15.11.1976
Neðri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

30. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur áður legið fyrir Alþ. og þá verið gerð grein fyrir því við 1. umr. Ég vil aðeins rifja upp bæði aðdraganda í örstuttu máli og svo meginefni frv.

Upphafið að þessari frv.- gerð var það, að hinn 27. júlí 1972 skipaði Magnús T. Ólafsson, þáv. menntmrh. nefnd til þess að endurskoða lög um Ríkisútgáfu námsbóka og lög um Fræðslumyndasafn ríkisins. Í erindisbréfi n. er verkefni hennar afmarkað nánar þannig: „Við endurskoðunina ber að hafa í huga hvort ráðlegt þætti að sameina þessar stofnanir eða tryggja sem hagkvæmast samstarf þeirra í milli og skólarannsóknardeildar. Ber að stefna að því, að stofnanir þessar verði sem færastar um að veita skólum landsins sem fullkomnasta þjónustu og sjá fyrir kennslugögnum í samræmi við gildandi námsskrá og endurskoðun námsefnis á hverjum tíma.“

Þessi n. var skipuð 5 mönnum, en auk þeirra hafa fjölmargir aðrir fjallað um þetta mál því að hún leitaði ráða og tillagna hjá mörgum aðilum, sem þessi mál varða, og fékk frá þeim mjög margar ábendingar.

Það dróst nokkuð að þessi n. byrjaði störf sin, og segir í athugasemdum sem fylgja frv. að meginorsökin hafi verið sú, að á sama tíma voru miklar annir í rn. vegna undirbúnings á öðrum lagafrv., einkum frv. um grunnskóla. En hvað sem um það er að segja, þá var fyrsti fundur n. haldinn í júlí 1973 og n. lauk störfum snemma árs 1974 eftir að hafa haldið allmarga fundi og eftir að unnið hafði verið að málinu á annan hátt á þessum starfstíma nefndarinnar. Nefndarmenn voru allir sammála um öll atriði frv. þegar upp var staðið frá nefndarstörfunum.

Um helstu breytingar frá núgildandi lögum, sem frv. felur í sér, ætla ég að rifja upp nokkur atriði.

Eins og áður sagði, er frv. ætlað að koma í stað laga um Ríkisútgáfu námsbóka og um Fræðslumyndasafn ríkisins, en helstu viðaukar og breyt. frá gildandi lögum, þær sem í frv. felast, eru þessar:

Ríkisstofnanir, sem starfa að útgáfu, miðlun og framleiðslu námsefnis og kennslugagna, eru sameinaðar í Námsgagnastofnun er lúti daglegri stjórn eins forstjóra, námsgagnastjóra. Undir Námsgagnastofnun heyri Ríkisútgáfa námsbóka og Fræðslumyndasafn ríkisins svo og Skólavöruhús og Námsgagnagerð, sem sett eru um sérstök ákvæði í frv. Umræddar deildir skulu þó halda sjálfstæðum heitum og koma fram út á við undir þeim samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar. Jafnframt er stjórninni heimilað að gera breytingar á starfsháttum er miði að aukinni samhæfingu starfa og bættri þjónustu.

Í stað námsbókanefndar og stjórnar Fræðslumyndasafns ríkisins kemur ein óskipt Námsgagnastjórn, skipuð 7 mönnum, að meiri hl. kennurum, og skal hún hafa með höndum yfirstjórn á starfsemi og fjárreiðum Námsgagnastofnunar.

Ákvæði eru um það, að Námsgagnastofnun skuli hafa nána samvinnu við þá aðila sem vinna að endurskoðun námsefnis og nýjungum í kennslustarfi á vegum menntmrn. svo og við fræðsluskrifstofur sveitarfélaga og stofnanir sem veita kennaramenntun, eins og Kennaraháskóla Íslands t.d.

Fræðslu- og upplýsingastarfsemi um náms- og kennslugögn og notkun þeirra yrði efld á ýmsum sviðum og lögð áhersla á þetta í sambandi við störf Fræðslumyndasafnsins t.d. að koma á sem allra hagkvæmastri notkun nýsitækja ýmiss konar, eins og það er nú orðað, t.d. hljóð- og myndritaðra námsgagna o.s.frv.

Þá eru í frv. ákvæði um það, að Námsgagnastofnun skuli stuðla að vexti og greiða fyrir stofnun skólabókasafna. Þetta ákvæði er að sjálfsögðu sett til samræmis við þá auknu áherslu sem lögð er á skólabókasöfnin í hinum nýju grunnskólalögum.

Þá er gert ráð fyrir, að stofnuð verði sérstök Námsgagnagerð sem yrði þá deild í stofnuninni og mundi framleiða náms- og kennslugögn miðað við íslenskar þarfir og aðstæður. Í tengslum við Námsgagnagerð yrði rekin einhver tilraunastarfsemi að sjálfsögðu, það má skoðast óhjákvæmilegt.

Þá eru þarna lagaákvæði um Skólavöruhús, en það tæki við hlutverki Skólavörubúðarinnar, sem nú er rekin af Ríkisútgáfu námsbóka, og fleiri skyldum störfum sem sérstök deild í Námsgagnastofnun.

Þá yrði lögfest að auk eiginlegra námsbóka skuli Ríkisútgáfan gefa út handbækur og kennsluleiðbeiningar handa kennurum og skýringabækur eða viðbótarbækur fyrir nemendur.

Ákvæði er um löggildingu námsbóka og hlutverk Námsgagnastjórnar í því sambandi svo og hversu fara skuli með ágreining í slíkum málum.

Svo eru vitanlega ákvæði um fjármagn allra deilda Námsgagnastofnunar, þau yrðu einfölduð og samræmd og miðað við að allt ríkisfé til stofn- og rekstrarkostnaðar verði í formi venjulegra fjárveitinga í fjárl. miðað við þarfir og starfsáætlanir, en engir sérskattar til þessarar fjármögnunar. Aðrar tekjur stofnunarinnar verði að sjálfsögðu sölu- og leigutekjur af efni og tækjum, eins og nú á sér stað með þær greinar þessarar starfsemi sem nú þegar eru starfandi. Tekjum stofnunarinnar yrði eingöngu varið í þágu þeirra verkefna sem lög mæla fyrir um.

Þá er gert ráð fyrir því, — þó það vitanlega, eins og allt sem gert kynni að verða, yrði háð fjárveitingum, - til þess að flýta fyrir samræmdu starfi og sameiningu deilda Námsgagnastofnunar, að sem fyrst eftir að lögin tækju gildi tengist starfsemi stofnunarinnar í sameiginlegu húsnæði og þá yrði eftir því sem við yrði komið reynt að hafa það sem næst Kennaraháskóla Íslands vegna augljósra og mikilla tengsla við þá stofnun.

Í þessu frv. felst bæði mikil skipulagsbreyting, en líka útfærsla á þeirri starfsemi sem þegar er rekin á þessu sviði. Skipulagsbreytingin er í því fólgin, eins og fram hefur komið í þeim orðum sem ég hef þegar sagt, að sameina undir einni stjórn Fræðslumyndasafnið, Ríkisútgáfuna og þá starfsemi sem henni tengist, Skólavörðubúðina. Útfærsla starfseminnar er hins vegar einkum fólgin í því annars vegar að hefjast handa við námsgagnagerð, aðra en bókagerð sem nú er fyrst og fremst stunduð, og hins vegar að starfsemi Ríkisútgáfunnar mundi þá færast yfir á fleiri skólasvið.

Þessar breytingar kosta að sjálfsögðu fjármuni. Ég mun gera ráðstafanir til að fá áætlun frá hagsýslustofnuninni um þann kostnað, sem samþykkt þessa frv. kynni að hafa í för með sér, og koma slíkri áætlun í hendur hv. menntmn. þessarar deildar.

Ég hygg að þróunin hljóti í meginatriðum að verða í þá stefnu sem þetta frv. felur í sér. Eins og ég sagði áðan og raunar allir hv. þm. vita, starfar Ríkisútgáfa námsbóka fyrst og fremst fyrir grunnskólasviðið. Ég held að engum manni komi til hugar að hverfa frá því að reka sameiginlega útgáfu fyrir það skólasvið. Hitt held ég líka að sé sammæli flestra þeirra sem koma nálægt framkvæmd kennslu á framhaldsskólastiginu, að það sé æskileg þróun að Ríkisútgáfan komi einnig inn á það svið og taki að sér veigamikla þætti í útgáfu kennslubóka fyrir framhaldsskólastigið.

Það má geta þess í þessu sambandi að starfsemi Ríkisútgáfunnar aðeins fyrir grunnskólastigið er nú þegar að sprengja utan af sér húsnæði og aðra aðstöðu svo að þar verður ekki komist hjá aðgerðum til þess að greiða fyrir því einu.

Enn er á það að benda í tengslum við þá þróun sem er að verða og verður í framtíðinni, að í staðinn fyrir að ekki fyrir mjög löngu voru bækur nánast einu kennslugögnin, þær voru a.m.k. alveg yfirgnæfandi, en nú og vafalaust í vaxandi mæli í framtíðinni koma til ýmis önnur gögn byggð á þeirri tækni sem við höfum nú yfir að ráða. Það eru þessi tæki sem hafa verið kölluð nýsigögn. Sumir eru lítt hrifnir af nafninu, en þó ætla ég að menn skilji nú orðið hvað við er átt með því. En einmitt þessi þróun ýtir undir það, að hafin verði á vegum hins opinbera starfsemi í líkingu við það sem hér er gert ráð fyrir, þar sem er námsgagnagerð önnur en bein bókaútgáfa.

Eins og ég sagði í upphafi þessara orða, hefur þetta frv. áður legið fyrir Alþ. og mér þótti rétt að endurflytja frv. núna óbreytt frá því sem það hefur legið hér fyrir. Ég endurtek: Ég tel ekki nokkurn vafa á því að málin muni þróast í þá stefnu í megindráttum sem þetta frv. bendir til. Hitt er svo annað mál, hvenær menn telja sig þess umkomna, hvenær Alþingi, fjárveitingavald, ríkisstjórn telja tímabært að ráðast í framkvæmdir í þá stefnu sem frv. gerir ráð fyrir. Það er að sjálfsögðu mál sem Alþ. eitt segir til um. Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að treysta stöðu ríkissjóðs, hætta að reka ríkissjóðinn með halla o.s.frv., þá mun ég ekki kippa mér upp við það þó að enn þoki hægt með þetta mál.

Ég skal ekki fara nánar út í einstök atriði frv. Allítarlegar athugasemdir fylgja því og það hefur áður verið rætt hér, eins og ég sagði. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umr. vísað til menntmn.