16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Bæði í sambandi við þessa fsp. og þá á undan hér í dag tala menn um að það muni ekki mikið um einn togara til viðbótar. Það munar nú ekki mikið um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni. En ég vil minna þm. á það almennt hvernig ástatt er í okkar veiðimálum, hversu langt við göngum fram úr því, sem vísindamenn okkar leggja til, til þess að komast hjá því að binda þau skip sem fyrir eru. Það er staðreynd að það er von á næstu mánuðum á 8 nýjum skuttogurum sem bætast við fiskiskipaflota landsmanna, 3–4 erlendis frá, þar af 3 frá Póllandi, og 4 sem eru byggðir innanlands. Þetta er engin smáviðbót við það sem fyrir er. Það er líka staðreynd að ef ríkisábyrgð verður veitt, þá verður ekki hægt að stöðva sig á minna en 12–15 skuttogurum, og það eru e.t.v. 12–14–15 staðir á landinu sem benda með réttu á að þeir eigi framleiðslutæki og frystihús þar sem vantar stórkostlega hráefni, sem hafa ekki nema jafnvel 40-50% upp í afkastagetu frystihúsanna. Ef verður farið af stað með leigu á einu skipi fyrir einn stað, þá verður ekki numið staðar við það. Ólafsvík mundi aldrei sætta sig við að skip yrði tekið á leigu sem landaði eingöngu á Bíldudal, og ýmsir aðrir staðir, bæði austan-, norðan- og vestanlands, mundu koma inn í þetta dæmi líka. Þannig væri verið að bæta stórkostlega við togaraflotann. En það er eins og menn hafi gefið bátaútgerð alveg upp á bátinn. Þetta er hreinn misskilningur og alveg ástæðulaust að taka undir þessa svartsýni. Svo segja aðrir: Ef þessi og hinn fær skuttogara, þá skulum við haga okkur eins og þeir sem haga sér svona á undan, við seljum bara bátana. Það er nógur markaður fyrir bátana. Þá eigum við rétt á skuttogara. — Ætlar svo Alþ. að syngja þennan söng dag eftir dag?