15.11.1976
Efri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

66. mál, vegalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umr. á seinasta fundi deildarinnar óskaði ég eftir því að mega bera fram fyrirspurn til ráðh. út af einu atriði í þessu frv. Hann var þá ekki viðstaddur, og hefur æxlast svo að ráðh. er enn fjarstaddur. Ég sé enga ástæðu til þess að tefja afgreiðslu málsins þó svona óheppilega standi á, að ráðh. geti ekki núna við 1. umr. svarað þessari spurningu. Ég vildi samt sem áður nota tækifærið til að koma að smáathugasemd sem ég vildi biðja hv. samgn. d. að taka til athugunar. Það er varðandi 2. gr. frv. Þar er þjóðvegum skipt annars vegar í stofnbrautir og hins vegar í þjóðbrautir, og flokkunin er á því byggð að vegir, sem ná til 1000 íbúa svæðis og mynda eðlilegt samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins, flokkast til stofnbrauta, en þó má víkja frá reglunni um íbúafjölda ef um er að ræða tengingu kaupstaða eða kauptúna sem mynda samræmda heild frá atvinnulegu eða félagslegu sjónarmiði.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að mér hefði fundist að það hefði hreinlega átt að slá því föstu í þessari grein að allir kaupstaðir og öll kauptún féllu undir þessa reglu hvað tengingu við stofnbrautir snertir. Ég sé ekki ástæðu til að gera þar neina undantekningu. Þá væri þetta mjög einföld regla að fara eftir. Ég vek á því athygli, að það eru svo til öll kauptún landsins sem tengd eru þjóðvegakerfinu með stofnbrautum og vafalaust allir kaupstaðir, eins og sjá má á bls. 11, fskj. 2. En þó eru fáein kauptún sem eru þarna undanskilin. Það er t.d. stærsti útgerðarstaðurinn við Húnaflóa, Skagaströnd, hann er ekki tengdur við þjóðvegakerfið með stofnbraut, og eins er um Borgarfjörð eystra, hann er ekki tengdur þjóðvegakerfinu með stofnbraut. Kannske eru þarna nokkur fleiri dæmi. En ég sé ekki nokkra minnstu ástæðu til þess að vera að taka þessa staði út úr og get ekki fundið rökin fyrir því að þeir eru ekki teknir þarna með. Reglan væri afskaplega einföld ef hún væri einfaldlega miðuð við það að allir kaupstaðir og öll kauptún féllu undir regluna.

Þetta vildi ég biðja hv. samgn. að taka til athugunar. Ég ætlaði að spyrjast fyrir um það, hvort það væri stefna hæstv. samgrh. að haga þessu á þann veg sem lýst er í fskj. 2 eða hvort það væru kannske bara mistök að kortið væri teiknað upp með þessum hætti, hvort það væru einhver rök fyrir því að það væri teiknað upp með þessum hætti. En þessar spurningar má auðvitað eins leggja fram við 2. umr. málsins, og kannske gerist þess ekki þörf ef hv. samgn. kemst að þeirri niðurstöðu að sjálfsagt sé að breyta þessu.