10.11.1976
Efri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

63. mál, grunnskólar

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Í þriðja sinn er nú frv. þetta flutt, og skal þess nú freistað að fá hér á vissa leiðréttingu, þó ekki yrði eins langt gengið og þetta frv. okkar Stefáns Jónssonar hv. þm. gerir ráð fyrir. En hér er um að ræða breyt. á lögunum um grunnskóla varðandi skólakostnað, að ríkissjóður greiði upphitun skólahúsnæðis á móti sveitarsjóðum í því hlutfalli sem nú skal greina: „Sveitarsjóðir greiða upphitun sem nemur meðalkostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem nýtur jarðhita. — Ríkissjóður greiðir eftir á samkv. endurskoðuðum reikningum og fskj. upphitun, sem er yfir því marki sem 4. málsgr. tiltekur, upp að meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem hitað er með olíu eða rafmagni.“

Þetta frv. var upphaflega flutt í hittiðfyrra af Sigurði Blöndal sem þá sat hér á þingi sem varamaður Lúðvíks Jósepssonar, og tvær höfuðá stæður í grg. hans gilda enn, eins og segir með leyfi forseta - í grg. Sigurðar: „1. Hin gífurlega hækkun á verði olíu leggst af miklum þunga á þau sveitarfélög sem hita skóla sína með olíu, alveg sér í lagi þá sem hafa heimavist, en það er einmitt í fámennum sveitahreppum. 2. Mismunurinn á kostnaði við hitun skólahúsnæðis annars vegar með jarðhita og hins vegar með olíu er svo mikill að við það skapast aðstöðumunur milli sveitarfélaga af slíkri stærð, að eðlilegt og sjálfsagt sýnist að ríkið jafni hann.“

Ég get að miklu vísað til fyrri framsögu um þetta mál í fyrra. En vegna grg., sem fylgir hér með og byggð er á tölum frá 1974, er rétt að taka fram að þau hlutföll, sem þar er komið inn á, hafa ekki breyst neitt teljandi eftir upplýsingum sem ég hef aflað mér. Í grg. eru tekin sláandi dæmi um þennan mismun, hversu gífurlegur hann er, þó um einstök óvenjuleg dæmi sé að ræða, eða eins og segir í grg., með leyfi forseta: „Sem dæmi um mismun á hitunarkostnaði með olíu eða jarðhita má nefna, að í nokkrum þeirra skóla, sem hitaðir eru með jarðhita, er kostnaður 0, m.a. sumum stórum heimavistarskólum í sveit. Þegar hiti var virkjaður á þessum stöðum ýmsum var kostnaður við jarðborun felldur undir stofnkostnað. svo sem eðlilegt var, og var þá greiddur af ríkissjóði að 3/4 hlutum. Hins vegar er hitunarkostnaður við heimavistarskólann, þegar olíu er brennt, gífurlega hár. Flm.“ — sem er Sigurður Blöndal — „þekkir t.d. af eigin raun dæmi um slíkan skóla, sem er um 6000 rúmmetrar að rúmtaki, sem brennir olíu fyrir um 600 hús. kr.“ — þetta var á árinu 1975, grunnverð miðað við það — „og í yfirliti menntmrn. er einn heimavistarskóli í sveit þar sem hitunarkostnaður 1914 varð 1.4 millj. kr. Skóli á jarðhitasvæði af svipaðri stærð hafði í hitunarkostnað.“

Þetta er auðvitað dæmi sem eru allra lengst og yst á mörkunum sitt hvorum megin og á auðvitað ekki að leggja til grundvallar, en þau eru sláandi engu að siður. En ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp samþykkt Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem segir í raun allt það sem hér þarf að segja um þetta frv. okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar:

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, haldinn á Höfn í Hornafirði 1976, samþ. að fela stjórn sambandsins að vinna að því að ákvæðum grunnskólalaganna um upphitun skólahúsnæðis verði breytt þannig, að sveitarsjóðir greiði ekki nema sem nemur meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem nýtur jarðhita. Upphitun, sem er yfir því marki, greiði ríkissjóður upp að meðaltanskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem hitað er upp með olíu eða rafmagni.“ — Þetta er reyndar að segja má tekið beint upp úr frvgr. — „Óþarft er að fjölyrða um það hér, hvers konar aðstöðumun sveitarfélög búa við að þessu leyti. Verst er þó að hitunarkostnaður skólahúsnæðis kemur hvað þyngst og óréttlátast niður á litlum sveitarfélögum sem búa einnig að öllu öðru leyti við erfiðastar aðstæður til að sjá börnum og unglingum fyrir nauðsynlegri og eðlilegri menntun og menntunaraðstöðu (heimavistarbarnaskólar). Það er því mikið réttlætismál, ekki síst eftir það slys að skylda þessi sömu sveitarfélög til að bera kostnað af viðhaldi ríkiseigna án þess að sjá þeim fyrir nægum tekjustofni á móti, að ríkisvaldið komi hér til aðstoðar með einu eða öðru móti. Bent hefur verið á að treysti menntmrn. sér ekki til að gera þá lagabreyt. sem hér er farið fram á, mætti e.t.v. til bráðabirgða láta þá skóla, sem hér um ræðir, njóta niðurgreiðslna á olíu úr sama sjóði og eftir sömu reglum og aðra sem nota olíu til húshitunar. Einnig hefur verið bent á að hugsanlegt væri að ákveða í gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins sérstakan taxta á rafmagni til upphitunar á skólahúsnæði og þá í samræmi við gjaldtöku hitaveitu. Á þetta er bent hér í því trausti að menntmrn. beiti sér fyrir einhverri sanngjarnri lausn á þessu máli.“

Eflaust er verið að vinna að þessu máli í því háa rn., og ég veit reyndar að þetta mál hefur verið nokkuð kannað þar, en um árangur af því er mér ekki kunnugt.

Í þessari ályktun frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi er víkið að Olíusjóðnum sem ætlað er að skila 1600 millj. á næsta ári, þar af aðeins 600 millj. til þeirra sem samkv. upphaflegum lögum áttu einir að njóta, þ.e. íbúðarhúsaeigenda sem þurfa að kynda hús sín með olíu. Ráðstöfun þessa fjár hefur verið umdeild hér á þingi undanfarin ár, en sífellt verið gengið lengra að verja úr þessum sjóði almennt til óskilgreindra orkurannsókna eða orkuframkvæmda. Ég hef verið manna harðastur á þeirri meginreglu að sjóðurinn ætti að þjóna sínum upphaflega tilgangi. Með því var skattheimtan upphaflega réttlætt. En nú eru hlutföllín sem sagt orðin 6 á móti 10, eins og ég sagði, 6 til handa þeim sem skatturinn var lagður á fyrir, en 10 í annað. Við skulum segja að hlutföllin 10 á móti 6 komi þessu fólki til góða einhvern tíma í framtíðinni, og ég skal játa að ég get fallist hér á einhverja málamiðlun, þó hér sú svo úr hófi aflagað frá því sem upphaflega var ákveðið að engan veginn verður við unað. En einmitt í ljósi þessa væri verkefni eins og þetta í fremstu röð .og tvímælalaust á undan ýmsu því sem Olíusjóðurinn hefur verið notaður til og í raun enginn mér vitanlega hefur fengið fullkomnar upplýsingar um og allra síst fyrir fram, þó mér skiljist að nú eigi að verða á þessu breyting og þessum milljarði eigi nú að verja í skilgreind verkefni samkv. ákvörðun fjvn. og Alþingis.

Ég treysti því að hv. menntmn. kanni hér sem best allar færar leiðir því vandi margra skóla og sveitarfélaga er mikill og jöfnunar er tvímælalaust þörf. Aðeins vil ég benda á það til viðhólar, að þegar skólakostnaðarskiptingin var gerð á sínum tíma og ákveðin verkefni færð alfarið á ríkið, önnur á sveitarfélögin og enn öðrum var skipt þar á milli, þá ríktu ekki þessar óeðlilegu aðstæður sem við búum nú við í þessum gífurlega mismun á kyndingarkostnaði. Þá var þessi munur að vísu til, en hann var hverfandi. Því þarf í raun og veru og ber í raun og veru að endurskoða þessi tilteknu ákvæði um kyndingarkostnaðinn. Um leið að því marki má deila og eins um það hvað á að ganga langt. En það má segja að þetta atriði hefði e.t.v. átt að koma til skoðunar á þinginu í fyrra þegar bandormurinn svokallaði var á ferðinni rétt fyrir jólahlé. En við því var aldrei að búast, þegar svo hraðsoðnum óskapnaði var dembt hér inn og afgr. á mettíma, að þar kynnu að felast neinar gagnlegar leiðréttingar og allra síst leiðréttingar á misrétti svipuðu því sem hér um ræðir.

Ég treysti því sem sagt, að hér verði unnt að finna einhverja jöfnunarleið. Ég verð raunar að vona það og treysta því að rn. menntamála hafi þetta þegar á borði sínu sem brýnt viðfangsefni. En meðan ekkert heyrist þaðan, þá hljótum við hv. 5. þm. Norðurl. e. að freista þess einu sinni enn að fá Alþ. til þess að líta á þetta mál.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska þess að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.