17.11.1976
Neðri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

71. mál, móttökuskilyrði fyrir sjónvarpssendingar á fiskimiðum úti fyrir Vestfjörðum

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 77 flyt ég frv. til l. um ráðstafanir til þess að bæta móttökuskilyrði fyrir sjónvarpssendingar á fiskimiðunum úti fyrir Vestfjörðum.

Í 1. gr. þessa frv. segir svo: „Ríkisstj. skal fela Ríkisútvarpinu að láta reisa endurvarpsstöð fyrir sjónvarp á fjallinu Barða milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar.“

2. gr.: „Ríkisstj. er heimilt að taka lán allt að 20 millj. kr. til þessara framkvæmda.“

3. gr.: „Lán það, sem tekið verður samkvæmt 2. gr., og annar kostnaður við verkið skal endurgreiðast smám saman með árlegum fjárlagafjárveitingum.“

Og 4. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það hefur verið mikið rætt og ritað á undanförnum árum í sambandi við sjónvarpið. Á þessu ári eru 10 ár liðin frá því að sjónvarpið hóf göngu sína hér, en þrátt fyrir þann árafjölda skortir talsvert á að þessi fjölmiðill nái til allra landsmanna og í þeim hópi er sjómannastéttin hér á landi.

Mér er það vissulega ljóst, að þó að víða sé þörf úrbóta varðandi dreifingu sjónvarps víðs vegar í hinum strjálu byggðum og mikil þörf sé á úrbótum í þeim efnum og fyllilega ástæða til að vinda að því bráðan bug að gera átak til úrbóta, þá ber hinu ekki að leyna, að sjómannastéttin hefur að verulegu leyti sérstöðu í þessu efni. Auk þess að sjómenn eru afskiptir þessum nútímafjölmiðli sem sjónvarpið er, þá er starf þeirra þann veg háttað að þeir eru langdvölum fjarri heimilum sínum og hafa af þeirri ástæðu enn meiri þörf fyrir þessa sjálfsögðu þjónustu, þó að ég vilji á engan hátt draga úr nauðsyn þess að til annarra, sem enn skortir þessa þjónustu, verði litið og ráðstafanir gerðar til þess að bæta úr, þannig að þeir geti notið þessa sjálfsagða fjölmiðils.

Það er kunnara en hér þurfi frá að segja, að mikill fjöldi skipa víðs vegar af landinu stundar veiðar á miðunum úti fyrir Vestfjörðum svo að segja allt árið um kring. Ekki er hér um að ræða bara vestfirskan skipastól, heldur má segja, eins og áðan var að víkið, að bátar víðast hvar að af landinu stundi veiðar á þessum miðum. Þeir skipta oft og tíðum hundruðum, þeir sjómenn sem eru við veiðar á þessu svæði, og þessir einstaklingar gætu notið þessarar aðstöðu sem sjónvarpið er, þessa fjölmiðils, með tiltölulega litlum tilkostnaði, eins og fram kemur í grg. þessa frv., en vikið skal að síðar.

Margar þáltill. hafa verið fluttar hér á Alþ. um úrbætur á dreifingu sjónvarps, en þær hafa þó flestar verið á þann veg að úrbóta væri þörf og úrbætur ætti að gera að því er varðar byggð í landi. Veturinn 1973 flutti ég till. til þál. um að ríkisstj. yrði falið að gera þegar ráðstafanir til þess að bæta móttökuskilyrði fyrir sjónvarp á fiskimiðunum úti fyrir Vestfjörðum. Í meðförum þeirrar n., sem fékk þessa till til meðferðar, var henni breytt á þá leið að ríkisstj. var falið að kanna ítarlega skilyrði til móttöku sjónvarpssendinga á fiskimiðunum í kringum landið og jafnframt að láta gera kostnaðaráætlun um úrbætur reyndist þeirra þörf. Þessi till. mín var því útvíkkuð á þann veg, að í stað þess að afmarka sig við eitt svæði, þá var talið rétt að tekið yrði allt landið í heild og öll miðin. Ekki hafði ég á móti því að sjálfsögðu að gert yrði meira átak heldur en þetta sem ég var þá með í huga að því er varðaði Vestfjarðamið, og till. þessi var samþ. hér á Alþ. vorið 1973 í þessu breytta formi. Skýrslu um könnun samkvæmt þessari þáltill., sem samþ. var, átti að skila um haustið 1973, þ.e.a.s. hún átti að vera tilbúin þegar þing kæmi saman þá um haustið. Þessari könnun var ekki lokið á árinu 1973 og í nóvembermánuði árið 1974 bar ég fram fsp. hér í þinginu um hvað liði þessari athugun. Þá kom í ljós í svari hæstv. menntmrh. að könnun þessari væri lokið, þ.e. haustið 1974. Síðan þetta gerðist eru nú liðin tvö ár og mér vitanlega hefur ekki neitt gerst að því er varðar þetta mál, og mig a.m.k. er farið að lengja eftir því að úrbætur fáist. Það er m.a. ástæðan fyrir því, að ég flyt það frv. sem hér er nú til umr.

Á árinu 1972 var gerð af Póst- og símamálastjórninni athugun á leið til að beina sjónvarpsmerki út á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum. Sú athugun leiddi í ljós að endurvarpsstöð á Barða mundi hvað best þjóna þeim tilgangi að bæta móttökuskilyrði fyrir sjónvarp á fiskimiðunum úti fyrir Vestfjörðum og einnig mundi sjónvarpsstöð á Barða, endurvarpsstöð, þjóna að einhverju leyti byggð í landi á því svæði sem ekki nýtur sjónvarpsskilyrða nú. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv., fylgdi þessari könnun Pósts- og símamálastjórnarinnar kostnaðaráætlun og hljóðaði hún samtals upp á 4.5 millj. kr. árið 1972. Mér fannst, þegar þetta var ljóst, að hér væri um svo tiltölulega litla fjármuni að ræða, 41/2 millj. til þess að koma í framkvæmd þessu mikla og brýna hagsmunamáli sjómannastéttarinnar, að vart gæti komið til mála að ekki yrði ráðist í framkvæmd með þessum hætti og ráðstafanir yrðu gerðar til þess að hefja nú framkvæmdir í þessu máli.

Að sjálfsögðu hefur allt verðlag hækkað að mun frá því að þessi kostnaðaráætlun var gerð. Ég hef ekki í höndum alveg óyggjandi tölur um það, hvað 41/2 millj. árið 1972 mundi þurfa að vera nú til þess að bæta upp þann hækkaða tilkostnað sem hefur orðið síðan. En ég tel ekki ólíklegt að ætla að sú upphæð, sem tilgreind er í frv., þ.e.a.s. 21) millj. kr., muni fara a.m.k. nokkuð langt að sinna þessu verkefni, ef gengið er út frá því að nokkurn veginn hafi mátt treysta að rétt væri sú kostnaðaráætlun sem gerð var árið 1972. Ég er þeirrar skoðunar enn, að hér sé um svo tiltölulega litla framkvæmd og tiltölulega lítið fjármagn að ræða að það sé engin ástæða og engin rök finnanleg fyrir því að ekki mundi verða samþ. að ráðast í framkvæmd í þessum efnum a.m.k. er þetta tiltölulega lítill kostnaður þegar hugsað er til þeirrar miklu þjónustu sem þessi framkvæmd kæmi til með að veita þeim aðilum, sem hér um ræðir, til bóta frá því sem nú er.

En þó að þetta sé mín skoðun, þá má vera að eigi að siður finnist einhverjum hér í mikið ráðist og að ekki sé á bætandi lántökur á vegum ríkissjóðs, eins og málum er nú háttað. Vissulega má segja að það séu rök í málinu, að ekki sé hægt að leggja meiri byrðar á landsmenn vegna aukinnar lántöku heldur en nú er. En eigi að síður er ég þeirrar skoðunar, og ég vænti að margir hv. þm. séu sammála mér, að 20 millj. til þessarar ráðstöfunar nú verði ekki til þess að skapa neitt fordæmi til aukinnar lántöku til handa ríkisslóði, þó að orðið yrði við þessu og í framkvæmdir yrði ráðist eins og hér er gert ráð fyrir.

Mér er það alveg ljóst einnig, að það munu koma hér upp raddir um að það sé óskynsamlegt og óeðlilegt að taka út úr svæði til þess að byrja á framkvæmdir, eins og hér er gert ráð fyrir, við eigum að hafa í sjóndeildarhringnum öll miðin, allt landið og síðastur skal ég verða til þess að mæla gegn því, ef það er talið fært peninganna vegna að ráðast í framkvæmdir sem tryggt gætu eins og verða má móttökuskilyrði fyrir sjónvarpssendingar á öllum miðunum í kringum landið, — þá skal ég verða síðastur manna til þess að andmæla því eða standa gegn því. En mér hefur bæði fundist og heyrst á hæstv. ráðh. og þeim, sem bera ábyrgð á fjármálum ríkissjóðs nú, að þeir telji að fjárhagsstaða ríkisins sé ekki með þeim hætti að það sé hægt að leggja út í stórkostlega aukinn kostnað til þess að þjóna að mínu viti þó mjög svo mikilsverðri framkvæmd til úrbóta í þessu máli. Ég held því, að hvort sem mönnum þykir það ljúft eða leitt, þá verði að borfast í augu við það. við stöndum frammi fyrir því að það virðist ekki vera á því möguleiki að fá fjármagn til að ráðast í framkvæmdir í stærra mæli en hér er gert ráð fyrir og verði því að taka eitthvað út úr. Í þessu tilviki tel ég brýnast að byrja á þessu svæði, vegna þess að það kemur ekki bara til góða vestfirskum sjómönnum. það kemur til góða að verulegu leyti sjómönnum af öllu landinu vegna þeirrar sérstöðu sem miðin úti fyrir Vestfjörðum hafa eins og nú er orðið, þ.e.a.s. á þeim miðum eru bátar frá flestum landshlutum allt árið um kring.

Eins og ég vék að áðan, þá gerir þetta frv. ráð fyrir því að nú þegar verði hafist handa um framkvæmd þessa nauðsynjamáls og að ríkisstj. verði heimilað að taka lán til þessara framkvæmda sem síðar endurgreiðist með fjárveitingum á fjárlögum á næstu árum.

Það er rétt að það komi hér fram, að þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hefur um nokkurt árabil ítrekað með samþykktum nauðsynina á því, að hafist yrði handa um framkvæmdir af þessu tagi, og einnig er rétt að það komi hér fram, að á fjórðungsþingum fiskideildanna á Vestfjörðum hefur þetta mál einnig verið mjög til umr., og síðast núna í haust var ítrekuð samþykkt á 36. fjórðungsþingi fiskideildanna á Vestfjörðum einmitt um þetta efni, að hafist yrði handa um úrbætur til þess að beina sjónvarpssendingum út á miðin úti fyrir Vestfjörðum.

Með framkvæmd á því, sem hér er gert ráð fyrir og frv. gerir ráð fyrir, og samkvæmt þeirri athugun, sem Póst- og símamálastjórnin gerði árið 1972, eru allar líkur á því að skilyrði til móttöku sjónvarpssendinga á miðunum úti fyrir Vestfjörðum mundu vera ágæt, þ.e.a.s. fullkomin skilyrði mundu vera a.m.k. út að 30 mílna mörkum, ágæt sjónvarpssending út að a.m.k. 30 sjómílum á miðunum úti fyrir Vestfjörðum, og samkvæmt þessari athugun þeirra hjá Póst- og símamálastjórn mundu skilyrði til móttöku sjónvarpssendinga verða miðlungi góð út að 45–50 mílna mörkum.

Ég tel því að þessi athugun og niðurstöður hennar sýni að framkvæmd eins og hér er gert ráð fyrir, sem ekki kostar þó meiri fjármuni en þetta, komi til með að skila svo miklum árangri til þeirra aðila, sem hér um ræðir, að hún sé á allan hátt réttlætanleg og það sé ekkert sem mæli gegn því, þrátt fyrir tal um slæma fjárhagslega afkomu ríkissjóðs, þá sé ekkert sem mæli gegn því að nú þegar verði hafist handa að bæta úr þessu ófremdarástandi sem hefur verið og er enn. Það er ekki nokkur vafi á því, reynist niðurstöður þessarar könnunar réttar, sem ég hef enga ástæðu til að ætla annað en sé, að hér er um að ræða svo geysilega mikla bót á því ástandi sem nú er, að það er ekkert sem mælir gegn því að nú þegar verði í það ráðist, — bót sem kæmi til góða þeim þegnum þjóðfélagsins sem fyrst og fremst hafa staðið og standa undir þeirri velmegun sem orðið hefur hér á landi á undanförnum áratugum, en það eru sjómennirnir, sjómannastéttin. Og það væri vissulega vel til fallið nú á 10 ára afmæli sjónvarpsins að minnast þessara tímamóta með því að hrinda í framkvæmd verkefni eins og því sem þetta frv. gerir ráð fyrir, — verkefni sem er tiltölulega smátt í sniðum, en eigi að síður kemur til með að þjóna geysilega miklum fjölda innan íslenskrar sjómannastéttar sem ekki nýtur sjónvarpssendinga nú. Það er álit mitt, og ég hygg að svo sé um fleiri, að sjómenn eigi það sannarlega skilið að reynt sé að sinna verkefnum af þessu tagi heim til banda. Mjög margir framámenn íslensku þjóðarinnar hafa á orði a.m.k. einu sinni á ári, þ.e. sjómannadaginn, að íslenskir sjómenn séu hetjur hafsins, þeir séu sá máttarstólpi sem lagt hefur grundvöllinn að því nútímaþjóðfélagi sem Ísland er orðið. Þetta er vissulega rétt og satt og undir það skal tekið. Slík orð af vörum framámanna hér á landi ylja að sjálfsögðu sjómönnum og aðstandendum sjómanna um hjartarætur. Ég tel hins vegar víst að framkvæmdir á borð við þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, mundu ylja sömu aðilum miklum mun meira um hjartarætur og jafnframt væri þá í verki sýnt fram á að einhver meining væri í áður tilvitnuðum orðum og yfirlýsingum ráðandi manna.

Ég vænti þess fastlega að þetta frv. fái góðar viðtökur hér meðal hv. þm., og ég vænti þess að þeir séu mér um það sammála að hér sé farið fram á það tiltölulega lítið að ekkert sé sem mæli með því að það væri staðið gegn því að þessi réttarbót nái fram að ganga. Ég vona sannarlega að frv. fái svo jákvæðar undirtektir hér í þinginu að það verði afgreitt, samþykkt og afgreitt á sem allra skemmstum tíma. Það eiga að liggja fyrir öll gögn sem þetta varða, og ætti því ekki að vera neitt til fyrirstöðu með að málið fengi nokkuð skjóta meðferð hér í þinginu sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að það yrði samþykkt og nú yrði í það ráðist að verða við þessum margra ára gömlu tilmælum, — ekki bara sjómannastéttarinnar, heldur og margra fleiri aðila sem um þetta mál hafa fjallað.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð að sinni. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og líklega hv. fjh.- og viðskn.