18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

23. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég er því mjög sammála að mál þetta verði skoðað frá sem flestum eða öllum hliðum að unnt er, og í því sambandi kemur auðvitað til athugunar þetta atriði sem hv. síðasti ræðumaður benti á, fyrirkomulag sem þekkist viða annars staðar, að það sé bifreiðaverkstæði sem hafi með höndum skoðunina. En ég held að það verði óhjákvæmilegt, ef ætti að koma til slíkrar breytingar, að setja reglur um bifreiðaverkstæði, því að þær eru nú víst mjög takmarkaðar, að ég held, og löggilda þau bifreiðaverkstæði sem væru tekin gild í þessu sambandi. Það er alveg áreiðanlegt að þá kröfu yrði að gera, ef þeim ætti að fela þetta verkefni, og þá yrði auðvitað jafnframt að leggja einhverja ábyrgð á þau. Nú vitum við það að bifreiðaverkstæði eru misjafnlega úr garði gerð og það eru margir sem fást við bifreiðaviðgerðir, kannske við aðstæður sem eru ófullnægjandi, þannig að þetta atriði yrði að taka til skoðunar. Ég tel að það sé lítt hugsanlegt að vottorð frá bifreiðaverkstæði komi til greina nema það sé löggilt bifreiðaverkstæði.

Í annan stað vil ég undirstrika það, að menn þurfa ekki að vera hissa á því þó að kostnaður við bifreiðaskoðun og bifreiðaeftirlit hafi farið vaxandi á undanförnum árum. Ég vil aðeins benda mönnum á að líta á bls. 3 í þessu frv., grg., þar sem gerð er grein fyrir því, hversu mjög bifreiðum hefur fjölgað með ári hverju, og enn fremur öllum umskráningum sem eiga sér stað. Og ég vil einmitt leggja áherslu á það, að þegar talað er um sparnað í þessu sambandi, þá er ekki aðeins um að ræða að það verði sparnaður hjá Bifreiðaeftirlitinu sem slíku, heldur er um að tefla sparnað við vinnu og kostnað hjá þeim stofnunum sem hafa nú með höndum skráningu og umskráningu bifreiðanna, sem sé hjá lögreglustjóraembættum víðs vegar um landið. En ég tel að það ætti að vera nokkuð augljóst mál, að hjá þeim ætti að geta orðið nokkur sparnaður af þessu tagi, sparnaður í vinnu. Hvað hann kemur mikið fram í krónum, það skal ég ekki segja um. En hitt virðist liggja í augum uppi, að það hljóti að vera æðimikil vinna sem fer hjá þessum embættum í það að annast þessi störf, og þá hlýtur það að vera sparnaður sem þar kemur til greina.

Bifreiðaskoðun má að mínum dómi ekki miða við það, eins og hún hefur kannske of mikið verið miðuð við hér, að hún sé tæki, að nokkru leyti a.m.k., til innheimtu og það fari bara fram skoðun einu sinni á ári og menn verði að greiða sina skatta til þess að fá þessa skoðun. Ég held að það hljóti að vera markmiðið að skoðun og eftirlit með bifreiðum fari fram miklu oftar, og það er náttúrlega byrjað á því og reynt að gera það.

Hér í Reykjavík hefur Bifreiðaeftirlið búið til alls ófullnægjandi aðstöðu, eins og allir geta kynnt sér sem hafa áhuga á því. Það er verið að reyna að bæta talsvert úr því nú. Víðast hvar úti um land er aðstaðan einnig mjög ófullnægjandi sem bifreiðaeftirlitsmenn eiga við að búa. En þó er á stöku stað komin upp aðstaða sem er mun betri en áður var og bar sem þægilegra verður að fást við þessi efni. Ég held að það verði óhjákvæmilegt að leggja í það að styrkja þá aðstöðu viða úti um landið. Ef menn hafa kynnt sér hvernig aðbúnað sumir bifreiðaeftirlitsmenn úti um landið hafa, þá held ég að menn hljóti að fallast á þá skoðun að það sé nauðsynlegt að bæta aðstöðu þeirra.

En sem sagt, ég vildi undirstrika það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að ég er auðvitað mjög ánægður með að þetta mál verði allt skoðað nákvæmlega frá öllum hliðum. Ég álít að það sé með því opnuð leið til þess að koma við sparnaði og hagræðingu. Ég ætla ekki að fara að leggja sérstakt kapp á það að þetta komist á. En ég vil gefa þm. tækifæri til þess að taka afstöðu til þess, þannig að það liggi á hreinu hvort menn vilja breyta til eða ekki. Það getur orðið þeim mun erfiðara að gera þessa breytingu, þeim mun lengur sem líður.