09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er að sjálfsögðu hið merkasta mál, þar sem það varðar framkvæmd sem mjög er aðkallandi. Þá á ég við að endurbyggja raflínukerfi landsins með tilliti til þess að hagnýtt verði raforka til upphitunar húsa í sveitum landsins þar sem jarðhiti er ekki hagnýtanlegur fyrir hendi.

Þetta er auðvitað aðalatriðið, það er framkvæmdin sjálf. En til þess að unnið sé með skipulögðum hætti að þessu mikla verkefni þarf að sjálfsögðu að gera áætlun um það, og það er það sem þessi þáltill., sem hér er til umr., fjallar um. Mér þykir rétt að það komi hér fram, að það er nú þegar unnið að þessari áætlunargerð sem hér er talað um. Og náttúrlega er eðlilegt að þetta verk sé hafið, svo aðkallandi sem framkvæmdir í þessu efni eru. Í Orkuráði hefur þetta mál verið til meðferðar í eitt og hálft ár. Og það hefur verið meira en til meðferðar í þeim skilningi að menn hafi þar verið einungis að ræða um mikilvægi þess að gera áætlun og það væri æskilegt að hefjast handa í því efni, heldur er það svo, að Orkuráð hefur falið verkfræðistofu að vínna að þessari áætlunargerð og það verk er hafið fyrir mörgum mánuðum. (Gripið fram í.)

Í síðustu viku var fundur í Orkuráði. Þangað kom verkfræðingur sá, sem er fyrir þeirri verkfræðistofu sem verkið annast, og skýrði hann hvernig málin stæðu í þessu verki, ásamt því að orkumálastjóri gerði grein fyrir málinu. Það er ánægjulegt að geta sagt það hér, að einmitt í kjördæmi hv. 1. flm. þessarar till. standa málin þannig, að það er langt komið, ef ekki má segja að mestu búið, a.m.k. langt komið að vinna þá áætlun sem þarf að gera í þessu efni, þ.e.a.s. á svæðinu frá Heillsheiði og austur undir Skeiðarársand — milli fjalls og fjöru. Síðan er gert ráð fyrir að tekinn verði hver landshlutinn af öðrum, og hefur verið talað um að það verði leitast við að hafa þann hraða á þessu verki að á næsta sumri eða fyrir næsta haust liggi fyrir heildaráætlun sú sem Orkuráð er að láta vinna að. En þá er næsta skrefið í sambandi við áætlunargerð, að Rafmagnsveitur ríkisins, sem gert er ráð fyrir að annist þessar framkvæmdir eins og annað er viðkemur sveitarafvæðingunni, þurfi að sjálfsögðu að gera sínar vinnuáætlanir varðandi þessar framkvæmdir.

Það liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður þessarar áætlunar, t.d. hvað mætti ætla að kostnaður yrði af þessari framkvæmd sem áætlunin fjallar um, að styrkja rafdreifikerfið í sveitunum. En það er ýmislegt sem bendir til þess, miðað við þær rannsóknir sem þegar hafa farið fram, að kostnaður á hvern bæ geti numið um 1100 þús. kr. Það mundi því láta nærri að áætla að kostnaðurinn fyrir allt landið gæti orðið 5–6 milljarðar kr. miðað við núverandi verðlag. En þessar tölur eru ekki til þess að byggja á, það eru, eins og ég sagði áðan, aðeins tölur sem hefur verið varpað fram og þykja líklegar miðað við hvað þessu áætlunarverki er komið í dag.

Ég held því að það ætti ekki að þurfa að örvænta um að þessi áætlun geti legið fyrir eitthvað svipað því og gert hefur verið ráð fyrir. Það kostar ekki mikið fé að gera þessa áætlun, og fé til þess hefur verið varið úr Orkusjóði. En þetta mál er mikið viðfangs, fyrst og fremst vegna þess að framkvæmd áætlunarinnar kostar mikið fé, og það er í raun og veru vandamálið sem við er að fást í dag hvernig verður fengið eða hvað mikið fjármagn fæst til þessa og með hvað miklum hraða er hægt að vinna verkið.

Nú vill svo til að samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að tekjur af olíugjaldi, sem komi til með að renna í Orkusjóð á næsta ári, geti numið um 1000 millj. kr. Samkv. lögum á að verja þessu fé til þess að flýta fyrir að innlendir orkugjafar geti verið notaðir til upphitunar húsa. Þess vegna er augljóst að hluti af þessum 1000 millj. eigi að fara til þessara verkefna, þar sem er styrking rafdreifikerfisins í sveitum og endurbygging. En það eru fleiri þarfir sem þessar 1000 millj. þurfa að ganga í. Og m.a. er það sem hefur verið litíð á hingað til að hafa ætti forgang í þessu efni, og það eru fjárveitingar til jarðhitaleitarlána. Það verður að veita verulegum hluta og stærstum hluta af þessum 1000 millj. til jarðhitaleitarlána. Það er líka spurning og eru uppi hugmyndir um að verja einhverju af þessum 1000 millj. kr. til lána til framkvæmda við hitaveitur.

Nú vill svo til að það er einmitt þessa dagana verið að ræða þessi mál í Orkuráði, hvaða till. á þeim vettvangi á að gera um ráðstöfun þessa fjár. Ég get ekki sagt nú á þessu stigi hverjar þessar till. verða, það er ekki búið að gera þær. Það verður fundur síðar í þessari viku. En þessi þrjú verkefni, sem ég nefndi, jarðhitaleit, endurbygging rafdreifikerfis sveitanna og bygging hitaveitna, eru þau verkefni sem kemur til álita og raunar það eina sem orð er á gerandi að komi til álita að veita þessu fjármagni til.

Ég hef viljað segja frá því hvernig þessi mál standa. Orkuráðið hefur ekki endanlega ákvörðunarvald um þessi efni, þó ég vænti þess að mikið tillit verði tekið og helst farið eftir till. þess í þessu máli. Ég vona að það verði góðar og skynsamlegar till. Þeim verður vísað til iðnrn. og þaðan fara þær boðleið til fjmrn. og þeirra aðila sem mest hafa að gera um meðferð fjárlagafrv. Ég vil taka það fram, að þó að núna verði að vænta þess að einhver fjárveiting og ég vil vona sem um munar fari til þess verkefnis sem hér er verið að ræða um, þá verði meira gert í því efni á næstu árum því að hér þarf að gera stórátak. Að mínu viti er styrking og endurbygging rafdreifikerfis í sveitum landsins eitt af stærstu verkefnum í raforkumálum landsins nú.

Um leið og ég taldi rétt að gefa þær upplýsingar sem fram hafa komið hér í ræðu minni, þá vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að mál þetta er hér komið til umr. Það getur ekki orðið til annars heldur en að undirstrika mikilvægi þessa máls og skilning manna á því að í næstu framtíð er nauðsynlegt að verja miklu fjármagni til þessara verkefna. Og það vona ég að menn hafi í huga, þó að till. þessi geri hins vegar ekki ráð fyrir nema að unnið sé að áætlunargerð sem þegar er verið að vinna að, eins og ég hef sagt.