17.11.1976
Neðri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

70. mál, endurhæfing

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að hefja neinar almennar umr. við hæstv. heilbrrh. um heilbrigðismál því ég hef beðið hann að flytja skýrslu um það mál hér á Alþ. og á það hefur verið fallist, þannig að sú skýrsla kemur væntanlega fljótlega og þá getum við rætt þau mál.

Ég vil þakka hæstv. ráðh, fyrir undirtektir við till. mína. Ég gat ekki annað heyrt en að hann væri sammála því sem í henni felst, og ég er sammála ýmsum þeim hugleiðingum sem fram komu í ræðu ráðh. Það er aðeins eitt atriði sem mig langar til að gera aths. við.

Hann gat þess, að því er virtist eins og hann væri að ámæla mér sem fyrrv. heilbrrh., að ráðist hefði verið í stóra deild við Landsspítalann í Reykjavík á sama tíma og sett var löggjöf um heildarframkvæmdir í landinu öllu og ákveðið að láta þar hafa forgang þá staði sem erfiðasta aðstöðu hefðu. Þessi deild við Landsspítalann sem hæstv. ráðh. nefndi nú ekki, það er geðdeild. (Gripið fram í.) Já, stærsta framkvæmdin er geðdeildin og hún er hugsuð fyrir landið allt. Það er ekki um aðrar stofnanir að ræða utan deild á Borgarspítalanum sem fjallar um geðsjúkdóma, og þessi deild er fyrir landið allt. Því miður er það ein af ávirðingum hæstv. heilbrrh. að hann hefur haldið ákaflega illa á málum í sambandi við fjáröflun til þessarar mjög svo brýnu framkvæmdar, þannig að sáralítið hefur verið unnið á þessu ári að þessari byggingu, og er ákaflega háskalegt ef mál eiga að þróast á þessa braut. Ég hygg að allir þm. muni eftir þeim árum þegar Borgarspítalinn og ýmsar deildir á Landsspítalanum voru í byggingu í meira en áratug án þess að nokkurt þeirra fengist að fullgera. Þar var farið illa með peninga og þar var staðið illa að nauðsynlegum málum. Við megum ekki sökkva ofan í þetta fen aftur. En framkvæmdunum í sambandi við geðdeildina er því miður verið að sökkva niður í það fen.

Hæstv. ráðh. talaði einnig um að það væri erfitt að halda á heildarframkvæmdum í þessum málum því það væri uppi sjónarmið á mörgum stöðum um það hver röð framkvæmda ætti að vera. Þess vegna var sett inn í þá heildarlöggjöf, sem gerð var fyrir nokkrum árum, ákvæði um að heilbrrn. skyldi gera 10 ára áætlun og leggja hana fyrir Alþ. Þessa áætlun skyldi síðan endurskoða á tveggja ára fresti. Þetta var til þess að hægt væri að leggja á ráðin um þróun þessara mála dálítið fram í tímann, að þeir, sem kannske gætu ekki fengið fjárveitingu í ár, þeir vissu að þeir fengju fjárveitingu næsta ár, þannig að unnt væri að standa að þessum nauðsynlegu framkvæmdum á svipaðan hátt og staðið hefur verið að framkvæmdum í vegamálum að undanförnu. Við erum æðimargir hér sem munum hvernig tillöguflutningi í sambandi við vegamál var háttað fyrr á árum. Sú breyting, sem þar hefur verið gerð, er ákaflega skynsamleg. Og í lögunum var gert ráð fyrir að þannig yrði einnig unnið að heilbrigðismálum. En það hefur engin slík áætlun komið frá hæstv. ráðh, og ég veit satt að segja ekki til þess að unnið hafi verið að þessari áætlun í heilbrrn. Þetta tel ég vera ákaflega alvarlegt mál því þarna verðum við að gera stórátak, og við gerum það ekki á skynsamlegan hátt nema með áætlunargerð af þessu tagi, nema með því að set.ja okkur mark og vita hvaða þróun við viljum hafa nokkur ár fram í tímann.

En sem sagt, ég ætla ekki að fara í almennar umr. um þessi mál vegna þess að ég hef gert ráðstafanir til þess að þær geti farið fram nú á næstunni.