04.05.1977
Neðri deild: 90. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

172. mál, umferðarlög

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Ég efa ekki að hér er um að ræða nauðsynlega breytingu á umferðarlögunum. En ef svo er, þá hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að afgreiða þetta mál fyrr í gegnum þingið? Það er alllangt síðan frv. var lagt fram, þetta er 172. mál, og hefði sannarlega verið tími til þess að afgreiða það þannig að það hefði hlotið eðlilega fyrirgreiðslu hér á Alþingi.

Þegar eftir eru aðeins nokkrar mínútur af þingtíma þar til þingi verður slitið er kallaður saman í skyndi nefndarfundur til þess að afgreiða þetta mál. Og það er ekki hægt að afgreiða það eins og væri eðlilegt og nauðsynlegt að gera, þ. e. að breyta gildistöku laganna. Þetta er breyting á 40. gr. umferðarlaga sem fjallar aðallega um sjúkrabifreiðar, slökkvibifreiðar, björgunarbifreiðar, og lögreglubifreiðar, og þessari gr. laganna eins og öðrum fylgja að sjálfsögðu sektarákvæði. Nú liggur það ekki fyrir enn þá hver sektarákvæði yrðu við brot á þessari viðbótarmgr., ef hún yrði samþykkt. Brot á umferðarlögum eru mjög mis­jöfn ef ég man rétt, allt frá 800 kr. upp í tugi þúsunda, og hvar brot á þessari mgr. ætti að lenda liggur ekki fyrir enn. Þó maður vildi spyrja hæstv. dómsmrh. um það, þá hygg ég að hann væri ekki tilbúinn að svara því hér, hvar inn í rammann þetta ætti að falla.

Mér finnst óeðlilegt að afgreiða svona mál á síðustu mínútum þingsins, — mál sem með mjög eðlilegum hætti ætti að fara aftur til Ed. þar sem gildistíminn yrði ákveðinn og þá ekki fyrr en um áramót, þannig að almenningur, sem ekur bifreiðum, fengi svigrúm til að átta sig á því að þetta hefur verið leitt í lög. Ef menn brjóta þá gr., sem hér er um að ræða, þá er það eins og hvert annað brot á umferðarlögum sem þeim ber skylda til að bæta með sektum.

Ég leyfi mér að flytja brtt. við frv., þannig að gildistaka laganna yrði 1. jan. 1978. Ég tel algert lágmark gagnvart almenningi að hann fái eitthvert svigrúm til að átta sig á því, að þarna er komið nýtt ákvæði inn í umferðarlögin, og tel það ekki of langan tíma þó að lögin taki ekki gildi fyrr en þetta. Þarna eins og um önnur ákvæði laganna verður án efa um sektarákvæði að ræða og þess vegna eðlilegt að þeir, sem aka bílum, fái svigrúm til að átta sig á því, að þeir eru að brjóta lög og eiga að bæta fyrir það ef þeir gerast brotlegir við þetta ákvæði laganna.