10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

50. mál, orkulög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Sú ræða, sem sá ágæti sómamaður, hv. 1. þm. Suðurl., var að ljúka við rétt áðan og hann flutti af alkunnri diplómatískri snilld og fágun, gefur raunar, ef hún er athuguð, innsýn inn í það sem hér er deilt um. Fyrri partur ræðunnar var fyrirlestur um hvernig klókir valdamenn fara að því að tefja fyrir frv. sem þeim líkar ekki við. Það er ekki ný aðferð að láta það berast til n. að það sé verið að vinna í rn. að nýju frv. um sama eða svipað efni. Það er sjálfsagt ekki hægt að mótmæla því ef ráðh. er að því. En það er engu að síður augljóst af öllu til hvers leikurinn var gerður, enda komu fram önnur frv. frá þessu sama rn. um virkjanir sem þurfti að lofa heilum landshlutum, en ekki er vitað til að verði hægt að framkvæma fyrr en kannske eftir áratugi. Það stóð ekkert á vinnubrögðum þá, hvorki af hendi formanns n. né annarra. En það eru kannske einhverjar ástæður fyrir því hvaða frv. eru samin og afgreidd fljótt frá iðnrn. og aðstoðarmönnum þess eða hæstv. iðnrh. og flutt hér á þingi og hver eru látin sitja á hakanum.

Seinni hluti ræðu hv. þm. leiddi algjörlega í ljós að hann er hreinlega á móti kjarna málsins, að því að hann talar, jafnvitur og hann er, alveg út í hött. Hann er að tala um hvort ríkið eða þjóðin geti fengið not af auðlindunum, eins og það sé aðalatriðið, eins og það séu einhverjar fréttir fyrir alþm. að það sé hægt að gera eignir upptækar ef þjóðarhagur krefst þess. Frv. snýst alls ekki um það. Frv. snýst um hvort þeir, sem telja síg eftir gildandi lögum eiga jarðhita djúpt í jörðu, eigi raunverulega rétt á því að gera kröfur til þjóðarinnar um stórupphæðir í greiðslu fyrir not af þessum jarðhita. Það þýðir ekkert að fara í kringum það með því að segja að það sé hægt að beita lögum um eignarnám. Eftir sem áður á að meta eignirnar eftir sömu reglum og gilt hafa og láta almenning greiða stórfé fyrir þetta.

Hv. þm. talaði sakleysislega um að það væri enginn skaði skeður þótt afgreiðsla málsins drægist frá ári til árs. Hvað ætli fólkið á Suðurnesjunum segi um það, sem þarf að borga þeim grósserum, sem áttu þetta úfna og gagnslausa hraun áður en hitinn fannst undir því, tugi milljóna til þess að það fái að hita hús sín með þessu vatni? Ætli það geti ekki verið fleiri dæmi? Það náðist samkomulag Suðurnesjum, en það náðist ekki samkomulag uppi í Borgarfirði og þess vegna þurfti að fara að hefja nýjar boranir sem hafa kostað stórfé og ekki borið árangur enn þá. Einn kaupstaður, stórt kauptún og þéttbýlar sveitir bíða þar eftir vatni til upphitunar. Þar mun það hafa verið fyrst sem lögfræðingur hér að sunnan kenndi heimamönnum eða flutti fyrir þeirra hönd þá kenningu að orka væri orka og það væri sama hvort hún kæmi í formi heits vatns úr iðrum jarðar eða olíu austan úr löndum. Eftir það hefur sú hugmynd gengið hér, almenningi til undrunar, að menn leyfa sér að halda því fram

að hægt sé að krefjast olíuverðs fyrir jarðhitanot.

Það er sönnu nær að notkun jarðhitans flýgur fram nú einmitt þessi árin. Það er verið að byggja milljarða orkuver og það er langt komið undirbúningi undir milljarða verksmiðjur, eins og hér hefur verið nefnt, þannig að það er vissulega aðkallandi að gera þetta dæmi upp. Málið snýst um það, hvort þjóðin á jarðhitann í iðrum landsins eða hvort einstakir menn eiga hann.

Nú má deila um margt í sambandi við eignarréttinn. Stjórnarskrárákvæði, sem við höfum, eru, eins og fróðir menn hafa rakið og sagt okkur hinum, 150–200 ára gömul eða svo, og það hefur margt breyst á þeim tíma. Viðhorfin til auðæfa jarðarinnar eru þau, að mörg þeirra geta með engu móti fallið undir þessar gömlu aðalshugmyndir um hvað eignaréttur sé, og þ. á m. er alveg tvímælalaust í huga íslensku þjóðarinnar vatn úr iðrum jarðarinnar, heitt vatn.

Með þessu frv. er þó ekki verið að lýsa yfir að allur jarðhiti sé þjóðareign. Það er eingöngu takmarkað við það sem kallað er djúphiti eða háhitasvæði og skilgreint hvað það er. Það er mjög mikill hiti, 200°C, og hann verður að finnast fyrir ofan 1000 m, þannig að allur minni jarðhiti, sem þó gæti dugað til að hita ærið mörg hús og gróðurhús, mundi verða áfram í eigu viðkomandi jarðeiganda. Þetta frv. þarf því ekki að trufla á neinn hátt slík minni not til upphitunar einstakra húsa eða hita til garðyrkjubænda. Það nær eingöngu til þess þegar um meiri jarðhita er að ræða sem kann að verða notaður til þess að hita upp fjölmenn svæði eða í iðnaðar- eða orkuskyni.

Nú getum við í sjálfu sér sleppt almennum deilum um eignarréttinn, en athugað aðeins þá löngu forsögu sem þetta mál hefur átt. Fyrrv. orkumálaráðh. Sjálfstfl., núv. form. iðnn., og væntanlega líka núv. iðnrh. virðast vera þeirrar skoðunar að einstaklingarnir eigi djúphitann og ef þurfi að taka hann af þeim, þá verði að meta verðmætið og borga þeim. Hins vegar liggja fyrir grg. eftir þjóðkunna lögfræðinga, eins og Ólaf Jóhannesson, hæstv. dómsmrh., sem fyrir mörgum árum lagði mikla alúð við að kynna sér þetta mál og komst að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að setja eignarrétti landeigandans almenn takmörk — án þess að brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þegar um djúphita er að ræða. Bjarni heitinn Benediktsson mun hafa komist að svipaðri niðurstöðu. Frá þessu er öllu ítarlega skýrt í grg. og hefur verið rakið áður. Það er gaman að sjá þessa lögvitrustu menn hægri flokkanna á síðustu áratugum hafa sömu skoðun og við höfum haldið fram sem stöndum að þessu frv., en á móti stendur íhald samtíðarinnar.

Ég veit ekki hvort þetta er eins konar misræmi milli buddunnar og samviskunnar, að þegar menn gefa út fræðilegar skoðanir og leggja við nafn sítt og fræðimennsku, þá komast þeir að þeirri niðurstöðu að íslenska þjóðin geti tekið djúphita úr jörðu án þess að það sé brot á stjórnarskrá, enda getur enginn venjulegur einstaklingur hagnýtt sér þau auðæfi á eigin spýtur. Það er alltaf ríkisvaldið sem leitar að hitanum, finnur hann, stendur fyrir borunum.

En það eru einstaklingarnir sem vilja fá að fleyta rjómann ofan af þessu og láta almenning borga.

Hins vegar, þrátt fyrir þessar fræðimannlegu skoðanir, kemur alltaf á daginn þegar á á að herða, að það er eitthvert dularfullt frv. rétt ókomið eða einhverjar aðrar ástæður eða það er verið að bíða eftir álitsgerð frá samtökum landeigenda sem auðvitað er vitað fyrir fram hvernig verður. Það er alltaf einhverju borið við. Niðurstaðan hefur orðið sú, að málíð nær ekki fram að ganga og það fær ekki einu sinni að komast á það stig að alþm. geti látíð í ljós álít sitt á því. Ég held því að við ættum að breyta til og það sé krafa þjóðarinnar — ég leyfi mér að fullyrða það sem mitt mat á þessu máli — að Alþingi íslendinga taki afstöðu til þessa máls. Það er þá eins gott, ef á að borga fyrir hvern lítra af heitu vatni í hitaveitum framvegis sem taka þarf úr löndum í einstaklingseign, að þau bæjarfélög, sem eiga eftir að koma upp hitaveitum, viti það. Það gæti farið svo að fjölmennar byggðir á landinu fengju ekki hitaveitu fyrst um sinn eða a.m.k. að hagurinn af nýjum hitaveitum verði orðinn alllítill þegar búið er að borga milljónabagga til þeirra sem eiga yfirborð landsins á þessum stöðum, en halda að þeir eigi jarðhitann líka.