17.11.1976
Efri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

75. mál, tollskrá

FIm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 83 frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o.fl., nr. 6 frá 1974, svo hljóðandi:

„1. gr. Aftan við almennar reglur um túlkun tollskrárákvæða í 1. gr. laganna komi nýr tölul., svo hljóðandi:

5. Ekki skal beita samtollun við tollafgreiðslu vöru úr tollvörugeymslum, heldur skal farið eftir tollskrárnúmerum, flokkist vara undir sérstakt tollskrárnúmer.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég leyfi mér að lesa grg. sem ég hef látið fylgja með, en hún skýrir málið að nokkru eða öllu leyti:

„Sérstaða tollafgreiðslu úr tollvörugeymslum er öllum ljós, sem til þekkja.

Úr tollvörugeymslu getur innflytjandi tekið tiltölulega litið magn úr stórum sendingum, eftir því sem markaður og eftirspurn krefst hverju sinni, og er þá óeðlilegt að greiða hærri toll en ákvæði viðkomandi tollskrárnúmer segja til um, eingöngu vegna þess að hlutir í öðrum og hærri tollflokkum voru einnig í hinni sömu vörusendingu frá útlöndum, sem ekki verða notaðir í sambandi við þá vöru, sem út er tekin, þegar sú vara er seld. Við samtollun, sem í eðli sínu veldur verðhækkun, skapast misræmi í verðlagi eftir því, hvernig vörusendingum er háttað, en það er oft ekki á valdi innflytjenda að ráða því. Stór fyrirtæki vilja komast hjá því að setja smásendingar á mörg farmskjöl.

Rétt er að leggja áherslu á að tollvörugeymslum og viðskiptamönnum þeirra er mikið kappsmái að fá gerða á framkvæmd tollafgreiðslu þá breytingu sem frv. felur í sér. Má vísa m.a. til eftirfarandi stjórnarsamþykktar í Tollvörugeymslunni hf. í Reykjavík, sem gerð var á stjórnarfundi 7. nóv. 1974:

„Stjórnarfundur í Tollvörugeymslunni hf., haldinn fimmtudaginn 7. nóv. 1974, telur að brýna nauðsyn beri til að breytt verði framkvæmd á samtollun þess varnings, sem fer í tollvörugeymslur félagsins, vegna sérstöðu tollafgreiðslu þaðan. Sé nauðsyn lagabreytingar í þessu sambandi, samþ. stjórnin að vinna að því að svo verði gert.“

Tilraunir stjórnar Tollvörugeymslunnar hf. til að fá fram breytingar í framangreinda átt hafa ekki borið árangur, og því er frv. þetta borið fram.“

Það er rétt að það komi hér fram, að erindi þetta var á sínum tíma sent tollstjóranum í Reykjavík sem vísaði því til afgreiðslu fjmrn., en þar hefur það legið óhreyft eða ósvarað í tvö ár. Hér er um mál að ræða sem skapar talsverðan rugling í innheimtu tollgjalda, þar sem sama varan er á mismunandi verði eftir því hvort hún kemur sér á farmskírteini og vörureikning eða hún er afgreidd með öðrum vörum sem sama fyrirtæki þarf að senda til víðkomandi lands. Það getur komið fyrir að sama varan úr tveimur sendingum liggi hlið við hlið í hillum á tvenns konar ólíku verði. Það er náttúrlega ófært og ekki ætlast til þess að svo sé.

Til upplýsingar fyrir hv. þm., þá sem ekki vita þegar, get ég upplýst að í tollvörugeymslum eru vörur teknar úr flutningaumbúðum og settar í hillur, raðað þar upp eins og í verslunum væri og biða þar tollafgreiðslu í neytendapakkningum.

Að lokum vil ég leggja til að málinu verði vísað til hv. fjh: og viðskn.