11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

47. mál, vinnsla verðmæta úr sláturúrgangi

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur öðrum þm. að flytja till. til þál. á þskj. 48 um rannsókn á hvernig best megi vinna verðmæti úr sláturúrgangi. Till. er þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á því hvernig hagkvæmast sé að vinna verðmæti úr sláturúrgangi.“

Íslendingar eru enn skammt á veg komnir með að nýta verðmæti sem unnt er að vinna úr sláturúrgangi. Sé borið saman við það sem gerist víða erlendis kemur í ljós, að við eigum mikið ógert í þessum efnum. Hér er miklum verðmætum kastað með því að nýta ekki sláturúrgang betur en nú er gert.

Mikil verðmæti eru í blóði og innmat sláturgripa sem ekki er að fullu nýttur. víða erlendis eru bein sláturdýra möluð og mjölið notað í bætiefnaríkt fóður. Úr hornum, klaufum og hófum eru gerðir ýmsir verðmætir hlutir sem eru í háu verði á stórum mörkuðum víða um lönd.

Ekki skal fullyrt að þessu sinni hversu miklu fjármagni er á glæ kastað miðað við heildarverðmæti hvers sláturgrips þegar meðferð á sláturúrgangi er eins og hér gerist. En menn, sem hafa kynnt sér þessi mál erlendis, telja að sláturúrgangur ásamt beinum sé verulegur hluti af heildarverðmæti sláturdýra, ef unnið er úr öllum sláturúrgangi sem nýtilegur er.

Í flestum iðnvæddum löndum hafa orðið miklar framfarir nú síðustu ár í nýtingu hvers konar efna, bæði lífrænna og ólífrænna. Þykir nú sjálfsagt, þar sem þekking og hagsýni er ráðandi, að nýta sláturúrgang og önnur vinnsluhæf efni sem gera má verðmæti úr með nýjustu vinnslutækni. Dr. Karl Kortsson dýralæknir skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið 18. sept. s.l. um nýtingu sláturúrgangs og dýraskrokka sem standast ekki gæðakröfur til manneldis. Dr. Karl Kortsson, segir m.a.:

„Snemma á öldum gerðu menn sér ljósa þá hættu sem stafaði af dauðum dýrum. T.d. setti Karl mikli keisari I. upp sérstaka sorphreinsunarstaði. Hinar vísindalegu niðurstöður gerlafræðirannsókna í lok 19. aldar færðu mönnum heim sanninn um að greftrun dýraskrokks nægði ekki í baráttunni gegn útbreiðslu dýradrepsótta. Þá voru í öllum menningarlöndum settar reglur um sorphreinsun undir eftirliti ríkisins. Þegar miltisbrands og annarra smitandi sauðfjársjúkdóma varð vart á Íslandi var það oft vegna þess að skrokkar hinna sýktu dýra voru ekki brenndir, heldur voru þeir grafnir. Með auknum fólksfjölda svo og vegna sjálfstæðishreyfinga og bættrar tækni urðu hlutverk löggjafans fjölþættari. Þannig voru sett lög í Vestur-Þýskalandi 2. sept. 1975 um eyðingu dýraskrokka, skrokkhluta og afurða af dýrum, en þau stuðla mjög að því að auka framleiðni dýrabúskapar og efla umhverfisvernd.“ Dr. Karl Kortsson segir enn fremur:

„Í skýrslum mínum til yfirvaldanna hef ég oft vakið athygli á nauðsyn vísindalegrar umbreytingar sláturúrgangs í dýrafóður til þess annars vegar að hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma, garnaveiki o.s.frv. og hins vegar til verndunar umhverfisins, m.a. með því að hamla gegn fóðrun rotta, máva, hrafna og fleiri dýra o.s.frv. Á Íslandi vantar viðhlítandi lög um skyldur til eyðingar dýraskrokka og úrgangsefna dýra, tilkynningarskyldu, afbendingarskyldu án endurgjalds, öruggan flutning með fjárhagslegum tilstyrk ríkisins, tilhögun úrvinnslu og eftirlít í héraði.

Nytsemi úrvinnslustöðvar eins og hér er um að ræða fer eftir staðsetningu verksmiðjunnar. Sá úrgangur, sem til félli, er kominn undir fjölda fjár á svæðinu og annarra sláturgripa og því, hversu oft sláturúrgangur mundi berast og dýraskrokkar, svo og vegalengdum við flutninga. Verksmiðjan yrði að vera lágmarksstærðar til þess að standa undir fjármagns- og rekstrarkostnaði. Vegna hins mikla flutningskostnaðar og af heilbrigðisástæðum eru vegalengdir takmörkunum háðar.“

Karl Kortsson segir enn fremur: „Verksmiðjan yrði að vera miðsvæðis miðað við þá aðila sem skiluðu úrganginum. Úrvinnslustöðin yrði að vera vel einangruð hið ytra sem að innri byggingu til að forðast að verða umhverfinu til byrði vegna sýkingarhættu og óþefs. Að mínu áliti væri það einnig hagkvæmt að verksmiðjan væri höfð nálægt hitaveitu og grasmjölsverksmiðju, en það getur verið erfitt að sameina það. Fóðurkögglar, sem gerðir hafa verið að kjötmjöli og grasmjöli, hafa reynst mjög vel sem dýrafóður. Til að skapa aukið geymsluþol verður kjötmjölið að vera með öllu laust við fituleifar.

Úrvinnslustöðin ætti að lúta stjórn dýralæknis. Stofna mætti hlutafélag með forgangsrétti sláturhúshafa.

Fjöldamargar aðferðir eru til við úrvinnslu sem þessa og eru þær nú á dögum allar fullkomlega sjálfvirkar. Sjálfur þekki ég Alfa Laval-miðsóknaraðferðina sem með sjálfvirku og lokuðu kerfi vinnur kjöt- og beinamjöl, fitu til iðnaðar og fleira úr úrgangi sláturhúsa með gerilseyðingu. Þessi úrvinnsla fer fram í þremur meginstigum: 1) hitun og gerilsneyðingu, 2) aðgreiningu og 3) þurrkun. Með viðbótartækjum er hægt að aðgreina beinamjöl. slógmjöl o.fl. til framleiðslu á verðmætum blómaáburði með meiru. Endurnýtingarhlutfallið er 73% af hráefninu. Þau 27%, sem enn verða úrgangur, geta orðið umhverfinu til óþæginda.“

Ég hef lesið hér nokkuð úr athyglisverðri grein dr. Karls Kortssonar um það efni sem hér er um að ræða. Gefur það nokkra vísbendingu um að við íslendingar megum ekki draga öllu lengur að vinna úr sláturúrgangi og eyða skrokkum og dýraleifum sem ekki eru nothæfir til undaneldis. Í Borgarnesi hefur nýlega verið komið upp úrvinnslustöð sem nýtir sláturúrgang að verulegu leyti. Enn mun ekki vera unnið þar sérstaklega úr hornum, klaufum og hófum. Erlendis eru unnir ýmsir dýrir munir úr hornum, og úr klaufum og hófum er einnig unnin dýr olía sem notuð er til smurnings á flókna og viðkvæma vélahluta. En verksmiðjan í Borgarnesi er stórt spor í rétta átt að því marki sem að er stefnt, þótt því hafi enn ekki verið að fullu náð.

Sláturfélag Suðurlands hefur látíð fara fram athugun á því, hvort hagkvæmt sé að byggja verksmiðju sem vinnur úr sláturúrgangi. Verksmiðja sú mun vera svipuð þeirri sem starfrækt er í Borgarnesi. Hráefni er mikið sem til fellur hjá sláturfélaginu, auk þess sem við bætíst úr öðrum sláturhúsum á Suðurlandi. Það, sem kæmi til vinnslu, eru 3.8 kg af hverri kind, 114 kg af nautgrip eða 40% af heildarþunga og 8 kg af svínum. Þetta sýnir að mikið efni fellur til árlega í einstökum landshlutum og í heild yfir landið. Við úrbeiningu fellur mikið til af beinum sem malað er í bætiefnaríkt mjöl sem selt er á hærra verði en kjötmjöl úr venjulegum sláturúrgangi. Auk áðurnefnds hráefnis má nýta annað, t.d. seli og sjálfdauð húsdýr. Verksmiðjuna mætti einnig nota til þess að bræða til sölu mör og afgangsfitu sem erfitt er að koma í verð án sérstakrar meðferðar.

Sláturfélag Suðurlands hefur látið gera grófa áætlun um stofnkostnað kjötmjölsverksmiðju. Er stofnkostnaður áætlaður 56 millj. kr. Ekki hefur enn verið athugað um hagkvæmni mismunandi gerða af verksmiðjum. Er mikill munur á því að framleiða í verksmiðjunni aðeins kjötmjöl eða nýta öll þau efni af sláturgripum, sem nothæf eru, í verðmikla framleiðslu, eins og nú er gert þar sem tæknin er mest og þekking fullkomnust. Stjórnendur Sláturfélags Suðurlands hafa sýnt áhuga á þessu mikilsverða máli þótt þeir hafi ekki enn komið því í framkvæmd Er hyggilegt að athuga vel hvað best hentar hér áður en í framkvæmdir er ráðist.

Í lauslegri rekstraráætlun, sem Sláturfélag Suðurlands lét gera á kjötverksmiðju, kemur í ljós að reksturinn gæti gefið sæmilegan arð. Segja má að um tvenns konar arð gæti verið að ræða í verksmiðju sem vinnur úr sláturúrgangi sem áður hefur ekki verið nýttur. Sláturúrgangurinn verður verðmætt hráefni með því að vinna úr honum, og margir menn fá atvinnu við vinnslu í verksmiðjunni sem skilar verðmætri vöru. Í fyrrnefndri rekstraráætlun er auk þess gert ráð fyrir sæmilegri arðsemi þess fjár sem í verksmiðjuna er lagt.

Markaður ætti að vera öruggur fyrir framleiðslu verksmiðjunnar. Beinamjöl er m.a. notað í fóðurblöndur. Fitan yrði að verulegu leyti notuð til blöndunar í grasköggla. Hefur það verið reynt í Gunnarsholtsverksmiðjunni og virðist gefa góða raun. Kjötmjöl er notað til fóðurs og e.t.v. að einhverju leyti til áburðar, svo sem í blómaáburð, sbr. það sem fram kemur í áður tilvitnaðri grein dr. Karls Kortssonar dýralæknis.

Væri unnið úr öllum sláturúrgangi á landinu yrði mikill verðmætisaukning á nýrri framleiðsíugrein sem veitti atvinnu og mörgu vinnandi fólki tekjur. Atvinnulífið er ekki enn nægilega fjölbreytt hér á landi til þess að veita fullkomið atvinnuöryggi fyrir almenning. Iðnaður hér á landi er enn ungur að árum og á eftir að þróast á ýmsan hátt. Landið hefur ávallt verið talið snautt að hráefnum til iðnaðarframleiðslu. Skortur á fjármagni hefur oft hindrað að ráðist væri í sæmilega arðbærar framkvæmdir. Það hefur einnig átt sér stað að verðmætasköpun hefur orðið minni en efni stóðu til vegna þess að mikil verðmæti hafa farið í súginn. Þekkingu og fjármagn hefur vantað til að nýta margt, sem til fellur, í stað þess að kasta því á glæ, þótt það gæti orðið verðmætt. Í því sambandi má m.a. nefna endurvinnsluiðnað úr sorpi, rusli og brotajárni sem nú er mjög þýðingarmikill og arðgefandi í nágrannalöndum okkar, en hefur ekki enn komist á fót hér á landi. Vonandi þykir hér eftir sjálfsagt að efna til endurvinnsluiðnaðar hér á landi og spara með því gjaldeyri og auka atvinnu og verðmæti. Einnig skal þess vænst að unnið verði úr sláturúrgangi með sama markmið fyrir augum.

Till. á þskj. 48 er flutt í þeim tilgangi að rannsókn verði látin fram fara á því, með hverjum bætti sé hagkvæmast að vinna verðmæti úr sláturúrgangi. Enginn efast um að það megi gera eins og víðast annars staðar. En rannsóknir eiga að stuðla að því að hagkvæmasta leiðin sé valin áður en í framkvæmdir er ráðist, og þess vegna er till flutt.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál að sinni, en legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.