunandi verð, eða þá að horfa upp á það að virkjunin verði vannýtt um langan tíma. Við teljum hvorugan kostinn góðan og leggjum því til, að meðan verið er að undirbúa iðnþróunaráætlun, sem geri ráð fyrir talsverðum orkufrekum iðnaði í eigu innlendra manna sem geti komið samtímis því að mjög stór virkjun er tekin í gagnið eins og Hrauneyjafossvirkjun, þá sé heppilegra og hyggilegra að reisa nokkrar minni virkjanir. Við til­tökum ekki hvað þær eiga að vera margar, við höfum hins vegar sagt: a. m. k. tvær, og eigum þá við árin 1981 og 1982, en gerum okkur grein fyrir því, að fyrr eða síðar kemur Hrauneyja­fossvirkjun inn í virkjanaröðina, annað hvort sem þriðja virkjun eða þá kannske fimmta eða sjötta virkjun eftir Sigöldu og Kröflu, allt eftir því sem heppilegast verður talið miðað við fyrir­liggjandi raforkuspá.

Það er sem sagt hin mesta fjarstæða og auð­vitað ekkert annað en vísvitandi rangfærsla, að því er mér sýnist, að halda því fram, að við alþb.-menn séum alfarið á móti stórvirkjunum og getum ekki hugsað okkur neitt nema miðlungs­stórar virkjanir. Þetta var nauðsynlegt að hér kæmi fram, vegna þess að við höfum ekki átt þess kost að svara þessu atriði sem ráðh. gerði svo mjög að umtalsefni í útvarpsumr. hér nýlega, en þar var um mjög grófa rangfærslu að ræða. Og það er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. að vera með einhver ólíkindalæti vegna þess að við segjum annars vegar að Sigölduvirkjun sé bersýnilega vannýtt nú, að hún verði fullnýtt eftir 2–3 ár og að Hrauneyjafossvirkjun sé ber­sýnilega of stór. Þetta er allt auðskilið hverjum þeim sem vill skilja það og engin mótsögn í sjálfu sér.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði, að því væri haldið fram ýmist að hann hefði gert allt of lítið á þessu sviðinu eða hinu eða hann hefði gert allt of mikið. Það skyldi nú ekki vera, að það væri einhver sannleiksneisti í þessu fólginn? Það skyldi nú ekki vera, að þetta ætti að heita e. t. v. svolítið ófullkomin lýsing á vinnubrögðum ráðh. Það leynir sér ekki, að hvað snertir uppbyggingu iðnaðar í landinu, hvað snertir iðn­þróunaráætlun, hvað snertir uppbyggingu orku­frekra fyrirtækja í eigu íslendinga sjálfra, þá hefur frumkvæði ráðh. verið allt of lítið. Það hefur verið um að ræða forustuleysi og frum­kvæðaleysi sem kemur okkur í koll. En þegar svo aftur á móti um það er að ræða að taka ákvörðun um nýjar virkjanir á næsta áratug, þá leynir sér ekki að annað tveggja er, að ráðh. veit ekki hvað hann er að gera og tekur því ákvarðanir eða vinnur að undirbúningi allt of stórra virkjana, þegar hann er á sama tíma með í gangi hér í þinginu bæði Blönduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun sem samtals eru upp á 360 mw. og mundu nýtast landinu öllu á 12 árum ef ekki kæmi neinn orkufrekur nýr iðnaður til sögunnar, innlendur eða erlendur, og er svo á sama tíma að tala um að það þurfi að sjálfsögðu að virkja Bessastaðaá og að sjálfsögðu að virkja á fleiri stöðum á landinu. Annaðhvort er, að ráðh. gerir sér ekki grein fyrir því, að í þessum efnum er hann allt of stórtækur, eða þá hitt er staðreynd, sem við höfum hvað eftir annað haldið fram, við alþb.-menn, að hæstv. ráðh. væri með ískyggileg plön um erlenda stóriðju í poka­horninu. Það er ekki nema tvennt til. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja þessar umr.

3314

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson): Herra forseti. Ég held að ég verði að óska eftir því, að hv. frsm. minni hl. verði sóttur því að hann er ekki viðstaddur. (Forseti: Já, það skulu verða gerðar ráðstafanir til þess að athuga hvort þm. er í húsinu.) Ég hinkra hér við á meðan. Herra forseti. Ég sé að hv. þm. ætlar að heiðra okkur með sinni nærveru.

Ég bað um orðið m. a. til að mótmæla því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að við værum orðnir syfjaðir. Þetta er alger misskilningur, þetta er rétt að byrja. Og auk þess heyri ég í fréttum útvarpsins að mjög halli á meiri hl. í þessu máli. Upplýst var að frsm. meiri hl. hafi aðeins talað í einn og hálfan tíma, en frsm. minni hl. í þrjá, og nú hefur hann þar að auki í kvöld endurtekið næstum því allt sem hann sagði á þremur tímum við 2. umr. Ég þarf að sjálfsögðu að jafna þessi met, og mér reiknast til að ég þurfi að tala rúma þrjá tíma. Ég hef því búið mig undir það. (Gripið fram í.) Tók ég niður ákaflega mikið af punktum úr merkri ræðu hv. frsm. minni hl. Ég er hérna með margar bls. En ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að skoða þetta nánar núna áðan sýnist mér það ekki vera á nokkurs manns færi að leiðrétta það magn misskilnings og vitleysu og bókstaflegrar þvælu sem flutt var í þessari löngu ræðu.

Ég verð að segja það, að mér eru það ákaflega mikil vonbrigði sem formanni iðnn., að ekki skuli hafa tekist á löngum og mörgum fundum okkar, margra tíma fundum, að fá nokkru meiri skynsemi í þann rökstuðning gegn járnblendiverk­smiðjunni en hér var fluttur. Og ég get raunar sagt svipað um postulana tólf í rökstuddri dag­skrá hv. þm. sem hér talaði síðastur. Þar er bókstaflega öllu snúið við. Meira að segja staðreyndum um arðsemi verksmiðjunnar er bókstaf­lega snúið við. Svart er bara hvítt og hvítt er svart. Er til nokkurs að eltast við slíkt?

Ég ætla aðeins að taka eitt lítið dæmi. Hv. þm. Stefán Jónsson fullyrti hvað eftir annað í ræðu sinni, að ég hefði sagt að það væri ekki á færi þm. að skilja þau tæknilegu fskj. sem fylgdu umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ég hef aldrei sagt nokkuð slíkt. Þetta er hrein vit­leysa. Ef ég hefði sagt eitthvað slíkt, hefði ég að sjálfsögðu aðeins átt við þann hv. þm., og um þetta vil ég segja við hann:

Um þessa umsögn ei hef sagt,

að ekki væri á margra færi,

en e. t. v. er út af lagt,

að ofar mun það þínu læri.

En sem sagt, eftir að ég hef skoðað þetta vandlega hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að ég hef bókstaflega aldrei við nokkra umr. heyrt svo snúið við staðreyndum máls sem vandlega hefur verið athugað. Ég gæti að vísu lesið upp umsögnina sem liggur þarna á borðinu hjá mér frá Heilbrigðiseftirlitinu, eins og hv. þm. er búinn að lofa okkur hvað eftir annað, en hefur ekki staðið við. Kannske gerir hann það nú, við skulum vona það. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það væri alger tímasóun mín að ætla eftir 20–30 fundartíma í iðnn. að koma nokkru viti inn í þann boðskap sem hér hefur verið fluttur gegn málmblendiverksmiðjunni á Grundartanga.