09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

54. mál, sjóminjasafn

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir:

Herra forseti. Vegna fram kominnar fsp. og umr. um hana vil ég lýsa því yfir að dráttur þessa máls hefur valdið mörgum áhugamönnum miklum vonbrigðum. N, sem skipuð var til þess að segja álit sitt um safnið og staðarval fyrir það, skilaði áliti fyrir meira en ári. Var þar mælt með þeim gullfallega stað sem Hafnarfjarðarbær hefur gefið fyrirheit um fyrir safnið. Þetta er vestur á Skerseyri. Ég býst við að flestir hér kannist við þennan stað.

Þess má geta, að á síðustu tveimur árum hefur félag áhugamanna, Sjóminjafélag Íslands, unnið eftir mætti að undirbúningi safnsins. Það er áhugamannastarf, safnað saman gömlum bátum sem voru hinir síðustu sinnar tegundar, þeir teknir til varðveislu og viðgerðar. Er þess síðast að minnast að bjargað var bátnum Geir, hinum síðasta með Suðurnesjalagi. Hann hafði legið í fjörunni suður í Staðarhverfi í Grindavík í nokkur ár, og það má segja það til gamans, að bílstjórinn, sem sótti hann fyrir okkur, sagði: Af hverju takið þið hann ekki bara í nefið og hnerrið honum þegar komið er heim? Honum fannst hann svo illa farinn. En hann var nú ekki verr farinn en það, að það er vel hægt að gera þennan bát upp. Bátasmiðastöðin í Bátalóni er nú að endurbyggja þennan bát og sú endurbygging er dýr. En þessir áhugamenn vilja mikið á sig leggja, og það ætti að vera hæstv. menntmrh. veruleg hvatning til að hraða framgangi þessa máls, hvað margir einstaklingar vilja mikið á sig leggja fyrir málið sem slíkt. Ég vil því heita á hæstv. menntmrh. að beita kröftum sínum til þess að Sjóminjasafn Íslands megi sem fyrst rísa af grunni á þeim fagra stað sem því hefur verið ætlaður, við Skerseyrarveg í Hafnarfirði, og verði okkur öllum til sæmdar og ánægju þar með.