04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4293 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hv. 9. landsk. þm. sagði áðan. — Ég heyrði ekki betur en þessi hv. þm. væri alveg sammála okkur öllum, sem töluðum hér fyrr í d. um þetta mál, í gagnrýninni á hæstv. samgrh. fyrir að hafa ekki framkvæmt þennan vilja Alþ. Og mitt mál hér áðan var allt í þeim sama dúr, gagnrýni á þann eða þá aðila sem hafa komið í veg fyrir að af þessu gæti orðið, þannig að ég held að það megi að hluta segja kannske sama um þennan hv. þm. og hún sagði um hv. þm. Garðar Sigurðsson, að það eru býsna margir sem leika tveim skjöldum eftir því hvar þeir eru staddir.

Ég vil hins vegar segja það, að ég heyrði ekki betur en hv. þm. Garðar Sigurðsson tjáði sig í upphafi nefndarfundar á þann veg, að hann vildi að málið næði fram að ganga og yrði samþykkt. Það er hins vegar ýmislegt sem menn þreifa fyrir sér um samkomulag, bæði í þessu og öðru, og ýmislegt sem menn vilja á sig leggja til þess að reyna að ná samkomulagi. En um það var ekki að ræða varðandi þetta mál. Það var ekki við það komandi af hálfu meiri hl. samgn. að leggja til að málið yrði samþykkt, hvernig sem menn lögðu sig fram til þess að ná slíku samkomulagi.

Ég skal sem sagt ekki ræða þetta meira. Ég vildi aðeins koma því hér á framfæri að málflutningur minn í þessu máli hefur verið sá hinn sami og hjá hv. 9. landsk. þm., þar til brestur kom í fylgnina, þegar komið var í n., að halda málinu fram til streitu frá n. og í gegnum þingið.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að þó svo að þannig fari að þessu máli verði vísað til ríkisstj., þá á ég ekki von á því að mikið gerist þrátt fyrir það. Ef ekki er nægilegt að Alþ. geri samþykkt eins og það gerði fyrir tveimur árum til þess að viðkomandi ráðh. fari eftir henni, þá á ég ekki von á að það hafi mikil áhrif þó að samþykkt yrði hér í hv. Nd. að vísa þessu máli til ríkisstj. til úrmoðunar einhverja næstu mánuði eða ár. Það, sem hér þyrfti að gera, er fyrst og fremst að ítreka vilja Alþ. og framfylgja honum varðandi málið.