03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4270 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til 1. um breytingu á l. um tekjuskatt og eignar­skatt. Meiri hl. n. mælir með því að frv. verði samþykkt. Það kom fram í ræðu fjmrh. við fram­sögu þessa máls, að svo gæti farið að það væri mögulegt að flytja brtt. við frv. þetta í þeim tilgangi að skapa svigrúm vegna væntanlegra kjara­samninga. Þess vegna töldu nm. rétt að áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Það er hins vegar ljóst, að slíkar till. munu ekki fram koma á þessu stigi málsins, og enn þá er ekki ljóst hvernig slíkum fjármunum verður best varið með samkomulagi allra aðila.

Þetta frv. er einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi fjallar það um það, að eins og flestir vita tók gildi um síðustu áramót nýtt fasteignamatsverð og samkv. lögum um tekju- og eignarskatt er fasteignamatsverð það verð sem heimilt er að fyrna eignir af. Þetta hefði þýtt að mjög auknar fyrningar hefðu komið ýmsum aðilum til handa, og það var ekki hugmyndin með hinu nýja fasteignamati. Þess vegna var nauðsynlegt að setja skýr ákvæði í lög þess efnis, að fyrningarverð eigna skyldi ekki vera hið nýja fasteignamat, heldur það fasteigna­mat, sem gilti áður, eða kaupverð eða kostnaðar­verð. Það er hins vegar ljóst, að það hefur valdið verulegum óþægindum að þetta skuli ekki hafa komið fram fyrr hér á Alþ. Það hefur ríkt töluverð óvissa um það í vetur, hvaða regla skyldi gilda í þessum efnum, en þetta frv. og væntanleg laga­setning eyðir óvissu um það.

Í öðru lagi gerir frv. þetta ráð fyrir því, að eignarskattur greiðist samkv. öðrum reglum en gildandi lög mæla fyrir um, þ. e. a. s. af fyrstu 6 millj. skuli ekki greiðast neinn eignarskattur hjá einstakling og af fyrstu 9 millj. skuli ekki greiðast eignarskattur hjá hjónum. Af því, sem umfram er, skal greiða 0,8%. Þessi breyting er fyrst og fremst gerð til þess að vega á móti nýju fasteigna­mati, þótt ljóst sé að það er ekkert hlutfall þarna á milli sem segi að þessar tölur séu hinar einu réttu. Það fer að sjálfsögðu eftir skuldum manna og ýmsum öðrum aðstæðum, hvernig þessi breyting kemur út.

Þetta eru þær einu breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir að gerðar verði á gildandi lögum um tekju- og eignarskatt. Það er hins vegar ljóst, að skattalagafrv. því, sem hæstv. fjmrh. lagði fram skömmu fyrir áramót, verður ekki lokið á þessu þingi. Ég held að í sjálfu sér þurfi það engan að undra þótt svo sé ekki. Þar er um mjög flókinn lagabálk að ræða og umfangsmikinn, og það er ekki óeðlilegt að það taki verulegan tíma fyrir Alþ. að yfirfara og athuga slíkt mál. Og ég vil leggja á það áherslu, að ég tel að það verði að vinna mjög vel að málum í sumar og fram á haust ef á að takast að afgreiða þetta mál með sæmilegu móti á næsta hausti, en slíkt er að sjálfsögðu alger nauðsyn. Það er margt ógert varðandi frv. þetta og er nauðsynlegt að haldið verði vel á málum í sumar ef það á að takast.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar og er ekki síst í dag, að það hefði verið nauðsynlegt á s. l. hausti og ég lagði oft á það áherslu — að gera breytingar á gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt til þess að skapa frekari tíma til að vinna að heild­arlöggjöf. Þær breytingar, sem var fyrst og fremst nauðsynlegt að gera varðandi einstak­linga, var að einfalda nokkuð frádráttarliði, t. d. að fella niður frádráttarliði vegna húsnæðis og jafnvel eigin húsaleigu, setja ákveðið þak á frá­drátt vegna útivinnandi eiginkonu. Varðandi atvinnureksturinn hefði að mínum dómi verið nauð­synlegt að breyta eða fella niður svokallaða verð­stuðulsfyrningu og einnig að lögfesta ýmis ákvæði frv. um reglur um meðferð söluhagnaðar, til þess að eyða þeirri óvissu hvort mögulegt sé að þær reglur geti gilt fyrir árið 1977. Það er hins vegar alveg ljóst, að það er ekki möguleiki að gera slíkar breytingar nú þegar allir hafa talið fram og eyðublöð hafa verið gerð þannig úr garði, og þýðir ekki um það að tala. En ég vil aðeins leggja á það áherslu, að það er nauðsynlegt að vinna mjög skipulega og vel að frv. því sem er til með­ferðar í þinginu til þess að það megi takast að koma því máli sæmilega í höfn á næsta hausti.

Ég vil aðeins að lokum ítreka það, að meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. þetta verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Albert Guðmundsson og Jón Árm. Héðinsson, en Ragnar Arnalds skilar séráliti.