03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4269 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra for­seti. Ég hef að vísu þegar tekið tvisvar til máls við þessa umr. En það er nú aðallega vegna þess, að hv. þm. Steingrímur Hermannsson lagði ekki í þetta ofurverk: að gera grein fyrir mismunandi skilningi okkar tveggja á grundvallaratriðum sem fram komu í umfjöllun iðnn. um þetta mikla mál á löngum tíma, sem ég kveð mér nú aftur hljóðs hér, en leyfi mér þó að vitna í ummæli sem ég viðhafði er málmblendimálið var til umr. hér hið fyrra sinnið og ég man orðrétt, fyrst og fremst vegna þess að þeim var ekki mótmælt þá af hv. þm. Steingrími Her­mannssyni. Ég leyfði mér þá að komast svo að orði, er hann greindi frá því hversu mikla vinnu viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem hann á sæti í, hefði lagt í undirbúning málsins og rannsókn þess, að af þeirri yfirlýsingu hans mætti aðeins draga þá ályktun, að löng umfjöllun manna með ákveðna eiginleika væri síður en svo trygging fyrir því, að þeir kæmust að réttri niðurstöðu.

Og svo aðeins þetta: Ég endurtók það nú ekki æ ofan í æ, að hv. þm. Steingrímur Hermanns­son hefði sagt þetta um þm., að þá brysti þekkingu til þess að fjalla um tæknilegar hliðar í umsögn heilbrrn. Ég mun hafa sagt það einu sinni, og ég viðurkenndi þetta fyrir honum í dag, þegar hann hafði sent mér þrjú ágætlega kveðin erindi upp á þetta, að ég hefði haft hann þarna fyrir rangri sök, haft eftir honum nokkuð sem hann hefði ekki sagt. Ég svaraði honum með þessari vísu, sem var afsökunarbón mín og ég tel þó eðlilegt að komi fram í þskj.:

Fyrirgefa munt þú mér

mega á augabragði.

En hafði ég eitthvað eftir þér

sem annar kjáni sagði?