10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

50. mál, orkulög

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir hv. 3. þm. Reykv. velja sér einkennilegan tíma til þess að telja upp alls konar ávirðingar í garð hæstv. iðnrh., þegar hann er ekki við.

Það getur vel verið að það sé við hæfi að ræða hér samtímis um Kröflu og gosefnanefnd, en þó sýnist mér að þau mál komi ekkert við þessu máli, sem við erum að ræða hér í dag.

Mér þykir líka vera einkennilegt það kapp sem hv. flm. þessa frv. leggja á að koma því í gegnum þingið. Mér er ekki alveg ljóst hvers vegna þeir leggja þetta ógnarkapp á að fá fram þessa breyt. á orkulögum. Mér var alveg ljóst, þegar hv. 3. þm. Reykv. gegndi embætti orkumálaráðh., hvers vegna hann lagði ofurkapp á að fá þessa breyt. á orkulögunum. Þá var þessu frv. stefnt gegn eigendum Svartsengis. Og enn eru þeir aðaluppistaðan í málflutningi hans, eftir að búið er að semja um hitaréttindin í Svartsengi.

Hverjir eru það, hvaða einstaklingar eru það í þessu landi sem eiga háhitaréttindi? Hvað ætli þeir séu margir? Það er allt í einu farið að tala um einn mann núna. Það var áður talað um eigendur Svartsengis. Nú er farið að tala um þm. sem á sæti á Alþ. Hann er að vísu ekki nefndur á nafn, hann er ekki hér í salnum, á reyndar ekki sæti í deildinni. Við vitum vel við hvern hv. þm. á. Er þessu frv. stefnt gegn honum og sameigendum hans? Eða hverjir eru aðrir í þessu landi sem eiga háhitaréttindi? Mér þætti fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Enn er verið að tala um eigendur Svartsengis, að þeir hafi litíð á sig sem olíufursta, eins og það er orðað, og hafi ætlað sér að græða á eign sinni. Og um það, að þessir eigendur vildu fá greiðslu fyrir að láta eign sína af hendi, er sagt að það brjóti í bága við siðgæðishugmyndir manna. Hvers konar talsmáti er þetta eiginlega?

Ég sagði áðan að það væri búið að semja um jarðhitaréttindin í Svartsengi. Það var samið um greiðslur upp á 87 millj. kr. Hvað var það sem var keypt fyrir þessar 87 millj.? Það voru jarðhitaréttindin og 100 hektarar lands. Ef við lítum á hvað landið með sínum gögnum og gæðum mundi þá kosta, hver fermetri, þá eru það 87 kr. Mér þætti, gaman að vita hver gæti fengið land á þessu svæði fyrir 87 kr. fermetrann, ég tala nú ekki um ef því fylgdu ótakmörkuð jarðhitaréttindi. Svo er verið að tala um að hér sé um einhvern ógnargróða að ræða til handa eiganda þessa lands. Þetta er bara þvættingur og ekkert annað. Er hv. 3. þm. Reykv. kunnugt um það, að landeigendur buðu, meðan hann var orkumálaráðh., þessi gæði fyrir 50 millj. kr.? Getur hv. 3. þm. Reykv. upplýst hver kom í veg fyrir að þá væri samið um 50 millj.? Það væri fróðlegt ef hann vildi upplýsa það hér á eftir.

Mér sýnist að sá málflutningur, sem hér er hafður í frammi af flm. þessa frv., bendi einfaldlega til virðingaleysis þeirra fyrir eignarréttinum. Það er talað hér um háhitaréttindi. En hvar ætla þessir heiðursmenn að draga mörkin? Hvar verður borið niður næst? Mér er spurn: Hvar verður borið niður næst? (Gripið fram í.) Já, þau eru skilgreind í þessu frv. En ég spyr: Má ekki vænta einhvers annars frv.? Hvað með t.d. malarnámur? Hvenær dettur hv. 3. þm. Reykv. í hug að koma með frv. þess efnis að þeir, sem eigi malarnámur, skuli láta af hendi þá eign sína án þess að nokkrar bætur komi til? Ég sé ekki stóran mun á þessu.

Svo spyr hv. þm. Benedikt Gröndal: Hvað ætli fólkið á Suðurnesjum segi, sem þarf að borga þessum grósserum tugi millj. kr.? Ég get sagt hv. þm. hvað fólkið á Suðurnesjum segir. Það er ánægt með niðurstöðu þá sem fékkst við kaupin á jarðhitaréttindunum. En mig langar til að spyrja líka þessa hv. þm.: Var reiknað með því, þegar ríkið hefði hirt þessi eignarréttindi, að það síðan framseldi þau til sveitarfélaganna án þess að nokkurt verð kæmi fyrir? Ætlaði ríkið að gefa sveitarfélögum þessi réttindi? Það væri þá í fyrsta skipti, að því er mér er kunnugt, sem ríkið gæfi sveitarfélögunum eitthvað — ég tala nú ekki um slík verðmæti sem þarna var um að ræða.

Ég vil benda á það, að mesta hagsmunamál sveitarfélaganna á Suðurnesjum var að semja beint við eigendur jarðhitaréttindanna í Svartsengi. Það var þeirra mesta hagsmunamál til þess að eiga ekkert undir ríkið að sækja á eftir. Það er meginmálið. Það er komið í ljós núna og á eftir að koma enn betur í ljós að þarna var skynsamlega haldið á málum með því að semja beint við landeigendur. En ég skal benda á það, að til eru samningar um hitaréttindi þar sem greiðslur fyrir heita vatnið eru bundnar olíuverði. En það er að vísu norður í Þingeyjarsýslu og landeigendur þar njóta sem kunnugt er alveg sérstakrar verndar þeirra alþb.-manna. Þess vegna er þar allt annað uppi á teningnum. Þar er allt í lagi að borga landeigendum milljónir króna á ári fyrir heita vatnið — ég tala nú ekki um að koma í veg fyrir hinar hagkvæmustu virkjanir sem hægt er að fá í landinu. (Gripið fram í: Þetta er frv. um heildarlöggjöf fyrir allt landið.)

Svo er sagt hér að einstaklingar vilji fá að fleyta rjómann, — ríkið annist jarðhitaleitina og kosti þá leit, en síðan eigi einstaklingarnir að fá að nýta þessi réttindi án þess að nokkuð sé greitt fyrir. Þetta er ekki rétt, þetta er alls ekki rétt. Ef land, þar sem fundist hefur heitt vatn og lagt hefur verið í kostnað við rannsóknir, eins og t.d. í Svartsengi, er síðan keypt, í þessu tilfelli metíð, þá er auðvitað tekið tillit til þess sem búið er að gera og það hefur líka verið greitt. Hér er því verið að villa um fyrir mönnum þegar öðru er haldið fram.

Svo kom þetta hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að sveitarfélögin þurfi að fá að vita fyrir fram hvort þau þurfi að borga hvern lítra. Það er einmitt það sem þau þurfa að fá að vita. Það væri mjög gagnlegt ef þau fengju að vita það hjá ríkisvaldinu, þar sem það á réttindin, hvað þau þyrftu að borga fyrir hvern lítra. Það mætti segja mér að það kæmi út úr því dæmi að það væri heppilegra fyrir þau ef þau fengju í friði að semja beint við eigendur hitaréttindanna. En ef þetta frv. verður að lögum, þá er einmitt verið að koma í veg fyrir að sveitarfélögin geti samið við einstaklinga sem hitaréttindi eiga. Það er verið að koma í veg fyrir það og það tel ég illa farið. Reynslan sýnir okkur að það er það hagkvæmasta sem sveitarfélögin geta gert, að kaupa þessi réttindi beint og eiga þau sjálf og þurfa ekkert að vera upp á einn eða neinn komin og síst af öllu ríkisvaldið.