10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

50. mál, orkulög

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður dró í ræðu sinni enga dul á hvaða meginskoðanir hann hefur á málunum. Eignamennirnir eru hinir góðu, við þá þurfa sveitarfélögin að geta samið. Ríkið, öll þjóðin sameiginlega, það er hin voðalega ófreskja sem á að forðast að þurfa að skipta nokkuð við. Þetta er kapítalískur hugsunarháttur á forneskjulegan hátt og á hæsta stigi. Hv. þm. hefur að sjálfsögðu ekki aðeins fullan rétt til þess að hafa slíkar skoðanir, heldur er mjög virðingarvert að hann skuli láta þær í ljós hiklaust, því þeir eru fleiri sem trúa slíku í hjarta sínu, en vilja helst ekki hafa hátt um það.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að.þar sem ríkisvaldið á jarðhita sem nýta þarf til upphitunar í þágu sveitarfélaganna og þá á þeirra vegum, þá tel ég að ekki komi til mála að ríkið fari að taka stórfé fyrir það. Það er alls ekki hugmyndin með þessu að skipta á einum okraranum í stað annars, þannig að það þurfi að semja við ríkið og borga því neina sambærilega fúlgu.

Annars var það einkenni á ræðu hv. þm. að hann gat ekki séð þetta öðruvísi en í persónulegu ljósi: Hvaða menn eru það sem frv. er beint gegn? — Ég vil algjörlega mótmæla slíkum hugsunarhætti eða slíku tali. Þessu frv. er ekki beint gegn ákveðnum mönnum. Eða var hugmyndinni um þjóðareign á djúphita beint gegn Svartsengismönnum þegar Ólafur Jóhannesson gaf út álitsgerð sína eða þegar Bjarni Benediktsson flutti frv.? Ég held að þeir hafi aldrei heyrt Svartsengi nefnt í þessu sambandi. Hér er um meginstefnumál að ræða sem við ættum að geta rætt á almennum grundveili án þess að vera að blanda inn í það einstökum mönnum. Það er e.t.v. eðlilegt að nýlegir samningar séu nefndir, og við nefndum þá nýjustu. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir að minna okkur á samningana sem húsvíkingar gerðu við sveitunga sína og hafa oft verið nefndir og gagnrýndir opinberlega áður. En það brá svo við að þar var hann ekkert hrifinn af landeigendum, svo að hans afstaða sveiflast fram og aftur. Ég tel að þeir samningar séu e.t.v. gleggsta dæmið, sem enn er til, um hversu hættuleg braut það er ef sveitarfélögin verða að semja við harðskeytta landeigendur. Og það er ekki séð fyrir endann á því hvað tengslin við olíuverðið eiga eftir að kosta húsvíkinga í framtíðinni.

Ég vil ítreka það, að hér er um grundvallaratriði að ræða, og enda á því að geta þess, að snemma á þessu ári var haldin fjölmenn ráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem gekk undir nafninu Habitat og fór fram í Vancouver í Kanada og fjallaði um umhverfi mannsins. Þessi ráðstefna gaf út álit í mörgum köflum og einn kaflinn er um landið. Um þetta álit voru fulltrúar frá að ég hygg 135 þjóðum sammála, og niðurstaðan, kjarninn þar er sá, að landið sé svo sérstætt að um það geti ekki gilt hinar venjulegu hefðbundnu hugmyndir manna um eignarrétt, annað verði að koma til þegar hagsmunir þjóðanna, þegar hagsmunir fjöldans krefjast þess. Það eru því ekki einstaka menn eða flokkar hér uppi á Íslandi sem berjast fyrir því að hugsunarháttur manna gagnvart slíkum auðlindum sem hér um ræðir breytist, heldur hefur þetta verið einróma álit rúmlega 135 þjóða

á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ég á einhvers staðar í fórum mínum textann ef hv. þm. óskar eftir að fá að sjá hann.