11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

36. mál, endurskoðun tekjuskattslaga

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef tvö undanfarin þing flutt hér á Alþ. till. til þál. sem verið hafa að meginefni svipaðar þessari till. sem hér er á þskj. 36, um endurskoðun tekjuskattslaga. En þessar till. hafa ekki náð fram að ganga. Ég hef í fyrri framsöguræðum lýst allítarlega núverandi tekjuskattskerfi og kallað það hneyksli að leiðréttingar skuli ekki hafa fengist á því kerfi, og ég geri það enn. Ég hef furðað mig á því, að þótt ýmsir þm. úr öðrum stjórnmálaflokkum en Alþb. hafi viðurkennt að tekjuskattskerfið sé stórgallað hefur það hvorki gerst að till. okkar alþb.- manna fengjust afgr. með eðlilegum hætti né að fram kæmu till. frá hæstv. ríkisstj. eða frá hv. þm. úr stjórnarflokkunum um aðra lausn á þessum vanda.

Að vísu hefur því verið lofað á hverju ári nú um alllangt skeið að senn yrðu gerðar breyt. á tekjuskattskerfinu. Fyrst voru þessi loforð gefin af fyrrv. fjmrh. Halldóri E. Sigurðssyni, og síðan aftur og aftur af núv. hæstv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen. Það hefur sem sagt verið skákað æðilengi í því skjólinu að skattamálin væru til gaumgæfilegrar athugunar, eins og það hefur verið nefnt. Fyrir nokkrum árum átti að heita að þau væru í athugun hjá sérstakri n., en sú n. mun hafa verið lögð niður fyrir nokkrum árum án þess að nokkurt frv. sæi dagsins ljós hér á Alþ. í kjölfar þeirra nefndarstarfa. Hins vegar lýsti hæstv. fjmrh. yfir í framsöguræðu fyrir frv. til fjárl. 28. okt. 7975, að unnið hefði verið í rn., eins og hann sagði, að undirbúningi „frv. um hreyt. á lögum um tekju- og eignarskatt sem lagt verður fram fyrir lok þessa árs“ — þ.e. fyrir árslok 1975. Þetta rættist þó ekki frekar en ýmislegt annað sem fyrirheit hafa verið gefin um í tíð þessarar ríkisstj. Eftir áramótin í fyrra var enn talað um það oftar en einu sinni hér á Alþ. að frv. um breyt. á tekjuskattslögum yrði lagt fyrir Alþ. a.m.k. fyrir vorið, en það varð heldur ekki.

Nú er enn talað um það að frv. sé á næstu grösum, kannske talað um það meira nú en nokkru sinni fyrr, og vonandi er það vísbending þess að frv. sé í raun og veru á leiðinni. Þó bólar ekkert á því enn. Ég bendi á það, að ef afgreiðsla þessara mála á að eiga sér stað fyrir n.k. áramót, þá þarf heldur en ekki að hafa hraðan á til þess að það megi takast. Ef afgreiðsla þessa máls frestast hins vegar fram á síðari hluta vetrarins, þá er ljóst að engar breytingar munu eiga sér stað á næsta skattári, skattárinu 1977, því að þá verður sjálfsagt sagt að um seinan sé að láta nýjar skattareglur gilda á því ári. Niðurstaðan verður því sú, ef þannig fer að dregst fram yfir áramót að leggja frv. fram eða afgr. það, að skjólstæðingar ríkisstj. munu geta haldið í þær út þetta kjörtímabil og fram yfir næstu kosningar, jafnvel þótt þær verði ekki fyrr en vorið 1978.

Till. sú til þál., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 36 um nauðsynlegar breytingar á tekjuskattslögunum, er í nokkrum liðum.

Megintilgangur þessarar till. er að sjá til þess að fyrirtæki, félög og hvers konar rekstur, sem rekinn er í ágóðaskyni, greiði eðlilegan tekjuskatt af hagnaði sínum. Til þess að svo verði þarf að breyta ýmsum ívilnunarreglum skattalaga og þá einkum hinum flóknu ákvæðum um fyrningar, þannig að afskriftir miðist við eðlilegan endingartíma eigna. Af þessum atriðum, sem varða skattlagningu hvers konar rekstrar, án tillits til þess hvort reksturinn er á nafni einstaklings eða á nafni félags, ætla ég að víkja hér á eftir. En fyrst vil ég fjalla um hitt höfuðefni till., þ.e.a.s. álagningu tekjuskatts á einstaklinga sem reka atvinnurekstur í eigin nafni.

Í þessar till. er lagt til að álagning tekjuskatts á fyrirtæki og hvers konar rekstur verði ávallt skýrt aðgreind frá skattgreiðslum þeirra sem eiga reksturinn. Til frekari áréttingar þessari breytingu er það tekið fram, að tekjur einstaklinga til skatts eigi ekki að skerðast þótt rekstur í eigu þeirra skili bókhaldslegu tapi. Og í þriðja lagi er lagt til að einstaklingum, sem hafa tekjur sínar af eigin rekstri, verði framvegis áætlaðar ákveðnar lágmarkstekjur til skatts ef litlar tekjur eru fram taldar.

Hér er sem sagt fjallað um einn augljósasta ágalla í núverandi tekjuskattskerfi sem margir reka augun í og mikið er kvartað yfir, þ.e. þegar ákveðinn rekstur er ekki aðeins skattlaus vegna ýmiss konar óeðlilegra ívilnunarreglna, heldur er eigandi rekstrarins, sem þó kann að hafa ágætar tekjur úr ýmsum öðrum áttum, einnig skattlaus vegna þess að hann getur komið bókhaldslegu tapi á skattskýrslu sína. Þá breytir engu þótt maðurinn sé að öðru leyti tekjuhár og lifi bersýnilega hátt og hafi mikil útgjöld því að bókhaldstapið af rekstrinum hjálpar honum til þess að losna við allan tekjuskatt.

Þetta er að sjálfsögðu algerlega fráleitt, og það má ekki lengur líða að þessu sé ekki breytt. Ég þessu á að vera nokkuð auðvelt að breyta.

Annað og erfiðara vandamál er með þann einstakling sem hefur ekki tekjur af öðru en rekstrinum og annaðhvort er þá formlega á launum hjá fyrirtækinu, — launum sem eru bókfærð svo lág að af þeim er sáralítill skattur, eða tekjur mannsins koma einungis fram sem hagnaður af rekstrinum þegar búið er að færa raunverulegan hagnað niður í óverulegan bókhaldslegan hagnað með ýmsum ívilnunarreglum skattalaga. Að sjálfsögðu er það svo í reynd, að annaðhvort hefur fjármagn eigandanum til lífsframfæris verið tekið út úr rekstrinum sem lán eða fyrirtækið greiðir útgjöld viðkomandi einstaklings með beinum eða óbeinum hætti án þess að þessar greiðslur séu taldar fram. Í síðar nefnda tilvikinu er að sjálfsögðu um bein skattsvik að ræða og það er því utan við meginsvið þessarar till. Bætt skatteftirlit og betri ráðstafanir gegn skattsvíkum, bæði hvað snertir tekjuskatt og söluskatt, er mál út af fyrir sig sem er mjög stórt í sniðum, en það er ekki tekið með í þessa till. sem fjallar fyrst og fremst um lögleyfðar aðferðir til þess að koma tekjum undan skatti. Það verður að ætla að menn hafi lífsframfæri sitt af umfangsmiklum rekstri, ef þeir á annað borð standa fyrir. slíkum rekstri og hafa ekki aðrar tekjur að neinu ráði, og því hlýtur þrautalendingin að vera sú, sem hér er gerð till. um og hefur verið gerð till. um á undanförnum árum, að mönnum séu áætlaðar ákveðnar lágmarkstekjur.

Auk þess, sem ég ef nú nefnt, er sérstaklega lagt til í þessari þáltill. að spornað verði við því með beinum lagaákvæðum að skuldir séu notaðar í óhóflegum mæli til að lækka tekjuskattsgreiðslur. Ef skuldirnar stafa af eignamyndun einstaklings til persónulegra þarfa er ekki nema sanngjarnt að einhver takmörk verði sett fyrir því hve mikla vexti megi draga frá tekjum, og er þá hugsanlegt að miða hámark vaxtafrádráttar við meðalvexti íbúðarverðs og fjölskyldustærð á hverjum tíma og hjá hverjum einstaklingi. Stafi vaxtagreiðslur hins vegar af rekstri fyrirtækja er eðlilegast að þær komi inn í bókhald rekstrarins og minnki þar bókfærðar tekjur án þess að tap af völdum þeirra skerði persónulega tekjur einstaklingsins, eins og áður var vikið að.

Ég vil nú víkja að þeim ívilnunarreglum skattalaganna sem snerta allan rekstur. Í grg. með þeirri þáltill., sem hér er til umr., er frá því skýrt að gerð hafi verið athugun á skattlausum fyrirtækjum í Reykjavík á þessu ári og að miðað hafi verið við að fyrirtækin greiddu a.m.k. 15 þús. kr. í aðstöðugjald. Þessi athugun á skattlausum fyrirtækjum í Reykjavík leiddu til þeirrar niðurstöðu að 483 fyrirtæki reyndust algjörlega skattlaus enda þótt þau greiði um 362 millj. kr. í aðstöðugjald og veita þeirra sé því lauslega áætluð um 39–40 þús. millj. kr. Til samanburðar er rétt að geta þess, að þegar ég mælti fyrir sams konar till. árið 1974, fyrir tveimur árum, þá skýrði ég frá því að skv. athugun, sem þá var gerð, hefðu 240 félög með samanlagða ársveltu yfir 10 þús. millj. kr. reynst skattlaus miðað við rekstrarárið 1973. Og fyrir einu ári, þegar ég mælti fyrir till. sama efnis, skýrði ég frá því að fjöldi þeirra fyrirtækja í Reykjavík, sem ekki greiddu tekjuskatt, væri 432 og að samanlögð velta þeirra væri tvöfalt meiri en verið hafði árið áður, 20 þús. millj. Í þetta sinn hefur skattlausum fyrirtækjum í höfuðborginni enn fjölgað verulega, og enn hefur það gerst að á milli ára virðist velta þeirra vera tvöfalt meiri en árið áður. Hún var 10 þús. millj. rekstrarárið 1973, 20 þús. millj. 1974 og 40 þús. millj. á árinu 1975.

Þegar ég mælti fyrir þessari þáltill. fyrir einu ári eyddi ég allmiklum tíma til að gera grein fyrir ýmsum löglegum aðferðum skattalaga sem þar má fínna og brúklegar eru til að koma tekjum undan skatti. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara jafnítarlega í efni skattalaga að þessu sinni, en vil þó stikla hér á stóru og geta helstu ákvæða sem hér skipta máli.

Ég hef bent á það í fyrsta lagi að ein helsta aðferðin er sú að meta vörubirgðir á lágu verði og velta þannig undan sér mjög miklum tekjum. Það er að sjálfsögðu mjög hagkvæmt á verðbólgutímum að beita þessari aðferð.

Í öðru lagi hef ég bent á þá sérstöku heimild sem tryggingafélögin hafa í 17. gr. skattalaga til að leggja til hliðar vegna ógreiddra tjóna eða bótagreiðslna. Enginn vafi er á því, að skýringin á því hversu mörg tryggingafélög eru á hverju ári á þessum listum sem fylgt hafa till. minni til þál., er sú, að þau hafa notað sér þetta ákvæði skattalaga og hafa getað skotíð undan miklum tekjum sem síðan eru ekki skattlagðar fyrr en löngu seinna, þegar fjármunirnir eru orðnir miklu minni vegna verðrýrnunar krónunnar.

Þriðja aðferðin er heimildin í 17. gr. skattalaga sem fyrirtæki hafa til að leggja í varasjóð 25% af hreinum tekjum félaganna áður en tekjuskattur frá árinu áður hefur verið frá dreginn. Því miður hafa ekki verið veittar opinberar upplýsingar um það hvert tap ríkissjóðs á þessu ári sé af þessum sökum, en upplýsa má að á árinu 1974 var áætlað tap ríkissjóðs af þessum ástæðum 271 millj. Má ætla að sú upphæð sé nálægt þrisvar til fjórum sinnum hærri nú.

Fjórða og fimmta ívilnunarreglan snerta fyrningarákvæðin. Eins og kunnugt er er fyrningarhlutfall ekki í neinu samræmi við eðlilegan endingartíma eignanna. Svo farið sé fljótt yfir sögu og miðað við lausafé, þ. á m. skip og bifreiðar, þá er almenna fyrningin af slíkum eignum 15%, flýtifyrningin 6%, og því til viðbótar kemur verðhækkunarstuðull á hverju ári sem mun á þessu ári hafa numið 6.8%, þar sem fjmrn. ákvað með auglýsingu nr. 19 23. jan. á þessu ári að fyrningarstuðullinn skyldi vera 45% og 45% af 15% eru 6.8%. Samanlagt er því fyrningarhlutfall á þessu ári á lausafé 27.8%.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar fyrningaheimildir, en menn sjá af þessari tölu að hún leiðir til þess að hugsanlegt er að lausafé sé fyrnt allt að 85% á aðeins þremur árum.

Sjötta meginreglan, sem hér skiptir máli, er sú, að skattalögin gera ráð fyrir því að sömu eignina megi fyrna að fullu oftar en einu sinni, aðeins ef hún skiptir um eiganda. Með því að skipta stöðugt um eign eftir að viðkomandi eign hefur verið fyrnd geta menn verið með gífurlegan fyrningafrádrátt í gangi á hverju einasta ári. Þetta tengist því ákvæði tekjuskattslaganna að söluhagnaður lausafjár og skipa skuli vera skattfrjáls eftir 4 ára eignarhald. Eigendurnir þurfa sem sagt að eiga viðkomandi eign í 4 ár og þá geta þeir skipt og byrjað að fyrna nýja eign.

Til viðbótar þessu er svo að nefna ákvæði um flýtifyrningu sem upphaflega var réttlætt á þann hátt, að það væri aðeins tilfærsla milli ára og fyrr eða siðar yrðu menn að greiða skatt af flýtifyrningunni. En vegna ákvæðis í skattalögunum um að skattskylda vegna flýtifyrningar geti gengið upp í fyrningarheimildir af nýrri eign sem keypt er þá má segja að það gildi nokkuð svipað um flýtifyrninguna og aðra fyrningin, að hún kunni aldrei að koma til skatts ef eigandinn er nógu vakandi með að skipta um eignir reglulega til þess að geta leikið á skattalögin, eins og þau veita heimildir til.

Ég hef farið hér mjög fljótt yfir sögu. Ég vísa til fyrri framsöguræðu um þessi efni og læt duga þessa grg. um ívilnunarreglur skattalaganna.

Löngum er kvartað yfir því hér á hv. Alþ. þm. flytji eingöngu till. um útgjöld ríkisins, en hugsi ekkert um að afla ríkinu tekna. Þessi söngur hefur heyrst hér á Alþ. í áratugi, og í útvarpsumr. nú fyrir skemmstu var einn af ráðh. hæstv. ríkisstj., Matthías Bjarnason, einmitt með mikinn söng um þetta efni, að stjórnarandstæðingar hugsuðu aðeins um útgjöldin og létu tekjurnar lönd og leið. Ég vil benda á það að lokum, að við höfum í þessari till. minni einmitt dæmi um hið gagnstæða. Við alþb.-menn flytjum sem sagt till. ár eftir ár um að bætt verði í ríkiskassann 6–8 þús. millj. kr. miðað við núverandi tekjuskattskerfi. En þessar till fást ekki afgr, og hæstv. fjmrh. hefur ekki einu sinni séð sóma sinn í því að vera viðstaddur þessar umr. og taka þátt í umr., heldur er ævinlega fjarverandi þegar þessi till. er tekin til umr., og sama gildir um langsamlega flesta hv. þm. núv. stjórnarflokka.

Þessi fjárhæð, 6–8 þús. millj. kr., ætti þó að geta komið að nokkru gagni, fyrir utan að bæta úr því hrópandi misrétti sem við blasir í hvert sinn sem tekjuskattur er á lagður. Þessa fjárhæð mætti nota og ætti að nota til að lækka söluskatt um 4–5% og lækka þannig vöruverð um svipaða hundraðstölu. Það væri sannarlega góð byrjun í markvissri sókn gegn verðbólgunni sem hefur, eins og allir vita, ætt áfram með einstæðum hraða í tíð núv. ríkisstj., og enginn sér fyrir endann á þeirri ferð nema breytt sé algjörlega um stjórnarstefnu í grundvallaratriðum.

Ég vil að lokum segja það um stefnuna í skattamálum almennt, að það er rétt, sem oft hefur komið fram, að í þjóðfélaginu ríkir hin megnasta óánægja með tekjuskattinn. Tekjuskatturinn hefur orðið óvinsælli með ári hverju, m.a. vegna þess hversu fáránlegt kerfið er. Þess vegna hafa sumir hv. þm. látíð sér til hugar koma, þ. á m. formaður þingflokks Alþfl., að réttast og eðlilegast væri að afnema tekjuskatt með öllu, láta hann hverfa, a.m.k. tekjuskatt á launafólki. Ég vil þó láta það koma hér fram, að ég er ekki hlynntur slíkri hreytingu. Ég tel að tekjuskattur sé nauðsynlegt tekjujöfnunartæki og hann eigi fyllsta rétt á sér ef misréttíð, sem nú viðgengst, er leiðrétt, og það er hægt að leiðrétta það. Ég tel hins vegar að veruleg einföldun skattakerfisins væri mjög til bóta. Ég tel að það ætti að afnema hina mörgu frádráttarliði skattalaga, eins og þeir birtast í núverandi mynd, og það væri miklu eðlilegra að taka upp hliðstæðan grundvöll við álagningu tekjuskatts og nú gildir um álagningu útsvars.

Við þurfum nauðsynlega að koma á staðgreiðslukerfi skatta hér á landi, og við verðum öll að viðurkenna það, að útilokað er að staðgreiðslukerfið verði tekið upp meðan skattálagningin er svo flókin sem raun ber vitni. Það verður að grisja þennan mikla frádráttarfrumskóg. En hitt er allt annað mál, að hugsanlegt er að í staðinn komi afsláttur af greiddum skatti og afslátturinn sé miðaður við hinar sérstöku aðstæður ýmissa þjóðfélagshópa sem nauðsynlegt er að taka tillit til, t.d. einstæðra foreldra, svo ég nefni dæmi.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þessa till. Ég hef margoft gert grein fyrir henni hér á Alþ. og ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Það er furðulegt að hv. alþm. skuli enn ekki hafa fengist til þess að taka skattamálin föstum tökum.

Við vitum að ýmsir halda dauðahaldi í hin fáránlegu fyrningarákvæði og aðra verstu vankanta skattalaganna. Mér þykir hins vegar ótrúlegt að meiri hl. Alþ. sé sama sinnis. Þess vegna er þessi till. enn einu sinni borin fram.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. fjvn.