11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

34. mál, öflun upplýsinga um þjóðartekjur á mann og kaupmátt launa

Jón Skaftason:

Virðulegi forseti. Ég tel að sú till., sem hv. 1. flm. Gylfi Þ. Gíslason, var að fylgja úr hlaði, sé á margan hátt athyglisverð. Ég hef vegna nokkuð langs starfstíma í Norðurlandaráði átt þess nokkurn kost að kynna mér laun á öðrum Norðurlöndum og hef oft og tíðum reynt að bera þau saman við þau laun sem gilda á okkar landi. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því, að laun almennt talað á Íslandi eru langtum lægri en á Norðurlöndum. Um það held ég að þurfi ekki að deila. Í Svíþjóð eru t.d. lög sem mæla svo fyrir að þar megi enginn vinna lengur eftirvinnu á hverju ári en sem nemur 200 klst. Ef menn bera þetta saman við það sem algengast er hér, þar sem stór hópur launþega vinnur langan tíma í eftirvinnu og næturvinnu til þess að reyna að ná þeim tekjum sem nauðsynlegar eru til þess að framfleyta fjölskyldu, þá sjá menn þegar af þessu að launakjör og kaupmáttur launa í þessum tveim löndum Svíþjóð og Íslandi, hljóta að vera ærið mikið mismunandi.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við umr. um þessa þáltill, er sú, að mér finnst efni hennar ekki nægilega viðtækt. Till. gerir ráð fyrir því að ríkisstj. beiti sér fyrir nánast upplýsingasöfnun um tiltekin atriði sem till. fjallar um. Þessar upplýsingar, sumar hverjar a.m.k., liggja fyrir í þeim stofnunum landsins sem að þessu vinna. Þó held ég að það væri mjög þarft verk að þessum upplýsingum væri safnað saman í einn stað og Alþ. kynntar þær niðurstöður, eins og raunar tillgr. gerir ráð fyrir. Mér finnst það vanta í till. og vil spyrja hv. 1. flm. till. hvort hann og meðfim. hans gætu ekki orðið sammála mér um að bæta inn í till., að jafnframt þessari upplýsingasöfnun færi fram sérstök rannsókn á því, hvernig á því standi að á Íslandi séu rauntekjur launafólks svona miklu lægri en ég tel að þær séu á öðrum Norðurlöndum, þrátt fyrir það að þjóðartekjur á mann í þessum löndum séu nokkuð sambærilegar, eftir því sem ég best veit. Ég tel að þetta sé afar mikið atriði, að við fáum skýra og nákvæma rannsókn á ástæðum þeim er til þess liggja að rauntekjur launa í landi okkar eru, að því er ég tel, langtum lægri en á öðrum Norðurlöndum. Til þess liggja að sjálfsögðu ákveðnar ástæður. Ég hef sjálfur í huga mínum reynt að finna þær og hef nokkrar hugmyndir um þetta, en ég tel afar þýðingarmikið og nauðsynlegt að á þessu fari fram hlutlaus sérfræðileg rannsókn og niðurstöður þeirrar rannsóknar verði látnar fylgja þeim upplýsingum sem till. gerir ráð fyrir.