16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans við fsp. minni. Ég vil segja það fyrst, að mönnum þykir það kannske liggja nokkuð fjarri að taka upp vangaveitur nú um að ríkið geri út fiskiskip. Þetta mál er svo sem engan veginn nýtt. Það hefur oft verið flutt hér á Alþ. Það mun hafa verið flutt upphaflega 1950 og þá af alþfl: mönnum. 1955 var það flutt af Hannibal Valdimarssyni og Eiríki Þorsteinssyni og það má tengja þá við tvo stjórnmálaflokka á Íslandi. Það var flutt í frv: formi árið 1969, þá af sex þm. Framsfl. úr jafnmörgum kjördæmum landsins, og á sama þingi var það flutt af tveimur þm. Alþb. Síðan hefur verið hljótt um þessar hugmyndir. Og ég vil aðeins vekja athygli á því, að sú hugmynd, sem ég hreyfi í þessari fsp., er þannig, að ríkið sé ekki til frambúðar að taka upp ríkisútgerð á fiskiskipum, heldur sé farin þessi leið til að leysa ákveðin vandamál.

Ég veit að fyrsta svarið yrði í þá átt, að ríkissjóður ætti ekki að standa í slíkum útgjöldum. Ég vil aðeins benda í því sambandi á það, að ríkissjóður stendur nú þegar fyrir miklum útgjöldum vegna togaraflota landsmanna. Ef gætt er að því, hvað mætti búast við að ríkið þyrfti að leggja út á einu ári, þá hef ég þær upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun að þar sé áætlað rekstrartap togaranna, sem eru yfir 500 brúttó-smálestir, um 30 millj. kr. yfir árið, þar af er gert ráð fyrir að afskriftir séu um 22 millj., þannig að það eru þá um 8 millj. til viðbótar við afskriftirnar. En á árinn 1977, sem hér er raunverulega rætt um, er áætlað tap 24 millj. eða u.þ.b. það sama og afskriftirnar. Við s.jáum í ríkisreikningi hvernig háttað er ábyrgðum ríkissjóðs eða greiðslum Ríkisábyrgðasjóðs vegna þeirra togara sem eru innan við 500 brúttósmálestir. Ég hef þær upplýsingar, að á árinu 1975 hafi verið greiddar 289.2 millj. kr. vegna ríkisábyrgða togara sem eru yfir 500 brúttósmálestir, og áætlaðar greiðslur til loka septembermánaðar 1976 eða á yfirstandandi ári eru 212.7 millj. kr. Að sjálfsögðu er hér ekki um neinar endanlegar tölur að ræða, enda falla á árinu tvær afborganir vegna þessara lána. Mér skilst að Ríkisábyrgðasjóður eða ríkissjóður hafi tekið þessi lán beint og standi skil á þeim og hafi endurlánað innanlands. En þetta gefur þó nokkra vísbendingu, og hér er um mjög breytilegar stærðir að ræða á milli togara, allt upp í 40 millj. fyrir einstakt skip á þessu ári.

Ég vil þess vegna endurtaka það, að ég tel að það sé hugmynd sem verulega og í alvöru mætti skoða, hvort ekki væri rétt að taka skip á leigu til skamms tíma. Ég heyrði það þegar Landhelgisgæslan skilaði Ver, að eigendurnir væru tregir til að taka við skipinu. Við höfum líka séð í blöðum hugmyndir um að þeir leigi það. En hvort sem skipið heitir Ver eða eitthvað annað, ég hef heyrt nefnd fleiri skip sem væru á lausu, þá vil ég líka vekja athygli á því, að við getum farið út fyrir íslenskan leigumarkað til að leysa þetta mál.

Ég vil líka segja í sambandi við það sem kom fram hjá hv. 9. landsk. þm., að ég vil ekki taka undir það atriði, að fiskstofnarnir leyfi ekki að aflað sé hráefnis til einhvers ákveðins staðar. Við getum ekki gert upp á milli staða. Það eru hvort sem er að koma ný skip til landsins sem leggjast á þessa fiskstofna með öðrum. Ég tel vel hugsanlegt að gera út skip sem í hverri veiðiferð, þó það sé nokkuð stórt, gæti séð fyrir hráefni fyrst og fremst til Bíldudals og verði þá hægt að flytja hráefnið á milli, til Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og eins til fleiri en einnar útgerðarstöðvar á Snæfellsnesi ef um það væri að ræða.

Ég sé að tími minn er búinn, herra forseti, svo ég læt hér staðar numið þó ég vildi gjarnan hafa sagt fleira.