04.05.1977
Neðri deild: 90. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3374)

172. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frv. til 1. um breyt. á umferðar­lögum sem flutt er af hv. þm. Albert Guðmunds­syni og lagt fram í Ed. Í frv. voru tvær gr. Fyrri gr. hljóðaði svo:

„Við 40. gr. l. bætist 5. mgr., svo hljóðandi: Þegar ökumaður auðkennds almenningsvagns í þéttbýli gefur merki um akstur frá auðkenndri biðstöð, skal stjórnendum annarra ökutækja skylt að draga úr hraða eða nema staðar til þess að hinn auðkenndi almenningsvagn eigi greiða leið út í umferðina. Ákvæði þetta leysir þó eigi öku­mann almenningsvagnsins undan öðrum ákvæð­um þessara laga né því að sýna ítrustu varúð við akstur frá biðstöð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

26. apríl s. 1. var lagt fram nál. hv. allshn. í Ed. þar sem hún mælti einróma með samþykkt þessa frv., og 27. apríl var málið afgreitt frá Ed. 28. apríl fór fram 1. umr. þessa máls hér í hv. Nd. Morguninn eftir, 29. apríl, s. 1. föstudag, hélt allshn. síðan fund um þetta frv. Þeim fundi stýrði varaformaður n., hv. þm. Páll Pétursson, í fjarveru minni. Samkv. bókun fundar allshn. var ekki tekin afstaða til málsins og afgreiðslu þess mun hafa verið frestað. Síðan var boðað til fundar á þriðjudagsmorgni 3. maí, í gær, en ekki reyndist fundarfært í allshn. þá.

Vegna mjög eindreginna tilmæla nú í dag um afgreiðslu á þessu máli var boðað til fundar í allshn. áðan til þess að fjalla um frv. Þar lágu fyrir frv. sjálft og breyting sem hv. Ed. hafði gert á frv. samkv. till. allshn. þeirrar d. Breyting sú, sem gerð var í Ed., var á þá leið að á eftir orðunum „auðkennds almenningsvagns“ í 1. gr. bættust orðin „á áætlunarleið“, þannig að fyrsta setningin í 1. gr. hljóðar þá svo:

„Þegar ökumaður auðkennds almenningsvagns á áætlunarleið í þéttbýli“ o. s. frv.

Umsagnir höfðu borist um þetta frv., og ég vil aðeins skýra frá hvað í þeim felst í aðalatriðum. Umsögn lögreglustjórans í Reykjavík er á þá leið, að hann telji rétt að taka upp þessa reglu eins og gert hafi verið víða annars staðar. Hins vegar vekur hann athygli á því, að ekki sé nein lagaleg skilgreining á hugtakinu þéttbýli sem um er getið í þessu frv., og hann telur að misnotkun ökumanns almenningsbifreiða geti að ástæðu­lausu tafið umferð annarra ökutækja um veg og skapað hættu. Hann telur því ástæðu til að setja nánari reglur um merkjagjöf og bendir á að umferðarlaganefnd ætti að fjalla um framan­greint atriði ásamt fleirum, sem upp kynnu að koma, áður en frv. fær afgreiðslu.

Umsögn bæjarfógetans á Akureyri er á þá leið, að hann telur það hafa bæði kosti og galla, en gallana þó öllu meiri, einkum vegna hættu á umferðarslysum.

Félag ísl. bifreiðaeigenda sendi umsögn og mælir gegn samþykkt frv., bendir á að hugsan­lega muni umferðarhætta eða hætta á umferðar­slysum aukast.

Að lokum barst umsögn frá bæjarfógetanum í Kópavogi. Hann telur að meginefni frv. stefni í rétta átt, en telur hins vegar með öllu ástæðu­laust að láta aðra almenningsvagna en strætis­vagna í þéttbýli njóta þessa réttar. Hann leggur til að frv. verði breytt á þann veg, mundi mæla með því ef sú breyting yrði gerð.

Þá er rétt og skylt að geta þess, að deildarstjóri dómsmrn., Ólafur W. Stefánsson, hefur komið á framfæri aths. við frv. þar sem hann telur að frvgr., efnisgr., sé ranglega staðsett í umferðar­lögin, og hann gerir till. um annað orðalag á þessari gr. Enn fremur hefur hann gert aths. um gildistökuákvæði frv. og telur að það geti orðið víssum erfiðleikum háð að lögin taki gildi þegar í stað.

Þessum umsögnum vildi ég skýra frá um leið og ég get þess, að hv. allshn. hefur komist að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir þessar umsagnir, að leggja til að frv. verði samþ. Hv. þm. Páll Péturs­son var fjarstaddur afgreiðslu málsins og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson tekur ekki afstöðu til þess. Þess er rétt að geta, og það hefur ráðið afstöðu a. m. k. minni, að borgarstjórn Reykjavíkur, stjórn Strætisvagna Reykjavíkur og Umferðar­nefnd Reykjavíkurborgar hafa eindregið mælt með því, að þetta frv. yrði samþykkt.