10.11.1976
Efri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

66. mál, vegalög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Aðaltilefni þess, að ég kveð mér hljóðs nú við 1. umr. málsins, er að stjórn Samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi hefur samþykkt að fara þess á leit við þm. kjördæmisins að þeir flyttu frv. til breytinga á vegalögum, þannig að ákveðnir yrðu gjalddagar til sveitarfélaganna á þeirra hluta af þéttbýlisfé, en í dag eru engin ákvæði um gjalddaga. Farið er fram á að gjalddagar verði mánaðarlega. Ef það er talið illframkvæmanlegt, þá sjaldnar, en umfram allt, að inn í lögin komi einhver ákvæði um gjalddaga. Í gildandi lögum er ekki staf að finna um það efni, og það er náttúrlega algerlega ófært. Ég lít svo á að það hafi verið yfirsjón þegar þetta ákvæði var upphaflega inn í frv. tekið. Þéttbýlisvegafé gengur til gatnagerðarframkvæmda í viðkomandi sveitarfélagi, og vissulega þarf sveitarfélagið á sínu fjármagni að halda. Það er því alveg óviðunandi að því sé haldið inni, ef svo mætti segja, ekki einu sinni allt árið, heldur kannske langt fram á næsta ár, eins og reynsla er af.

Það er að færast miklu meira yfir í ákveðnari og greinarbetri samskipti ríkis og sveitarfélaga, og það þarf að ná til þessa þáttar einnig. Ríkið gerir með réttu kröfu til þess að þeir aðilar, sem innheimta tekjur þess, standi skil á þeim jafnóðum, eftir því sem greint er á um, og eins hlýtur það að vera með sveitarfélögin, að þau eiga þá að hafa þá réttmætu ósk að þeirra hlutur í tekjum Vegasjóðs verði þeim greiddur á ákveðnum og tilteknum gjalddögum.

Ég mun, herra forseti, koma þessu erindi áfram til hv. samgn. Þar sem við vissum að vegalögin voru að koma úr undirbúningsnefnd, þá var talin eðlilegasta leiðin að þetta erindi færi til n. sem um frv. fjallaði.

En fyrst ég, herra forseti, er kominn hér upp í ræðustólinn, þá vil ég aðeins til viðbótar þessu taka undir þau orð, sem hér hafa fallið um mikilvægi þessa málaflokks, og segja það, að vegamálin, samgöngumálin eru eitt af grundvallaratriðum í okkar landi. Það er erfitt samgöngulega séð, hlýtur ávallt að kosta mikið að gera þar viðunandi átak, en við verðum að stefna að því að gera samgöngukerfið sem best úr garði.

Það hefur verið víkið að hraðbrautunum bæði í ræðu og riti. Ég er ekki sérstaklega að minnast á það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það því að það var allt mjög hógvært. En stundum hefur verið, í fjölmiðlum sérstaklega, vikið að þeim — kannske ekki af verulegri þekkingu, vil ég segja. Ég skil vel að mönnum í þeim byggðarlögum, sem eiga við erfiðleika að etja í vegamálum, þyki miklu fé varið hér í nágrenni Reykjavíkur til þeirra samgöngubóta sem þar hafa verið gerðar. En það er ekki vist að þeir hinir sömu, sem svo hafa sagt, hafi gert sér grein fyrir hversu gífurlegt umferðarvandamál hefur verið við að etja í þessu efni, og til þess að upplýsa að nokkru, hvað hér hefur verið um að ræða, ætla ég að nefna hér tölur um umferð á tveimur stöðum á einum áratug. Það er meðaltalsumferð yfir Fossvogslæk árið 1965, meðaltalsumferð, og þá geta menn gert sér í hugarlund að topparnir, ef mætti nota það orð, risa hátt. Um Fossvogslæk fóru að meðaltali á sólarhring árið 1965 15500 bilar, en 1975, 10 árum síðar, 29000 bifreiðar. Það er eðlilega ekki til meðaltalið yfir 1976 því að það er ekki liðið. En talningar stefna á að það verði veruleg aukning á árinu 1976 frá 1975. Um Kópavogslækinn, þ.e.a.s. fyrir sunnan Kópavog, fóru 1965 8200 bílar að meðaltali á sólarhring, 10 árum seinna, 1975, 16970 bifreiðar, og þarna er einnig um það að ræða að í ár hefur orðið gífurleg umferðaraukning á þessu svæði frá því sem var í fyrra. (Gripið fram í.) Þetta kannske skýrir það fremur — eða ég ætlast til þess að sá umferðarþungi, sem hér er um að ræða, krefjist þess beinlínis að það séu gerðar viðeigandi ráðstafanir til þess að mæta þessu vandamáli. Það er svo vandamál út af fyrir sig í hugum kannske einhverra að það skuli vera svona margt fólk og ferðist svona mikið á þessu svæði, en það er önnur saga sem ég ætla ekki að ræða hér.

Varðandi sýsluvegina vil ég segja sem mína skoðun, að ég vil að þeir falli niður í þeirri mynd sem þeir hafa verið og eru. Ég er andvígur því að kaupstaðir fari að greiða til sýsluvegasjóða. Það er lagt til nú samkv. frv. að sumarbústaðaeigendur fari að greiða til Vegasjóðs samkv. því ákvæði sem þar er. Það er kannske eðlilegt að þeir geri það. Það er viðbótarskattur við fasteignaskatta sem sveitarfélögum er heimilt að leggja á sumarbústaði í viðkomandi sveitarfélagi, sem eru hærri prósenta heldur en lögð er á íbúðar- og gripahús í viðkomandi sveitum. En ég held líka að það sé mjög erfitt í framkvæmd að láta kaupstaðina fara að greiða inn í sýsluvegasjóðina, það sé miklu hreinlegra að afnema þessa skiptingu. Þetta eru allt saman vegir sem landsmenn þurfa allir að nota. Það er eðlilegt að það sé fjármagnað á einfaldan hátt og sameiginlega.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa, herra forseti. En ég mun koma þessu erindi, sem ég lýsti að var tilefni þess að ég stóð hér upp, til hv. samgn. og vonast til þess að það fái góðar undirtektir þar.