04.05.1977
Neðri deild: 90. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4298 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

172. mál, umferðarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðu­legi forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram út af orðum hv. 5. landsk. þm., að ég tel að menn verði að beita varlega pólitískum ákvörðunum í umferðinni.

Í annan stað vil ég segja það, að mér sýnist að hér geti ekki einasta verið um að ræða strætisvagna, heldur einnig fleiri almenningsvagna, og þar með er þetta orðið næsta víðtækt.

Þá vil ég benda á það, sem raunar kom greinilega fram hjá hv. frsm., að nál. er gefið út eftir skyndifund. Það eru aðeins þrír sem mæla með frv. án fyrirvara, tveir mæla með því með fyrir­vara og tveir mæla alls ekki með því, svo að sú leiðbeining, sem við óbreyttir dm. í þessu tilfelli gagnvart hv. n. höfum frá n., er dálítið veik. Mér hefði fundist það eðlileg afgreiðsla á þessu máli að því væri einfaldlega vísað frá með rök­studdri dagskrá, þar sem d. teldi að frv. þyrfti frekari athugunar við. En ég ætla ekki að flytja slíka rökstudda dagskrá. Ég vildi aðeins gera þá grein fyrir atkv. mínu, að ég tel þetta mál svo losaralega undirbúið í hendur hv. d. að ég treysti mér ekki til þess að fylgja því. Málið er áreiðan­lega umfangsmikið og ábyrgðarhluti að taka svona ákvarðanir án frekari athugana.