16.11.1976
Sameinað þing: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

Mræður utan dagskrár

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir með þeim ræðumönnum sem hafa minnst á þetta mikla vandamál okkar sem — eins og kom hér fram — er bæði heilbrigðismál og félagsmál. Þetta er vandamál vegna þeirra mörgu einstaklinga sem lenda í ógæfu af völdum áfengisins. Það hefur verið minnst hér á að það þurfi meira fjármagn til að berjast á móti neyslu þess og reyna að leysa vanda þeirra sem eru orðnir því háðir. Ég get vissulega tekið undir það. En mér finnst þó að það sé fyrst og fremst eitt sem muni þarna hafa a.m.k. mest áhrif, og það er að þjóðfélagið skipi áfenginu á sama bekk og þeim ávana- og fíkniefnum sem nú er verið að berjast gegn að nái fótfestu í landinu. Mér er það ljóst að slíkt verður ekki gert með löggjöf í skjótri svipan, og ég er ekki að meina það, heldur að viðhorf fólks til áfengis verði það sama og til þessara ávana- og fíkniefna, þannig að það verði talið sjálfsagt að berjast gegn neyslu þess og þar eigi ríkisvaldið að ganga á undan. Við vitum að neysla áfengis er nú talin sjálfsögð og eðlileg, og á meðan svo er er ég hræddur um að við eigum alltaf í höggi við þetta vandamál og það verði erfitt fyrir okkur að komast hjá því að það verði nokkuð stór hluti fólks, sem lendir í algerum vandræðum vegna neyslu þess.