16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

244. mál, fiskvinnsluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ekki eru betri tíðindi sem hæstv. forsrh. segir núna. Ríkisstj. telur sig ekki geta orðíð við tilmælum þeirra í Ólafsvík um ríkisábyrgðina, en útvegun skuttogara er, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, sú lausn sem þeir sjá á vandamálum sínum. Þeir telja, held ég, illmögulegt að ráða við það öðruvísi en að þessi ríkisábyrgð fáist. Hæstv. forsrh. segir að vísu að ríkisstj. sé öll af vilja gerð að styðja við bakið á mönnum fyrir vestan við útvegun hráefnis, án þess þó að tilgreina nánar hvernig það má verða. Ég hefði haft gaman af að heyra hæstv. ráðh. skýra nánar frá því.

Ég ætla ekki að fara að pexa við hæstv. ráðh. um það, hvenær atvinnuástandið verði slæmt á Íslandi. Það getur orðið slæmt í byggðarlagi eins og Ólafsvík þó að enginn sé á atvinnuleysisskrá, vegna þess að það lifir ekki nokkur maður lengur á því kaupi sem hann hefur fyrir eðlilega dagvinnu. Það, sem hér er um að ræða, er að vegna hráefnisskorts hefur fólk misst eftirvinnuna, og það ástand ríkir á Íslandi að verkalýður getur ekki dregið fram lífið öðruvísi en að þræla 10–12 tíma á sólarhring. Ég vil leyfa mér að segja það, að það er að mínum dómi snefsin kurteisi í garð þessa fólks þegar hæstv. forsrh. heldur því fram að atvinnuástand hjá því sé ekki slæmt. Það, sem felst í þessum upplýsingum hans um atvinnuleysisskráningu, er að menn hafa nokkurn veginn getað fengið eðlilega dagvinnu hingað til. En ástandið þar vestra er alltaf að versna.

Um verbúðirnar í Rifi þarf ég ekki að orðlengja frekar. Ég tók fram í ræðu minni áðan hvílík nauðsyn væri fyrir atvinnuþróun þar á staðnum að hafa góðar verbúðir. En í viðhorfi viðkomandi lánastofnana tel ég að komi fram nokkuð svo lærdómsríkur skilningur á því hvað teljast megi sæmileg kjör verkalýðs, þegar synjað er um lán til þessara framkvæmda á þeirri forsendu að þarna sé verið að bjóða verkalýðnum of mikinn lúxus.