04.05.1977
Sameinað þing: 86. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

164. mál, samræming á fjárhagslegum grundvelli framhaldsskóla

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég verð að segja hæstv. menntmrh. það, að ég hlýddi á alla ræðu hans og það gerðu ýmsir fleiri, þó að þeir hefðu mátt vera enn þá fleiri. En ég varð litlu fróðari um það efni sem ég var að spyrja um þó að ég hafi hlýtt á allt hans mál, og af því spurði ég. Ég er ekki heldur að óska eftir að hann endurtaki það sem hann sagði. Ég þykist kannast nokkurn veginn við það. Það gefur mér ekki þær upplýsingar sem ég er að biðja um. En ég er nokkurn veginn viss um að það er svipað ástatt um aðra þm. eins og mig í þessum efnum, að þeir hafa ekki fengið neitt fram­bærilegt svar við þessu. En vegna þess að um þetta atriði er spurt í svo að segja hverju sveitarfélagi, sem hefur eitthvað með framhaldsskóla að gera, fannst mér full ástæða til þess að það kæmi hér fram, svo að þm. gætu þó a. m. k. haft heim með sér af þessu þingi nokkrar upp­lýsingar um hvernig væri hugsað að koma þessu fyrir á þennan hátt, að sveitarfélögin ættu að taka á sig 30% af kostnaði við þessa skóla, en kostnaðarhlutfall ríkisins ætti að minnka, hvernig þetta væri hugsað í aðalatriðum.

Ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að gefa á þessu frekari skýringar en hann hefur gefið áður, þá er málið komið á enda og er auðvitað ekkert við því að segja. Þá verður eflaust að vinna úr málinu á annan hátt, en ég er hræddur um að þá fari svo með marga þm. eins og mig, að þeir treysti sér ekki til að gefa á því miklar skýringar þegar þeir koma heim, hvernig þessu megi fyrir koma, af því að þarna er tvímælalaust um mikið vandamál að ræða. Það verður ekki, eins og ég hef sagt, leyst á þann einfalda hátt að færa nýja tekjustofna með hefðbundum hætti yfir til sveitarfélaga. Þar þurfa að fylgja með miklu ítarlegri reglur ef úr þessu á ekki að verða ein flækja.

En ég hef sem sagt komið beiðni minni á framfæri, og hæstv. ráðh. hefur vitnað í ræðu sem ég hlýddi á. Ef ekki er um frekari svör að ræða, þá verð ég auðvitað að láta mér það lynda.