16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

245. mál, úrbætur í atvinnumálu á Snæfellsnesi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Af því að umr. hafa hér beinst að þeim vanda sem fyrir hendi kann að vera varðandi móttöku loðnu á næstu loðnuvertíð, þá vil ég aðeins geta þess hér, að ég vil á engan hátt draga úr því að nauðsyn sé á að koma upp slíkum verksmiðjum á Snæfellsnesi og jafnvel víðar, eins og hér um ræðir. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að einmitt á þessari sumarvertíð í sambandi við loðnuveiðar hefur tiltölulega mjög miklum afla verið landað til vinnslu vestur í Bolungarvík þar sem nú er eina verksmiðjan á því svæði sem tekur við slíkum afla, og nú hafa þeir aðilar, sem að henni standa, í hyggju stækkun á þeirri verksmiðju og að betrumbæta alla aðstöðu þar. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. taki það mál líka inn í þá mynd sem hún væntanlega kemur til með að draga upp af þörf í þessum efnum varðandi úrbætur hér á.

Það er enginn vafi á því, að það er nauðsyn á að bæta hér um, og ásamt því að koma upp slíkri aðstöðu á Snæfellsnesi og hugsanlega Grindavík líka, þá er, að ég tel, mjög nauðsynlegt og skynsamlegt ekki síst að stuðla að því að bæta aðstöðu á þeim stöðum þar sem hún er nokkur fyrir hendi og þarf tiltölulega litlu við að bæta til þess að verulegar úrbætur eigi sér stað til þess að taka á móti þeim afla sem hér er verið um að tala fyrst og fremst.