04.05.1977
Neðri deild: 90. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4298 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

172. mál, umferðarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. sumir gera fullmikið úr því, að hér sé eitthvert stórmál á ferðinni. Maður skyldi ætla að það væri ákvörðun um að breyta frá vinstri í hægri umferð eða öfugt. Hér er um það eitt að ræða sem verið hefur vandamál víða um lönd, að strætisvagnar eiga oft erfitt með að komast út í umferðina þegar þeir staldra við á biðstöðum til að taka fólk eða hleypa fólki út og mikil umferð er á veginum. Þá er það auðvitað þannig, eins og reynslan er hér, að ýmsir öku­menn sýna þá tillitssemi að hægja á sér eða staldra við til þess að strætisvagnarnir komist út í umferðina, eins og auðvitað sjálfsagt er. Aðrir gera það ekki. Og það, sem þetta frv. fer fram á, er eingöngu að til þess að auðvelda strætisvögnum að komast aftur út í umferðina frá biðstöðum og standast tímaáætlun sé stjórnendum annarra ökutækja, þegar slíkur almenningsvagn gefur merki frá auðkenndri biðstöð, skylt að draga úr hraða eða nema staðar til þess að strætisvagninn komist út í umferðina. Þetta er nú allt og sumt sem hér er á ferðinni.

Ég held að það sé líka misskilningur, að þetta mál sé illa búið í hendur þessarar hv. d. Án þess að rekja það rækilega, þá hefur þetta mál verið til umræðu á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna og það hefur verið til umræðu hjá Norrænu umferðarlaganefndini. Svíþjóð, Danmörk og Noregur eru búin að lögtaka slíkt ákvæði. Borgarstjórn Reykjavíkur, umferðarnefnd og stjórn Strætisvagnanna hafa einróma og eindregið óskað eftir þessari breytingu. Málið hefur legið fyrir hv. Ed. og allshn. Ed., sem fékk allar þær umsagnir sem hér voru nefndar, varð sammála um það, allir nm., n. óskipt, að mæla með frv. Ég sé ekki að okkur sé neitt að vanbúnaði í þessari d. að gera okkur grein fyrir ekki stærra máli.

Ég tel sjálfsagt að verða við þessum óskum. Það er rétt að það veldur oft miklum töfum fyrir almenningsvagna eða strætisvagna að ýmsir ökumenn sýna það tillitsleysi að hliðra ekki til og hleypa strætisvögnum út í umferðina. Ég tel ekki nokkra ástæðu til þess að vera að fresta gildis­töku þessara laga, enda er svo ákveðið í 1. gr., að dómsmrh. setji nánari reglur, bæði um auðkenni þessara vagna og önnur framkvæmdaratriði, og auðvitað er þá í því fólgið að þetta vandasama mál, sem sumum vex í augum, verði kynnt almenningi. Ég held að það séu engin vandamál þar á ferðinni. Ég mæli fyrir mitt leyti eindregið með því að frv. verði samþ. og afgreitt sem lög á þessu þingi.