04.05.1977
Sameinað þing: 86. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4282 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

164. mál, samræming á fjárhagslegum grundvelli framhaldsskóla

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar stjfrv. um samræmdan framhaldsskóla var hér til umr. fyrir nokkrum dögum var ljóst á öllu, engu síð­ur en nú, að það var ekki mikill tími til þess að ræða það yfirgripsmikla mál. Þó var greinilegt að það var einn þáttur þess mikla máls sem ég hygg að margir alþm. hefðu gjarnan viljað fá frekari skýringar á en fram komu í þeim umr., og það er einmitt það atriði sem sú till., sem hér er nú til umr. og lagt er til að verði vísað til hæstv. ríkisstj., fjallar um. Það er auðvitað enginn vafi á því, að allir þeir aðilar, sem hafa eitthvað með að gera framhaldsskólana í landinu, hugsa um það, hvernig eigi að fara með fjárhagshlið þeirra mála, hvernig ætlað sé að skipa fjármálunum. Það er kunnugt að sú skipan hefur verið í meginatriðum, að nokkur hluti framhaldsskólanna hefur verið kostaður að hálfu leyti af sveitarfélögum fram til þessa og að hálfu leyti af ríkinu, en flestir framhalds­skólar hafa verið kostaðir nær einvörðungu af ríkinu.

Margar till. hafa komið hér fram á hv. Alþ. um að samræma þessa hluti. Einna mest hefur borið á þessu í seinni tíð varðandi iðnskóla landsins, en þar er fyrirkomulagið þannig, að það er gert ráð fyrir að sveitarfélögin standi undir stofn­kostnaði þeirra skóla að hálfu leyti, en ríkið að­eins að hálfu. Till. hafa komið hér fram um að ríkið taki að sér byggingarkostnað þeirra skóla á svipaðan hátt og ríkið hefur nú þegar tekið að sér byggingarkostnað margra annarra framhaldsskóla.

Ég veitti því athygli þegar stjfrv., sem hér var lagt fram til sýnis, en ekki til endanlegrar afgreiðslu á þessu þingi, var hér til umr. fyrir nokkrum dögum, þá kom þar fram í grg. með frv. að við það væri miðað að ríkið tæki yfir­leitt að sér 70% af stofnkostnaði framhalds­skólanna, en sveitarfélögin 30%. Í tilefni af þessari litlu till., sem hér liggur fyrir og ég veit að er ekki nema skammur tími til þess að ræða, hefði ég viljað óska eftir því, að hæstv. menntmrh. hefði getað gefið hér nokkrar upp­lýsingar, sem þm. gætu farið með heim af þessu þingi, um það sem mjög er spurt um heima í héruðum varðandi þessi mál: Hvernig er í rauninni hugsað að koma því fyrir, að sveitarfélögin í landinu taki að sér sem nemur 30% af stofn­kostnaði allra framhaldsskóla svo að segja í land­inu? Hvernig hugsa menn sér að koma þessu fyrir?

Mér þykir einsýnt, einmitt um leið og þessi till. liggur hér fyrir og lagt er til að vísa henni til ríkisstj. sem hefur fjallað um þessi mál og lagt fyrir það stjfrv. sem ég minntist á, að gerð hefði verið grein fyrir því í stuttu máli, hver meginhugsunin væri af hálfu ríkisstj. varð­andi þetta efni. Nú sé ég að hæstv. menntmrh. er því miður ekki hér í salnum, það þykir mér miður, en kannske gætu einhverjir aðrir af hálfu ríkisstj. gefið hér um upplýsingar. Ég hef nefni­lega ekki fengið neinar skýringar á því, hvernig hægt sé að koma þessu fyrir á skaplegan hátt þannig að sveitarfélögin geti tekið að sér þennan stóra kostnaðarhluta. Ég held líka að þó að menn hugsuðu sér að gera betur við sveitarfélögin fjárhagslega en verið hefur til þessa, þ. e. a. s. veita þeim einhvern nýjan tekjustofn, að það hljóti að verða mjög erfitt að koma því fyrir skipulagslega að sá tekjustofn renni þá með eðlilegum hætti einvörðungu til þess að standa undir þessum útgjöldum, því að sum sveitar­félög hafa skiljanlega nokkurn kostnað af rekstri framhaldsskóla, en önnur hreint ekki og koma lítið inn í það. Ég hafði sem sagt hugsað mér að reyna að fá hér smáupplýsingar varðandi þessa till. áður en henni verður vísað til ríkisstj., sem mér þykir heldur tómlegt í þessu máli, að vísu henni einfaldlega þangað. (Forseti: Það er verið að leita að hæstv. menntmrh.) Já, ég þakka fyrir. Þá hefði ég gjarnan viljað fá upplýsingar um þetta atriði. Að öðru leyti hef ég ekkert við það að athuga að till. gangi þangað, en mér finnst að það væri ástæða til að þm. fengju upplýs­ingar um þetta atriði.

Það er enginn vafi á að það fyrirkomulag, sem nú er ríkjandi í þessum efnum, háir mjög ýmsum af okkar framhaldsskólum. Þessu er t. d. þannig farið með iðnskólana. Þar er hreinlega stöðnun vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki talið sér fært að rísa undir kostnaði sem nemur 50%, og menn hafa búist við því að þar yrði breyting á, að ríkið tæki á sig stærri hluta þarna, eins og það hefur verið að gera varðandi aðra framhaldsskóla, þar sem ekki hafði verið sú regla ráðandi að ríkið bæri allan kostnaðinn. Skemmst frá að segja er það sem snýr að við­skiptafræðinámi. Var gerð fyrir stuttu sérstök samþykkt hér á Alþ. um að hækka þar hlut ríkis­ins til mikilla muna.

Nú sé ég að hæstv. menntmrh. er kominn, og ég vil aðeins endurtaka það í sambandi við þá litlu till. sem hér liggur fyrir um samræmingu á fjárhagslegum grundvelli framhaldsskóla, en till. er um að vísa þessari þáltill. til ríkisstj., að mér hefði fundist nokkur ástæða til þess, um leið og þessari till. er vísað til ríkisstj., að hæstv. ráðh. hefði gert þinginu grein fyrir því í stuttu máli, því að mér er ljóst að það er ekki hægt að að ræða þetta mál ítarlega, hvernig það er hugs­að sem fram kemur í stjfrv. varðandi þessi mál um samræmdan framhaldsskóla, hvernig það er í rauninni hugsað að sveitarfélögin í landinu geti tekið á sig um 30% af stofnkostnaði framhalds­skólanna almennt. Ég þykist alveg viss um að ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að sveitarfélögin geti ekki tekið á sig þennan mikla kostnað nema þá á þann hátt, að þau fái nýjan tekjustofn, og þá kemur spurningin fram um það, hvernig eigi að koma því fyrir, því að það dugir ekki að veita sveitarfélögunum eftir venjulegri leið möguleika til þess að afla sér meiri tekna vegna þess að kostnaður í sambandi við framhaldsskólana hvílir svo misjafnt á sveitarfélögunum. Sum sveitarfélög þurfa að sinna þessum málum og gera það, en önnur samkvæmt eðli málsins láta sig þetta ekki miklu skipta, og það er varla réttmætt að sum sveitarfélögin standi af miklum þunga undir þessum útgjöldum.

Sem sagt, beiðni mín til hæstv. menntmrh. er sú, að hann upplýsi, áður en þessari till. er vísað til ríkisstj., í stuttu máli hvernig ríkisstj. hugsar sér að gera þessa breytingu: að leggja þær kvaðir á sveitarfélögin í landinu að þau standi undir um það bil 30% af stofnkostnaði framhaldsskólanna. Hvernig er þetta hugsað í aðal­atriðum?

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta frekar, því að mér er ljóst að það er að koma að lokum þessa fundar í Sþ.