16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

245. mál, úrbætur í atvinnumálu á Snæfellsnesi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð að bæta við, að þetta var smátt og lítið. Ég hafði tvívegis reynt að koma því í gegnum Alþ. að reist yrði verksmiðja í Grindavík hliðstæð því sem ályktun var hér gerð um. Ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj. og einkum þó sjútvrh. á því, að Norglobal, norska verksmiðjuskipið, tók í fyrra á móti 74 þús. tonnum af loðnu. Ef svo fer nú að það fáist ekki, þá sjáum við hvað það þýðir fyrir landsmenn. Það var því alveg bráð nauðsyn að gera sérstakt átak til að koma upp verksmiðju ekki aðeins á Reykjanesi, heldur einnig á Snæfellsnesi og jafnvel víðar. Nú hafa útvegsmenn stækkað burðargetu loðnuflotans um 2000 tonn, núna í sumar og eru að því þessa dagana, og ef engin aukin móttökuskilyrði verða fyrir hendi, þá sjáum við stórkostleg vandræði á komandi loðnuvertíð. Einnig er fyrir hendi að loðnuafli er orðinn nú yfir sumartímann 84 þús. tonn og verðmæti hans mikið á annan milljarð kr. — óvænt gjöf. Og svo er það að veltast fyrir rn. hvar slík þál. eigi að lenda. Ég skil ekki þetta, hreinlega sagt. Þetta liggur ljóst fyrir að það þarf að gera sérstakt og skipulegt átak til að taka við þeim afla sem við getum veitt og komið á land. Annars fer svo, að það er verið að henda hluta úr loðnuaflanum, og hverjir vilja standa frammi fyrir því, á sama tíma og við höfum eitt hæsta verð sem um getur á mjöli og lýsi? Ég hélt, að þjóðarbúið þyrfti nú annað en að henda afla eftir allt átakið sem er gert til að fá okkar fiskveiðilögsögu. Ég vænti því þess, að hæstv. ríkisstj. taki nú þetta mál raunhæfum tökum.