03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma það að ég hafði ekki tíma til þess að vera á fundi fjh.- og viðskn. þegar þetta mál var rætt í morgun — eða réttara sagt í gær, en ég get ekki betur skilið en með samþykkt þessa frv. stór­hækki eignarskattur á þeim sem eiga skuldlausar eignir. Ég vona, að frsm. leiðrétti mig, ef það er rangt skilið. Innheimt heildarupphæð á að vera sú sama og áður var, þannig að ríkissjóður tapi ekki í krónutölu þrátt fyrir það að eignar­skattur er lagður á 10 þús. einstaklingum færri en áður var samkv. því sem stendur í frv., með leyfi forseta: „Ætla má að með þessum breytingum fækki eignarskattsgreiðendum um meira en 10 þús.“ Þetta finnst mér ógnvekjandi fyrir þá sem hafa kannske á langri ævi unnið hörðum höndum til að tryggja sér húsaskjól og heimili, eiga skuldlausar eignir og hafa kannske alla ævi stritað til þess að eiga öruggt skjól í ellinni. Gamalt fólk í stórum skuldlausum húsum verður kannske hvað harðast úti. Ég álít að þetta frv. komi til með að flæma þetta fólk — og kannske aðra þá sem eiga skuldlausar eignir — frá heimilum sínum sem það, eins og ég sagði áðan, hefur byggt upp í blóma lífsins.

Ég er hræddur við þetta frv., og úr því að frsm. var kominn út í að tala um skattafrv. eins og það var lagt fram í byrjun og blessunarlega hefur nú sofnað í bili, þá fagna ég því enn þá frekar að það skattalagafrv., sem ég hélt að hann væri að byrja að mæla fyrir, kom hér ekki fram, því að það er ekki síður gallað, jafn­vel hver einasta gr. Ég held að alþjóð hafi látið í ljós skoðun sína í þá átt. Ég verð að segja það, að eins og þetta frv. liggur fyrir og er ógn­vekjandi í mínum augum, þá mun ég ekki styðja það.