03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4274 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. hér í kvöld, en ég þakka frsm. af heilum hug að staðfesta að ótti minn við þetta frv. var á rökum reistur. Ég gat ekki betur skilið af hans orðum en að þetta frv. sé þeim sérstaklega í hag sem skulda, og þá er eðlilegt að álykta að réttast sé að Alþ. láti þann boð­skap berast til þjóðarinnar, að það sé best fyrir alla að skulda sem allra mest.

En sem sagt, ótti minn er staðfestur af hv. frsm., og ég þakka honum fyrir upplýsingar hans. Hitt er svo annað mál, að ég man ekki eftir, síðan ég fór að fylgjast með, eins mikilli mótmælaöldu gegn nokkru eins og því skattafrv. sem fram var lagt. Það var lagt fram til þess að kynna það fyrir þjóðinni, og það var lagt fram í tíma til þess að hún gæti sagt álit sitt. Og hún gerði það. Ef þetta á að vera leiðin sem núv. hæstv. ríkisstj. velur til þess að finna hið rétta í skattamálum, þá sé ég ekki aðra leið réttari en að eyðslufrv., fjárl. sjálf, verði á sama hátt lögð fyrir þjóðina og hún látin segja til um þau.