15.11.1976
Neðri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

30. mál, námsgagnastofnun

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim frv. sem við höfum áður séð lögð fram hér í deildinni. Þetta er að verða gamall kunningi, a.m.k. er ég svolítið farinn að kannast við þetta frv. vegna þess að því hefur tvívegis verið vísað til n. þar sem ég á sæti og er raunar formaður fyrir. Við í menntmn. höfum skoðað þetta frv. nokkuð og kynnt okkur það, og ég hygg að flestir séu sammála nm að hér sé mjög nýtilegt frv. á ferðinni og að ýmsu leyti sé mjög nauðsynlegt að það skipulag komist á sem þarna er gert ráð fyrir. En eigi að siður hefur verið viss tregða innan n. um að mæla með samþykkt þessa frv. á þessu stigi, og ástæðan hefur hjá ákaflega mörgum verið sú, að mönnum hefur fundist að það skorti nægilega greinargóða áætlun um þann kostnað sem fylgir þessu nýja fyrirkomulagi. Við höfum farið fram á það bæði munnlega og skriflega við menntmrn. á undanförnum árum að fá í hendur sundurliðaða og örugga áætlun um kostnað við þá breytingu sem hér er gert ráð fyrir, því að ég held að það geti engum dulist, að jafnvel þó að það sé svo á pappírnum að þarna sé verið að sameina þrjár stofnanir sem fyrir eru og raunar bæta aðeins við nýjum þætti í starfseminni, sem er námsgagnagerðin, þá hlýtur fleira að liggja þarna á bak við og líklegt að þessi stofnun verði býsna viðamikil og nokkuð kostnaðarsöm, og kannske er ekkert við því að segja. En hitt er alveg nauðsynlegt, að þegar ríkisstj. leggur fram frv., sem hafa í för með sér svona viðamiklar breytingar á ástandi sem er, og þegar lagt er til að koma á fót nýjum stofnunum, þá er náttúrlega alveg nauðsynlegt að ríkisstj. leggi jafnframt fram sundurliðaðar og nokkuð öruggar áætlanir um kostnað og hvernig fyrirhugað er að framkvæma þau lög sem kynnu að verða samþ.

Nú kom það fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að hann mun láta gera áætlun um þann kostnað sem þessi fyrirhugaða breyting kann að hafa í för með sér, og fagna ég því mjög ef slík áætlun kemur. Ef menntmn. fær þessa áætlun til skoðunar, þá hygg ég að við stöndum betur að vígi í menntmn., eftir reynslu minni að dæma, að taka afstöðu til þessa máls á þessum vetri. En ég vil endurtaka það, að ég tel að það sé ákaflega margt nýtilegt í þessu frv. og það horfi til bóta og væri vissulega mjög æskilegt að koma öllum námsgagnastofnunum undir einn hatt. Ég held að það væri mjög gagnlegt, og að því leyti til er auðvitað æskilegt að þetta frv. geti orðið að lögum. Hitt er annað mál, að hér er um viðamikið mál að ræða og sjálfsagt og rétt að skoða það gaumgæfilega og hraða ekki afgreiðslu þess meira en svo, að þingið sé sæmilega ánægt með afgreiðsluna. Það er alls ekki óalgengt að ýmis frv., sem fjalla um viðamikil efni, séu til athugunar í þinginu kannske vetur eftir vetur, og ég held, þegar upp er staðið, að þá séu menn sæmilega ánægðir með það að svo hefur farið. Það hefur orðið til þess að menn hafa kynnst frv. hefur og orðið þess vegna í rauninni sáttari við afgreiðsluna heldur en ella hefði orðið.