09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir undirtektir hans við þessa till. og enn fremur fyrir þær upplýsingar sem hann gaf og láta í ljós ánægju yfir að vinna er hafin við undirbúning þess verkefnis sem þessi þáltill. fjallar um, en það, sem hún leggur áherslu á, er að það verði unnið að þessu verkefni á næstu 4–6 árum. Eins og segir í grg. hennar, þola úrbætur enga bið þar sem ástamlið er verst, og með þessari till. viljum við leggja áherslu á að framkvæmdir verði hafnar.

Mér er sérstök ánægja að heyra að það er búið að vinna að athugun á þessu máli á Suðurlandi frá Hellisheiði og austur að Skeiðarársandi, þar sem ég þekki vel að ástandið er víða algjörlega óviðunandi. Og það virðist vera að það sé einmitt heppilegur tími nú að hreyfa þessu máli. þar sem sem það kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf. að nú er verið að ræða um hvaða till. eigi að gera um fjárveitingar til þessa á næsta ári, þá virðist vera æskilegt að það komi fram umr. um hversu þörfin fyrir þetta er mikil svo þær fjárveitingar verði sem allra mestar. En ég held að það segi sig sjálft, að úr því að áætlun á að gera um uppbyggingu þessa kerfis á næstu 4–6 árum, þá verði að hefjast handa rösklega strax á næsta ári, eins og tekið er fram í grg.