04.05.1977
Sameinað þing: 86. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4281 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

271. mál, áætlunarflugvellir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra for­seti. Á undanförnum árum hafa átt sér stað meðal ýmissa aðila víðtækar umræður um flugmál og þá ekki síst þann þáttinn sem snýr að flugöryggismálum. Hér á hv. Alþ. hefur einnig verið fjallað um þessi mál og leiddi m. a. til þess, að svo hljóðandi þáltill. um öryggisbúnað flugvalla var samþ. 7. maí 1975:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera athugun á því, hvernig komið verði upp á sem skemmstum tíma nauðsynlegum öryggisbúnaði á flugvöllum landsins.“

Í framhaldi af greindri þál. svo og öðrum umr. um þessi mál skipaði samgrn. hinn 23. jan. 1976 sérstaka n. til þess að gera úttekt á íslenskum flugvöllum og flugöryggismálum í heild. Álit n., sem ber heitið: Áætlunarflugvellir og búnaður þeirra — lá fyrir í nóv. á s. 1. ári og var þá þegar sent hv. alþm. til fróðleiks og upplýsinga. Með áðurgreinda þál. í huga og þau grundvallarsjónarmið, sem fram koma, og meginleiðir, sem lagðar eru til í þessari skýrslu n., þykir sérstök ástæða til að leggja hana formlega fram hér á hv. Alþ.

Skýrslan skýrir sig að öllu leyti sjálf og ætti sem slík að geta lagt grunn að framtíðarupp­byggingu íslenska flugvallakerfisins, þó að marki hennar verði e. t. v. ekki náð innan þeirra tíma­setningar er hún gerir ráð fyrir. Því ráða auðvit­að fjárveitingar þær sem til verksins fást hverju sinni.

Til viðbótar þessu vil ég geta þess, að þessari skýrslu fylgir til skrifstofu Alþ. mynd af öllum flugvöllum landsins og ástandi þeirra eins og það er, og gert er ráð fyrir að prenta aðra slíka skýrslu sem fjvn. Alþ. fái í hendur, en fjárlaga- og hagsýslustofnunin fékk einnig slíka skýrslu.

Ég vil bæta því við, um leið og ég þakka n. hennar mjög svo góðu störf, því að ég tel að hér sé um gagnmerka skýrslu að ræða, að ég tel að nauðsyn beri til, að þessi skýrsla verði rædd hér á hv. Alþ. á hausti komanda, þegar þing kemur saman aftur, enda hefðu þá hv. þm. haft góðan tíma til þess að kynna sér þessi mál. Og að sjálfsögðu ber að hafa þessa skýrslu sem grundvöll undir fjárlagagerð um framkvæmd flugvalla og öryggismál á næstu árum.